Bröltið með stjórnarskrána lendir í sífellt meiri ógöngum
Á Alþingi hefur nefnd fjallað mánuðum saman um sundurlausar tillögur svonefnds stjórnlagaráðs, án þess að taka afstöðu til einnar einustu þeirra. Nú hefur minnihluti þingsins ákveðið að vekja „stjórnlagaráðið“ aftur til lífsins, og kallar það til fundar, segist munu láta ríkissjóð borga ráðsmönnum laun á ný, enda fáist þeir til að spjalla saman aftur um gömlu tillögurnar sínar.

Enginn veit af hverju þetta er gert. Stjórnlagaráðsfólki, sem á sínum tíma tók því miður þátt í tilburðum ríkisstjórnarinnar til að niðurlægja Hæstarétt, virðist órótt núna. Það er ekki að undra. Enginn veit til hvers er ætlast að því.

Nokkrir hinna gömlu fulltrúa ráðsins hafa þegar meldað forföll, sumir lýst furðu sinni á uppátæki þingnefndarinnar og algjöru afstöðuleysi kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkundunni. Einn fulltrúi segist svo sem geta mætt en botnar bersýnilega hvorki upp né niður í stöðunni.

Ekkert bendir ennþá til að forsætisráðherra landsins hafi enn sem komið er lesið tillögur „stjórnlagaráðs“. Hvorki hún né nokkur forystumaður í stjórnarflokkunum hefur tekið tillögur „ráðsins“ upp á sína arma. Þvert á móti. Þeir virðast ætla að henda stórgölluðum tillögunum munaðarlausum í allsherjaratkvæðagreiðslu, sem gæti jafnvel orðið enn vitlausari en kosningin um stjórnlagaþing, sem Hæstiréttur hafnaði.

Sagt er að atkvæðagreiðslan eigi að fara fram samhliða forsetakosningum. Nú hefur það iðulega gerst að sjálfkjörið sé í forsetakosningum, einkum þó ef sitjandi forseti er áfram í kjöri. Þá fer engin kosning fram. Varla gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að hinar sérkennilegu tillögur „stjórnlagaráðs“ verði „sjálfkjörnar“ eins og forsetar eru stundum.

Eða er hún tilbúin með frambjóðanda, ef Ólafur Ragnar Grímsson étur ofan í sig nýársávarpið, til að tryggja að kosning fari fram? Eða er þetta allt saman einn og sami hrærigrauturinn eins og svo margt verður í höndum núverandi ríkisstjórnar? Þjóðin þarf síst á enn einum skrípaleiknum að halda, eins og nú er statt fyrir henni.