Axel Kristjánsson
Axel Kristjánsson
Eftir Axel Kristjánsson: "Tillaga Bjarna á að fá umfjöllun Alþingis, þó ekki væri til annars en þess, að pólitískur hráskinnsleikur Jóhönnu og Steingríms J. verði landsmönnum ennþá ljósari."
Þessa dagana sækir sá grunur á mig með vaxandi þunga, að Valgerður Bjarnadóttir ætli að svæfa þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde í nefnd, annað hvort að eigin frumkvæði eða að fyrirmælum húsbænda sinna.

Stjórnarandstaðan á sína fulltrúa í nefndinni. Hverjir eru þeir? Af hverju láta þeir ekki heyra í sér og krefjast þess, að málið verði afgreitt? Á að láta Valgerði komast upp með að draga afgreiðslu málsins með útúrsnúningum þar til meðferð málsins hefst fyrir Landsdómi? Er makk á ferðinni milli stjórnar og stjórnarandstöðu?

Tillaga Bjarna á að fá umfjöllun Alþingis, þó ekki væri til annars en þess, að pólitískur hráskinnsleikur Jóhönnu og Steingríms J. verði landsmönnum ennþá ljósari. Þá kemur í ljós, af hverju Jóhanna þorði ekki að samþykkja, að Geir yrði ákærður. Þá kemur e.t.v. í ljós, hvernig þingmenn Samfylkingar sömdu um atkvæðagreiðsluna á þann hátt, að ráðherrar þeirra slyppu, en ráðherrar Sjálfstæðisflokks yrðu einir ákærðir, en það ráðabrugg gekk að vísu ekki alveg upp, eins og í ljós kom.

E.t.v. er best, að Landsdómur fái að yfirheyra sem flesta stjórnmálamenn og fjárglæframenn, sem bera ábyrgð á hruninu. Þá á margt eftir að koma í ljós, og ólíklegt er, að það verði öllum samfylkingarmönnum til vegsauka hjá fólkinu í landinu, sem á að greiða atkvæði í næstu kosningum til Alþingis.

E.t.v. er best, að dómur gangi og Geir verði sýknaður, samsærismönnum Samfylkingar og Vinstri grænna til háðungar.

Höfundur er lögmaður.