Hampiðjureitur Hugmyndin var að reisa rúmlega 26 þúsund m 2 hús með 130-140 íbúðum auk verslana á lóðinni.
Hampiðjureitur Hugmyndin var að reisa rúmlega 26 þúsund m 2 hús með 130-140 íbúðum auk verslana á lóðinni. — Morgunblaðið/Ómar
Byggingaverktakar hafa sýnt töluverðan áhuga á stórri byggingarlóð á Hampiðjureitnum sem nýlega var auglýst til sölu. Ásett verð er 530 milljónir. Eigandi lóðarinnar er Íslandsbanki. Svonefndur Hampiðjureitur er við Stakkholt 2-4.
Byggingaverktakar hafa sýnt töluverðan áhuga á stórri byggingarlóð á Hampiðjureitnum sem nýlega var auglýst til sölu. Ásett verð er 530 milljónir. Eigandi lóðarinnar er Íslandsbanki.

Svonefndur Hampiðjureitur er við Stakkholt 2-4. Það er rétt ofan við Hlemm. Fasteignasalan Miklaborg er með lóðina til sölu. Þröstur Þórhallsson, fasteignasali, telur mikla möguleika felast í lóðinni og staðsetningu hennar.

„Þetta er skemmtileg staðsetning í Reykjavík. Horn sem þarfnast endurskipulagningar,“ sagði Þröstur. Hann bendir á að lóðin sé í stuttu göngufæri frá Borgartúni og íbúðir þarna geti því orðið eftirsóttar af þeim sem þar vinna.

„Ég hef fengið nokkuð mörg símtöl frá mönnum í byggingargeiranum sem sýna þessu áhuga,“ sagði Þröstur. „Það er ánægjulegt að sjá að byggingarverktakar eru einhverjir komnir á skrið aftur. Það vantar nýjar íbúðir.“

Þröstur nefndi nýbyggt fjölbýlishús í Mánatúni, þar séu allar íbúðir seldar, en þær eru 40-50 talsins. Þetta sýni að það sé eftirspurn eftir nýjum íbúðum á þessu svæði.

Tillaga að húsi á lóðinni gerir ráð fyrir um 16.000 m 2 nýbyggingu ofanjarðar. Hún skiptist í 1.500-2.000 m 2 verslunar- og þjónustuhúsnæði og 130-140 íbúðir. Gert var ráð fyrir bílakjallara á tveimur hæðum og að húsið yrði alls 26.300 m 2 með bílakjallaranum.

gudni@mbl.is