Gaman Þröstur Leó Gunnarsson og Guðjón Davíð Karlsson í Góa og baunagrasinu.
Gaman Þröstur Leó Gunnarsson og Guðjón Davíð Karlsson í Góa og baunagrasinu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Leikgerð: Guðjón Davíð Karlsson. Tónlist: Vignir Snær Vigfússon og Guðjón Davíð. Litla svið Borgarleikhússins 18. febrúar 2012 kl. 13.
Fyrst komu Eldfærin – næst er það Baunagrasið . Svo segir í auglýsingu um barnasýninguna Gói og baunagrasið sem er nú sýnd á Litla sviði Borgarleikhússins. Sýningin Eldfærin eftir H.C. Andersen var sett upp í fyrra og gekk vel. Nú halda Gói og Þröstur áfram með sama formið og í þetta skiptið er það ævintýrið um Jóa og baunagrasið sem varð fyrir valinu. Leikararnir eru tveir, Guðjón Davíð Karlsson leikur Jóa (Góa) sem ferðast upp baunagrasið og Þröstur Leó Gunnarsson fer með öll hin hlutverkin sem eru ansi mörg og krefjast hraðra búninga- og hlutverkaskipta.

Þeir segja með sínum hætti ævintýrið um Jóa og baunagrasið sem margir krakkar ættu að þekkja. Það má með sanni segja að þeir blási nýju lífi í söguna, hún verður ansi fjörug og skemmtileg í þeirra höndum.

Sýningin hófst á því að Gói ávarpaði áhorfendur sem Gói og spjallaði aðeins við þá. Hann leiddi þá svo inn í söguna með aðstoð Þrastar. Ég hafði einstaklega gaman af því hvernig þeir vinna sýninguna, þeir eru bara þeir sjálfir að segja sögu með því dóti sem er hendi næst. Á milli þess sem þeir segja söguna ávarpa þeir krakkana og hoppa frá því að vera þeir sjálfir og persónur í ævintýrinu. Eftir eitt ógnvekjandi atriði fór smágrátkór af stað í salnum, þá stoppuðu þeir bara leikinn og töluðu til krakkanna, spurðu hvort ekki væri allt í lagi, og héldu svo áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Sýningin er afskaplega eðlileg og Gói og Þröstur eins og skapaðir til að leika fyrir börn. Ég held að þetta hefði orðið jafn áhrifaríkt án búninga og leikmyndar – þeir tveir eru svo miklir sögumenn og leikarar að það hefði nægt. Annars fannst mér sviðsmyndin sérstaklega vel útfærð, hljóð og lýsing til fyrirmyndar. Það er skapaður mikill ævintýraheimur en þó af hófsemi. Eini gallinn, og oft kosturinn, við litla sviðið er að það er bogadregið. Í fyrri hluta sýningarinnar fannst mér þeir svolítið gleyma að leika út á kantana (þar sem ég sat) en það lagaðist er á leið. Þá var ég ekki of hrifin af slettunum í textanum, í leiksýningum fyrir börn finnst mér að eigi að vera töluð góð íslenska, börnunum til fyrirmyndar.

Gói og Þröstur eru einlægir í leik sínum og áhorfendur stórir sem smáir finna löngun þeirra og metnað til að skila þessu vel. Það er mikil leikgleði og kraftur í sýningunni. Söngatriðin eru nokkur og mjög skemmtileg, minntu stundum á ýkt Evróvisijón-atriði. Foreldrar þurfa ekki að fá sér blund á meðan á sýningu stendur því hún er full af vísunum sem þeir skilja bara og ættu að hafa gaman af, ég hafði það að minnsta kosti.

Þröstur þarf að skipta oft og títt um búninga og hlutverk og gerir það listilega vel og er sannfærandi sem hver karakter án þess að breytingin hafi orðið mikil. Gói svífur svo um sviðið, léttur á fæti, algjörlega í essinu sínu og ekki hægt annað en að hrósa honum fyrir kraftmikinn leik.

Minn fylgdarsveinn í leikhúsið, að verða fjögurra ára, varð yfir sig heillaður af sýningunni og talar nú um Góa og Þröst eins og þeir séu hans bestu vinir. Börnin fundu fyrir áhuganum á þeim, og það að Gói væri fyrir utan eftir sýninguna að heilsa upp á krakkana var toppurinn.

Gói og baunagrasið er góð leiksýning, full af fjöri og sagnagáfu og á henni ætti engum að leiðast.

Ingveldur Geirsdóttir