Alltaf er það nú jafn upplífgandi og sálarhressandi þegar lesendur blaðsins gefa sér tíma til að senda línu og láta vita ef þeir eru ánægðir með það sem þar er skrifað.

Alltaf er það nú jafn upplífgandi og sálarhressandi þegar lesendur blaðsins gefa sér tíma til að senda línu og láta vita ef þeir eru ánægðir með það sem þar er skrifað. Nýlega barst mér póstur frá manni nokkrum sem hafði einmitt gefið sér þennan tíma til að láta mig vita hvað hann væri ánægður með skrif mín í Sunnudagsmoggann en þar átti hann við fastan pistil sem ég er með hér í blaðinu annan hvern sunnudag og kallast Stigið í vænginn. Ekki þarf að fjölyrða um það að sendingin góða frá þessum manni bjargaði deginum hjá mér, gleðistuðullinn hækkaði um þó nokkur stig og entist út daginn. Það er bara ferlega gaman að fá hrós frá einhverjum sem greinilega er mark á takandi. Sérstaklega í ljósi þess að þegar ég fór af stað með þessa pistla, sem fjalla á opinskáan hátt um kynlíf og samskipti kynjanna, risu sumir lesendur upp á afturlappirnar og fussuðu og sveiuðu, sögðu að þetta væri alls ekki Morgunblaðinu sæmandi. Og supu þó nokkrar hveljur. Einhverjir hysterískir hótuðu að segja upp áskriftinni ef ekki væri tekið fyrir ósómann. Þetta sagði ég manninum sem sendi mér bréfið og hann hafði eftirfarandi um málið að segja, og tel ég hann hafa nokkuð til síns máls: „Ég gæti trúað að meira að segja hysteríska fólkinu úti í bæ (sem er e.t.v. 1,5% af lesendum) þyki meira til um skrif þín en það þorir að viðurkenna.“

Vert er að taka fram að fjölmargir hafa brugðist hinir kátustu við pistlum mínum, bæði karlar og konur, og hrósað mér í bak og fyrir og sagt það sannarlega hafa verið tímabært að Morgunblaðið yrði frjálslegt í þessum efnum. En það er einmitt tilgangur þessara pistla; að skemmta fólki og gleðja, og þeir sem ekki hafa húmor fyrir efninu ættu barasta að sleppa því að lesa.

Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá bréfsendanda mínum til að birta skrif hans og vona sannarlega að teprur þessa lands verði einhvers vísari:

„Sem lesandi Morgunblaðsins vil ég einfaldlega þakka þér fyrir teprulausa, vandaða, hugrakka og „grensuteygjandi“ pistla þína í Sunnudagsmogganum. Ég tel að það sé mjög til góðs að skrifa um kynlíf á þann hátt sem þú gerir, þ.e. af hreinskilni, virðingu, gleði og „tabú“-laust, því ég er þeirrar skoðunar að það sé nánast aldrei hvað maður gerir heldur hvernig maður gerir það. Líka þegar maður tjáir sig um kynlíf. Og mér þykir þér takast það afar vel. Ekki síst þar sem umfjöllun um kynlíf snýst oftast í fjölmiðlum um kynferðisofbeldi en ekki hinar heilbrigðari og skemmtilegri hliðar kynlífs, sem fjöldamargar rannsóknir hafa sýnt að er einmitt: heilbrigt. Og hollt. Því jafnfalið og „prívat“ og kynlíf e.t.v. er – ekki síst vegna þess að það er einkamál og e.t.v. viðkvæmt umræðuefni – þá er það líka auðvitað í raun mjög stór hluti af lífi hverrar einustu manneskju og þess vegna gríðarlega áhugavert svið til þess að skilja manninn, þ.e. manneskjuna. Og á líka e.t.v. mjög stóran þátt í því að valda óþörfum ranghugmyndum, fordómum og vanlíðan, oft og tíðum að óþörfu. Ég tel þess vegna að heilbrigð, opin og afslöppuð umræða um kynlíf geti verið mjög mannbætandi og þess vegna þjóðfélagsbætandi.

Semsagt: Takk fyrir vandaða og flotta pistla.“

Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is