Helgi Júlíus Hjartalæknir og tónlistarmaður sinnir hjörtum annarra þegar hann mætir í vinnuna en í frítímanum sínum hjartans málum, tónlistinni.
Helgi Júlíus Hjartalæknir og tónlistarmaður sinnir hjörtum annarra þegar hann mætir í vinnuna en í frítímanum sínum hjartans málum, tónlistinni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Læknirinn syngjandi, Helgi Júlíus Óskarsson, hefur gefið út þrjár plötur á undanförnum tveimur árum en að hans sögn hefur tónlistin alltaf verið honum kær.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is Læknirinn syngjandi, Helgi Júlíus Óskarsson, hefur gefið út þrjár plötur á undanförnum tveimur árum en að hans sögn hefur tónlistin alltaf verið honum kær. „Áhugi minn á tónlist byrjaði snemma og sem unglingur var ég töluvert í tónlistinni. Ég fór síðan í læknisfræði og eftir að ég fór út í framhaldsnám gafst lítill tími fyrir tónlistina nema bara rétt á kvöldin til að slaka á eftir vinnu,“ segir Helgi sem ílengdist úti í tuttugu og fimm ár. „Eftir að ég kom heim og mér hefur gefist meiri tími til að sinna tónlistinni hef ég minnkað við mig læknastörfin og gefið tónlistinni enn meiri tíma.“ Helgi fór að taka upp lagahugmyndir sínar og kom þeim á endanum til KK sem hvatti hann til þess að gefa út tónlistina og kom honum í samband við trúbadorinn Svavar Knút. „Svavar tók að sér verkefnið og hjálpaði mér með útsetningu og hljóðfæraleik. Frá þeim tíma hef ég gefið út þrjár plötur en sú fyrsta kom út 2010 og heitir Sun for a Lifetime og síðan gaf ég út plötuna Haustlauf í nóvember og í janúar gaf ég út plötuna Kominn heim.“

Þjóðlagapoppið, reggí og blús

Fyrstu tvær plötur Helga eru í rólegri kantinum og lýsir hann þeim sjálfur sem þjóðlagapoppi af rólegri endanum. Nýjasta plata hans Komin heim er þó af öðrum toga en þar er að finna reggítónlist sem Helgi heldur mikið upp á. „Margir hafa komið að máli við mig og sagt mér að fyrstu tvær plöturnar minni á tónlist James Taylor og Paul Simon. Nýja platan er svo í allt öðrum stíl eða reggí og næsta plata sem ég vinn að verður blúsplata.“

Margir tónlistarmenn eru farnir að gefa út plötur sínar á vínil ásamt því að selja tónlistina á netinu en Helgi segist ekki hafa nein áform um vínilútgáfu. „Það kostar sitt að brenna tónlistina á geisladiska og ég get ímyndað mér að vínillinn sé töluvert dýrari. Það er líka erfitt að selja tónlist í dag því ungt fólk hleður hana af netinu svo ég sé bara til með framhaldið og vínilinn.“

Aðspurður um tónleikahald segist Helgi vera að vinna í því að halda tvöfalda útgáfutónleika í vor og geta þá aðdáendur tónlistar hans fengið að heyra bæði blúslög eftir hann og reggítónlist en Helgi segist vilja hafa í bland tónlist af nýjustu plötunni og þeirri sem hann er að vinna að í dag.