Vigfús afi og Elsa 1946.
Vigfús afi og Elsa 1946.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru liðin 100 ár síðan danski landmælingamaðurinn J. P. Koch lagði upp í rannsóknarleiðangur sinn til Grænlands við fjórða mann. Þeir höfðu vetursetu við jökulröndina og lögðu síðan leið sína vestur yfir þveran Grænlandsjökul.

Nú eru liðin 100 ár síðan danski landmælingamaðurinn J. P. Koch lagði upp í rannsóknarleiðangur sinn til Grænlands við fjórða mann. Þeir höfðu vetursetu við jökulröndina og lögðu síðan leið sína vestur yfir þveran Grænlandsjökul. Einn þessara manna var Íslendingurinn Vigfús Sigurðsson. Hér segir elsta barnabarn hans sögu leiðangursins í aðalatriðum. Elsa M. Tómasdóttir Grimnes

Segja má að umræðan um loftslag jarðarinnar hafi aldrei verið jafn ofarlega á dagskrá og núna, hvort heldur meðal einstaklinga eða hjá stjórnvöldum. Aðstæður og loftslagsbreytingar í hinum víðáttumiklu heimskautslöndum bera þess greinilega merki að hverju stefnir. Vísindalegar mælingar á þessum svæðum eru þess vegna ákaflega mikilvægar. Því er vel við hæfi nú að minnast þessara tímamóta er þeir félagar lögðu upp í leiðangur sinn til Grænlands og skiluðu af sér vísindalegum niðurstöðum sem koma mega að gagni í nútímajöklarannsóknum.

Grænland — leiðangrar og rannsóknir

Heimskautslöndin, þar á meðal Grænland, voru lengi lítt þekkt. Jafnvel um miðja 19. öld var mönnum enn ekki að fullu kunn öll vesturströnd Grænlands og austurströndin var næsta ókönnuð. Undir lok aldarinnar verður hér breyting á, þá rekur hver leiðangurinn annan, kunnust er skíðaferð Nansens yfir Grænland 1888. Danir, sem aðallega réðu ríkjum á Grænlandi, hófu nú í auknum mæli vísindalegar rannsóknir með leiðöngrum sínum þangað. – Um 1900 var nyrsti hluti austurstrandarinnar þó enn ókannaður. Á árunum 1906-1908 mældi og kortlagði „Danmerkurleiðangurinn“ undir stjórn L. Mylius Erichsens þetta svæði, en það kostaði leiðangursstjórann og tvo aðra menn lífið. Enn vantaði að rannsaka ísröndina og fjalllendið Dronning Louisesland sem teygir sig inn í jökulinn. Einnig var fyrirhugað að fara þvert yfir Grænland, þar sem landið er breiðast, frá Danmerkurhöfn austanmegin til Upernivíkur á vesturströndinni og rannsaka þannig jökulinn. Tveir menn úr „Danmerkurleiðangrinum“, danski landmælingamaðurinn J. P. Koch og þýski veðurfræðingurinn dr. Alfred Wegener, einsettu sér að framkvæma þetta og fóru strax eftir heimkomuna að undirbúa nýjan leiðangur.

„Danmerkurleiðangurinn til Dronning Louiseslands og um jökulbreiðu Grænlands 1912-13“ eins og hann hét formlega, var hinn fyrsti eiginlegi jöklafræðilegi leiðangur sem starfaði og hafði vetursetu á ísnum og framkvæmdi þar vísindalegar rannsóknir yfir lengri tíma. Fyrri leiðangrar voru nánast eingöngu könnunarferðir þar sem menn mældu, merktu og lýstu því sem fyrir bar. Þeir Koch og Wegener skipulögðu hins vegar sínar rannsóknir og höfðu með sér þau tæki og tól sem til þurfti til þess að framkvæma rannsóknirnar. Þetta var líka í fyrsta sinn sem notaðir voru hestar til flutnings á heimskautssvæði, og þannig kom Íslendingurinn Vigfús Sigurðsson til sögunnar. Reynslan hafði sýnt að hundasleðar voru lítt hæfir til flutnings í hinu úfna landslagi Grænlands, milli sjávar og jökuls, en úr því að ákveðið var að nota hesta þurfti að hugsa fyrir miklu magni af fóðri og flytja það með sér. Þetta var því nýtt og mikið verkefni. Fjórði þátttakandi í leiðangrinum var Lars Larsen, stýrimaður á dönsku skonnortunni Godthaab sem Danir höfðu léð til ferðarinnar til Danmerkurhafnar. Sjómannsreynsla Larsens kom sér vel þegar ferja átti farangurinn á vélbát og pramma, alls 20 tonn, þar á meðal flekahús fyrir vetursetuna, sem flytja þurfti inn þröngar vakir í ísilögðum fjörðum og þaðan svo áfram á hestum að jökulbreiðunni.

Eftir vel heppnaða reynsluferð með hestana á Vatnajökli, var lagt upp frá Akureyri í júlí 1912 og ætluðu þeir félagar sér að komast til Dronning Louiseslands um haustið, alla vega að ísröndinni, þetta yrði þó háð veðri og færð. Hér skyldu þeir hafa vetursetu, gera mælingar og setja upp forðabúr. Strax og skammdegið var liðið hjá, var ætlunin að leggja á jökulinn þar sem hann er breiðastur, rannsaka hann vísindalega og komast að vesturströndinni um sumarið, alls ca. 1200 km leið. Þeim tókst þetta, fóru ferðina, reistu flekahúsið „Borg“ á ísnum við jökulröndina, höfðu þar vetursetu og gerðu mælingar. Svo lögðu þeir á jökulinn eins og áætlað var og komust til Upernivíkur á vesturströndinni í júlí 1913, eftir að hafa lent í miklum ógöngum og lífsháska.

Það reyndi á margt og erfiðleikarnir sem þeir þurftu að takast á við voru ýmislegir. Sumarið 1912 var veðrið óvenju slæmt. Hestarnir struku hvenær sem færi gafst og refir og birnir sóttu í fóðrið. Þeir félagar gátu með naumindum forðað sér undan jökulhlaupi. Um veturinn gerði ofsaveður. Þegar frostið náði allt að 50 stigum varð að gera mælingarnar inni í húsinu, bora í gegnum stofugólfið og ísinn. Koch féll í jökulsprungu, lenti á syllu og mátti bíða þar fótbrotinn í 1 ½ klst. áður en hann náðist upp og gert var að sárum hans. Í fallinu missti Koch þeólítann, mikilvægasta mælingatæki þeirra, en Vigfúsi sem var mjög hagur, tókst að smíða svokallaðan Jacobsstaf sem að mestu kom að sömu notum. Snjóblinda hrjáði þá stöðugt á jöklinum. Þegar á leið urðu bæði menn og dýr svo þrekuð að hugsunin um að geta bjargað einhverjum hestanna var útilokuð. Það voru þeim því þung spor þegar þessir tryggu félagar þeirra voru aflífaðir. Að lokum hlaut Glói, hundurinn góði, sömu örlög, en hann varð þeirra lífgjöf þar sem þeir neyddust til að leggja hann sér til munns.

Bók J.P. Kochs Um auðnina hvítu (Gennem den hvide Ørken) kom út í Kaupmannahöfn þegar árið 1913. Þar lýsir hann leiðangrinum á alþýðumáli og byggir á dagbókum sínum. Hið endanlega vísindarit kom ekki út fyrr en 1919 í Berlín og sá Wegener um útgáfuna, þar sem Koch var orðinn alvarlega veikur (hann lést 1928). Ástæðan fyrir þessu tiltölulega langa hléi var líklega meðal annars sú að báðir gegndu herþjónustu í heimsstyrjöldinni fyrri. Wegener særðist og var sendur heim og gaf þá út sína umdeildu, en síðar meir viðurkenndu ritgerð um landrekskenninguna, Myndun meginlanda og úthafa.

Vigfús hélt líka nákvæmar dagbækur og á þeim byggist bók hans Um þvert Grænland, gefin út í Reykjavík 1948. Í innganginum segir hann að auki frá kaupum á góðum norðlenskum hestum til fararinnar og reynsluferðinni á Vatnajökli.

Það sem er sameiginlegt báðum þessum bókum er að þar má lesa áhrifamiklar lýsingar á staðháttum og stórbrotinni náttúru Grænlands auk frásagna um góðan félagsskap, samheldni og samvinnu hvað sem á bjátaði. Hið alkunna skammdegisþunglyndi virðist ekki hafa látið á sér kræla né heldur ósamkomulag eða deilur. Strangar fyrirskipanir voru óþarfar, verkefnin voru rædd og síðan framkvæmd. Hjá þeim báðum vaknar spurningin þegar mest á reynir um tilgang alls þessa. Koch skrifar að enda þótt þeir fjórmenningar væru mjög ólíkir hvað snerti þjóðerni, uppeldi, menntun og áhugamál þá voru þeir engu að síður líkir að eðlisfari og í viðhorfum sínum til lífsins og því myndaðist með þeim traust vinátta sem hjálpaði þeim að ná settu marki.

Leiðangur eins og þessi er vissulega áhættusamur. En hvað er það sem hvetur menn til þátttöku? J.P. Koch skrifar í formála sínum: „Heimskautafari er framar öllu ævintýramaður og verður að vera það, annars dugar hann ekki. En það er ekkert því til fyrirstöðu að hann geti verið bæði athugull og skynsamur maður og góður þegn.“ Hið síðastnefnda átti allavega við um Vigfús Sigurðsson, það vitum við sem þekktum hann. Jafn veigamikil og ævintýraþráin var líklega sú staðreynd að Vigfús átti konu og fjögur lítil börn. Þeirra tíma möguleikar á að framfleyta fjölskyldu voru takmarkaðir. Þegar við bættist svo útþráin sem er svo sterk í eðli Íslendingsins, þá er þetta líklega skýring að vissu marki.

Í bók sinni Um auðnina hvítu segir J. P. Koch þetta um valið á íslenskum hestum og um Vigfús sem persónu: „Trú okkar á að íslenskir hestar réðu við hinar erfiðustu aðstæður á Grænlandi reyndist rétt. Það er hrein undantekning og bara eftir margra ára þjálfun, að okkur lærist að stjórna grænlenskum hundasleðum að hætti eskimóa. Á sama hátt getur bara Íslendingur stjórnað íslenskum hesti. Það var þess vegna mikilvægt að hafa íslenskan leiðsögumann með í förinni. Vigfús, íslenski bóndinn, var svo að segja fæddur og uppalinn á hestbaki. Á póstferðum sínum um Norðurland kynntist hann náið hinum erfiðu og oft hættulegu vetrarferðum um snæviþakið íslenskt hálendi. Hann var hagur og eins og allir íslenskir bændur vanur því að verða sjálfur að smíða og gera við. Hann var lærður trésmiður og þekkti auk þess sérlega vel inn á vélbáta, eiginleikar sem komu að mjög góðum notum og björguðu okkur úr margs konar erfiðleikum. Hann var glaðlyndur að eðlisfari, bjartsýnn og hjálpsamur og vann þannig hug okkar allra. Hann talaði dönsku reiprennandi og var vel að sér í dönskum bókmenntum. Í félagsskap þeirra Larsens og Vigfúsar ætti okkur Wegener að farnast vel.“

Dvölin á Grænlandi 1912-13 víkkaði án efa sjóndeildarhring Vigfúsar og kom honum í kynni við annan hugsunarhátt og menningu.

Eftir heimkomuna voru þeir félagar sæmdir heiðursmerki dönsku ríkisstjórnarinnar fyrir afrekið.

Heimildir

Vigfús Sigurðsson: Um þvert Grænland, Reykjavík 1948

J. P. Koch: Gennem den hvide ørken, København 1913

Polarprofiler, Dansk Polarcenters særnummer, København 1994.

Margvíslegar rannsóknir

Danmerkurleiðangurinn 1906-08 færði sönnur á að þar sem skriðjöklarnir á Norðaustur-Grænlandi mæta sjó eru þeir örþunnir og ekki þverhníptir, eins og annars staðar á Grænlandi.

Leiðangurinn rannsakaði líka ísröndina og gerði hæðarmælingar á ísnum. Þessar mælingar, bornar saman við staðarlýsingar nýrri tíma, gefa hugboð um hve miklu þynnri ísinn hefur orðið á u.þ.b. 100 árum.

Danmerkurleiðangurinn 1912-13 mældi sérstaklega hitastig íssins niðri á 25 m dýpi, rannsakaði nánar íslögin, allt frá fáeinum cm að 1 m á þykkt, og mældi hreyfingar íssins, sem námu u.þ.b. 1.700 m á ári.

Þá mældi hann hina árlegu viðbót af snjó í holunum sem grafnar voru og reiknaðist til að ísinn á botni hlyti að vera undir bræðslumarki og að ísinn í hinum miklu skriðjöklum hreyfðist sem ein heild.

Auk þessa lágu fyrir geysimikil gögn í sambandi við landfræðilegar og veðurfræðilegar mælingar og margar ljósmyndir. Á þessum grundvelli má rekja sögu jöklarannsókna 100 ár aftur í tímann.

Kynntist ungur náttúrunni

Vigfús Sigurðsson fæddist 16. júlí 1875 að Gilsbakka í Axarfirði og var næstelstur átta systkina. Hann kynntist strax á ungum aldri íslenskri náttúru og veðurfari eins og það getur orðið hvað verst og hvað bjóða má íslenskum hestum. Vigfús var lærður trésmiður og vann við smíðar í Reykjavík eftir heimkomuna frá Grænlandi. Hann fékk vitavarðarstöðuna á Reykjanesi 1915 og mun það hafa verið fyrir atbeina J. P. Kochs, leiðangursstjórans.

Vigfús var kvæntur og fjögurra barna faðir þegar hann fór til Grænlands; þegar fjölskyldan flutti frá Reykjanesi til Reykjavíkur árið 1925, voru börnin orðin átta.

Vigfús fór í annað sinn til Grænlands með íslenskum leiðangri 1929 og í þriðja sinn 1930 undir leiðsögn dr. Alfreds Wegeners. I þeirri ferð fórst Wegener. Vigús var seinni hluta æfinnar til heimilis hjá elsta syni sínum Tómasi og fjölskyldu hans. Hann lést 1950.

Einkum í Ölpunum

Jöklarannsóknir höfðu fram að þessu svo að segja án undantekninga átt sér stað í Ölpunum. Þankar og hugleiðingar um eðli íssins, grundvallaðar á slíkum rannsóknum, álitu menn vera í litlu samræmi við aðstæðurnar í heimskautslöndunum.