Flensa Bólusett við inflúensu.
Flensa Bólusett við inflúensu. — Morgunblaðið/Ómar
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Inflúensan er enn í sókn hér á landi og hafa komur á heilsugæslustöðvar og á Læknavaktina verið með meira móti undanfarnar vikur.
Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Inflúensan er enn í sókn hér á landi og hafa komur á heilsugæslustöðvar og á Læknavaktina verið með meira móti undanfarnar vikur. Fæst inflúensutilfelli rata inn á spítalana sem þó hafa séð mikið annríki undanfarið, bæði vegna umgangspesta og vegna annarra heilsufarsvandamála landsmanna.

Á Læknavaktinni í Kópavogi, sem opin er um helgar og á kvöldin virka daga, hefur síðastliðnar vikur þurft að kalla út viðbótarmannskap til að anna öllum þeim sjúklingum sem sótt hafa þjónustuna. Viðmiðið er hálf klukkustund, sé biðtíminn orðinn lengri er fleiri læknum bætt á vaktina.

Mikil fjölgun á fjórum vikum

„Það hafa verið að koma til okkar yfir 200 manns á einum degi en það eru tölur sem við sjáum mjög sjaldan,“ segir Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar. Hann segir inflúensuna vissulega spila þarna inn í, tilfellum hafi fjölgað mikið síðastliðnar vikur en greind tilfelli hennar hjá Læknavaktinni voru 12 þriðju viku ársins og 104 vikuna 12.-18. febrúar.

Samúel J. Samúelsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Mjódd, segir aðsókn á stöðina hafa verið stífa undanfarinn mánuð. Starfsfólk sé ekki nógu margt til að anna eftirspurninni, bið sé eftir tímum og alltaf fullt á svokallaðri síðdegisvakt frá kl. 16-18.

„Það sem kemur inn til okkar á heilsugæslustöðina eru ekki bráðapestir og slíkt, það fer nánast allt á Læknavaktina og á síðdegisvaktina,“ segir Samúel. „Það sem við sjáum eru kvefpestir, eitt og eitt inflúensutilfelli og fylgikvillar inflúensuveikinda; eyrnabólgur, eitt og eitt lungnabólgutilfelli, kinnholubólgur og slíkt,“ segir hann.

Fylgjast náið með

Hiti, höfuðverkur, beinverkir og önnur vanlíðan eru fylgifiskar hinnar leiðigjörnu inflúensu en einkenni hennar geta þó verið mun verri. Nokkrir dvöldu í einangrun á Landspítalanum síðustu helgi vegna flensunnar en að sögn Elísabetar Benedikz, yfirlæknis á bráðadeild Landspítalans, hefur hennar ekki orðið mikið vart á spítalanum.

„Við höfum ekki séð mikið af flensunni nema kannski á barnadeildinni. Það eru ekki nema verstu tilfellin sem koma hingað og ef flensan er mild koma tiltölulega fáir,“ segir hún. Þótt nokkrir hafi verið lagðir inn á spítalann vegna hennar í vetur megi kenna mikinn mun frá því þegar t.d. svínaflensan geisaði 2009-2010.

Vel er fylgst með inflúensunni og fær Landlæknisembættið rafrænar og sjálfvirkar tilkynningar frá heilsugæslunni um greind tilfelli hennar. Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði embættisins, segir að flensan sé enn að sækja í sig veðrið.

„Ég get ekki séð að toppinum hafi verið náð en það ætti að sjást í næstu viku hvort við séum að ná hámarki,“ segir hún.

VEIKINDI

Mikið annríki á Akureyri

Mikill erill hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri undanfarna daga en Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri handlækningasviðs, segir þó ekki bara flensunni um að kenna.

„Það hefur orðið mikil aukning, sérstaklega í bráðaþjónustunni, og það voru t.d. mjög margir lagðir inn um síðustu helgi, bæði með hjartavandamál og önnur vandamál,“ segir hann.

Nánast öll rúm á spítalanum hafi verið full og fleiri viljað komast að en gátu með góðu móti.