Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson
Íslenski pilturinn sem beið bana í bílslysi í Tansaníu síðastliðinn laugardag hét Gunnar Örn Gunnarsson. Hann var 19 ára gamall.
Íslenski pilturinn sem beið bana í bílslysi í Tansaníu síðastliðinn laugardag hét Gunnar Örn Gunnarsson. Hann var 19 ára gamall.

Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu Gunnars voru tildrög slyssins þau að tvær stórar jeppabifreiðir, önnur full af farþegum, skullu saman á sveitavegi skammt frá bænum Kikatiki, í nágrenni við Kilimanjaro-þjóðgarðinn. Í fyrstu var talið að danskur félagi Gunnars Arnar væri einn alvarlega slasaður, en hann kastaðist út úr bílnum og varð undir honum. Í kjölfarið kviknaði í eldsneyti sem lak úr bifreiðunum og tókst Gunnari Erni, með hjálp annars vinar síns, að draga félaga sinn undan flakinu og slökkva eldinn.

Meðan beðið var eftir hjálp með þyrlu hneig Gunnar Örn skyndilega niður og missti skömmu síðar meðvitund. Þegar læknar loks komu á slysstaðinn var ljóst að hann var með alvarleg höfuðmeiðsl og miklar innvortis blæðingar sem ógjörningur reyndist að stöðva. Hann lést áður en komið var á sjúkrahús.

Gunnar Örn, sem bjó með fjölskyldu sinni í Helsingborg í Svíþjóð, var á heimleið með tveimur dönskum vinum sínum eftir að þeir höfðu gert atlögu að tindi Kilimanjaro. Tveimur þeirra var snúið við vegna veikinda skammt frá tindinum en Gunnar Örn komst einn alla leið. Hann var enda vel á sig kominn; vel kunnur í hópi hjólabretta- og snjóbrettaiðkenda fyrir framúrskarandi hæfni og Íslandsmeistari í hnefaleikum í sínum flokki þegar hann lést.