Svanhildur Bára Albertsdóttir fæddist í Reykjavík 2. ágúst 1927. Hún lést á Droplaugarstöðum 12. febrúar 2012.

Foreldrar hennar voru Albert Sigurðsson verkamaður, f. 8.5. 1882, d. 25.2. 1951 og Jónína Jónsdóttir verkakona og húsfreyja, f. 14.10. 1890, d. 25.2. 1972. Svanhildur Bára var yngst 5 systkina sem öll eru látin. Systkini Svanhildar voru; Jón Albertsson sjómaður, f. 20.2. 1916, d. 7.4. 1977. Unnur G.E. Albertsdóttir, f. 6.8. 1917, d. 10.2. 1976. Anna Albertsdóttir, f. 16.5, 1920, d. 22.11. 1920. Magnea Albertsdóttir, f. 1.3. 1924, d. 5.9. 2009.

Barnsfaðir Svanhildar Báru var Birgir Sigmundur Bogason, f. 16.11. 1935, d. 29.11. 1990. Sonur þeirra er Albert Birgisson, f. 10.9. 1957.

Útför Svanhildar Báru fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 24. febrúar 2012 og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku Bára frænka, sorg mín og söknuður var mikill þegar ég frétti af andláti þínu. Með sorginni kom þakklæti yfir að þrautum þínum skuli loksins vera lokið og þú komin til Guðs og allra þeirra sem þú elskaðir. Mig dreymdi Magneu systur þína nóttina sem þú lést og nú veit ég að hún var að koma að sækja þig. Eins sárt og það er að kveðja veit ég að við hittumst öll á ný. Frá því ég var barn vissi ég að þér þótti vænt um mig og var það gagnkvæmt. Eftir að faðir minn lést af slysförum þegar ég var barn, kom Bára til okkar mömmu og bjó hjá okkur í nokkur ár. Ég á góðar minningar um hana, þegar hún spilaði á gítarinn og söng fyrir mig, seinna börnin mín og svo barnabörn. Ég man hvað James klappaði af gleði. Bára frænka saumaði alltaf svo falleg dúkkuföt á dúkkuna mín að ég var mikið öfunduð af vinkonum mínum.

Æska hennar var erfið, fátækt og veikindi. Bára ólst upp í kreppunni þegar fólk átti ekki neitt. Hún var yngst 5 systkina og þegar hún var 3ja ára gömul veiktist hún alvarlega af lömunarveiki. Ömmu Jóninu dreymdi draum þegar hún var ung kona. Hana dreymdi að hún ætti 5 fallega fugla en þá kom hundur og beit eitt barnið í fótinn. Hún réð þann draum svo að hún ætti eftir að eignast 5 börn og yrði eitt þeirra fatlað. Magnea systir Báru var alltaf hennar stoð og stytta í lífinu og bar hún systur sína oft á bakinu í leikjum þeirra systkina. Bára vann úti meðan hún gat en hún var mikill sjúklingur alla tíð. Ég man þegar ég var lítil stelpa og þær systurnar unnu báðar í sælgætisverksmiðjunni Freyju, þá kom ég oft að sníkja sælgæti.

Bára frænka mín var falleg kona, bein í baki og alltaf vel til höfð, einnig á Droplaugastöðum þar sem hún var síðustu æviár sín. Amma, Bára og Magnea systir hennar bjuggu saman þar til amma Jónina lést. Eftir það héldu þær systur saman heimili í Álftamýri 30, en þá íbúð keyptu þær saman. Ég man enn hvað ég var spennt og glöð þegar þær keyptu sína fyrstu íbúð. Albert, sonur Báru hefur verið móður sinni mikill styrkur síðustu árin, sérstaklega eftir að Magnea lést. Ég man líka vel eftir því hve Bára var stolt þegar Albert fæddist, stór og myndarlegur strákur með ljósar krullur. Þegar ég heimsótti Báru á Droplaugastaði sá ég hvað hún ljómaði alltaf þegar hún sá Albert son sinn. Hafdís dóttir Magneu hefur líka verið dugleg að heimsækja frænku sína síðustu árin.

Með Báru fer eldri kynslóðin í móðurfjölskyldunni minni. Ég kveð elskulega frænku mína Báru með sorg og söknuði og bið algóðan Guð að styrkja Albert. Elsku Alli, Haddý og fjölskylda, ég og mín börn og barnabörn sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur öllum.

Þín líknarásjón lýsi í dimmum heimi.

Þitt ljósið blessað gef í nótt þig dreymi.

Í Jesú nafni vil ég væran sofa

og vakna snemma þína dýrð að lofa.

(Matthías Jochumsson)

Jónina E. Waltersdóttir.

Elsku Bára, loksins fékkstu hvíldina þína. Mig langaði til að þakka þér fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig og máttir alltaf vera að því að spila við mig og alltaf gastu fundið tíma til að grípa í gítarinn og spila og syngja nokkur lög. Þú meira að segja reyndir að kenna mér á gítarinn góða en ég náði aldrei almennilega tökum á því. Einna minnisstæðast er mér þegar ég var hjá þér og þú leyfðir mér alltaf að róta og skoða í skartgripaskríninu þínu. Þvílíkur fjársjóður sem maður fékk að komast í. Í dag leyfi ég dóttur minni stundum að róta og skoða svona og það sem henni finnst það gaman. Litla frænka þín sem alltaf gat kallað fram bros hjá þér. Henni fannst alltaf svo gaman að fara til Báru frænku, sjá fiskana og fá að leika með Tomma.

Takk fyrir allt saman, elsku Bára mín, þín verður sárt saknað en nú ertu komin til ömmu og allra systkinanna.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þar til við hittumst aftur.

Magnea (Magga litla)