„Bíð spenntur eftir því að sjá töfrabrögðin," segir Friðgeir Ingi Eiríksson matreiðslumaður hjá Gallery Restaurant sem mun bjóða gestum mat og drykk í hæsta klassa.
„Bíð spenntur eftir því að sjá töfrabrögðin," segir Friðgeir Ingi Eiríksson matreiðslumaður hjá Gallery Restaurant sem mun bjóða gestum mat og drykk í hæsta klassa. — Morgunblaðið/Ernir
Gallery Restaurant hefur verið í fremstu röð meðal íslenskra veitingahúsa í tæpa fimm áratugi. Þar á bæ er allt klárt fyrir Food & Fun.
Feðgarnir Eiríkur Ingi Friðgeirsson og Friðgeir Ingi Eiríksson hafa fylgt sögu veitingastaðarins stóran hluta þessa tíma. Báðir eru þeir matreiðslumeistarar og í dag er það Friðgeir Ingi sem fer fyrir eldhúsi Gallerýsins. Matseðillinn fyrir Food & Fun er með girnilegasta móti og gestakokkurinn, Adam Sobel, á leiðinni.

„Adam Sobel byrjaði að leika sér í eldhúsinu þegar hann var fjögurra ára gamall,“ segir Friðgeir Ingi þegar hann er beðinn um að segja deili á hinum væntanlega gestakokki. „Það má því segja að þá þegar hafi verið nokkuð ljóst hvert hugur hans stefndi. Hann þótti í framhaldinu það efnilegur að aðeins einn skóli kom til greina þegar kom að því að hefja nám, og það var Culinary Institue of America í New York.“ Friðgeir útskýrir að eftir útskrift þaðan hafi Sobel unnið við hlið nokkurra þekktustu matreiðslumeistara Bandaríkjanna. „Adam skapaði sér svo fyrst nafn á veitingastað Bradley Odgen sem staðsettur er á Cesar Palace hótelinu í Las Vegas en sá staður vann James Beardley-verðlaunin sem besti nýi veitingastaðurinn 2004.“

Árstíðabundið hráefni

Í kjölfarið opnaði Sobel sinn eigin stað í Los Angeles áður en hann fluttist til Washingtonborgar þar sem hann starfar nú sem yfirmatreiðslumeistari á Bourbon Steak sem staðsettur er á Four Seasons hótelinu. „Bourbon Steak býður upp á nútímalegan amerískan mat með áherslu á léttari steikur og árstíðabundið hráefni. Meðal hinna spennandi hráefna sem við ætlum að nota á Food & Fun er sérvalið nauta prime, og ég bíð spenntur eftir því að sjá hvaða töfrabrögð Sobel framkvæmir með þetta einstaka kjöt.“

jonagnar@mbl.is

Matseðill

Forréttur

Leturhumar - gulrætur - enoki sveppir og pæklað grænmeti

Aðalréttir

Gljáður þorskur - ananas - stökk svínseyru - kínverskt spergilkál

Nauta prime „premier Cru sérvalið fyrir Gallery Restaurant – ristaðar rófur - karamellugjáður laukrjómi - beikon marmelaði

Eftirréttur

Sítrónu marens – kandífloss - ristuð valmúafræ