[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ernest Cline - Ready Player One ****½ Einhverntímann í framtíðinni er málum svo háttað að flestar auðlindir eru uppurnar, þar með talið jarðefnaeldsneyti, Auður er þó enn til og allmargir hafa það gott en fátækt hefur annars aukist til muna og svo er...

Ernest Cline - Ready Player One ****½

Einhverntímann í framtíðinni er málum svo háttað að flestar auðlindir eru uppurnar, þar með talið jarðefnaeldsneyti, Auður er þó enn til og allmargir hafa það gott en fátækt hefur annars aukist til muna og svo er komið vestur í Ameríku að stærstur hluti stórborga er fátækrahverfi. Lýðurinn unir þó við sitt að mestu, enda hefur hann aðgang að sýndarheimi þar sem lifa má sældarlífi, upplifa ævintýri og njóta ýmislegrar skemmtunar. Svo ber við að höfundur þessa sýndarheims, einrænn sérvitringur og margfaldur milljónungur, deyr en skilur eftir sig þraut með þeim skilmálum að sá sem leysir hana mun erfa viðskiptaveldi hans. Það vill svo til að þrautin byggist að stærstum hluta á menningarlegum tilvísunum í níunda áratuginn, en þá sleit séníið barnsskónum, og allt er lyklað í tölvuleiki frá þeim tíma, enda var hann mikill tölvuleikaþjarkur. Söguhetja bókarinnar býr við kröpp kjör í fátækrahverfi, en hefur áhuga, hugvit og þrautseigju til að glíma við þrautina. Hann verður og fyrstur til að finna fyrsta lykilinn og hefst mikið kapphlaup milli hans, stúlku sem hann fellir hug til og útsendara stórfyrirtækis sem sölsa allt undir sig í gróðafíkn. Þessi bók höfðar líkast til helst til þeirra sem spilað hafa yfir sig af tölvuleikjum og eru vel heima í þeim fræðum, aukinheldur sem áhugamenn um dægurmenningu níunda áratugarins fá mikið fyrir sinn snúð.

J.H. Hunter - The Mystery of Mar Saba *½--

Þetta er býsna merkileg bók þó ekki hafi hún kostað nema hundraðkall á Basarnum, nytjamarkaði Kristniboðssambandsins. Hún segir frá því er illir guðlausir Húnar (Þjóðverjar) hyggjast leggja undir sig heiminn með því að grafa undan kristinni trú og þar með Englandi, brjóstvörn siðmenningarinnar, en þó sagan sé ekki merkileg er það forvitnilegt sem síðar gerðist og segir okkur sitthvað um þá sterku löngun trúaðra að fá vísindalega sönnun fyrir trú sinni (sem myndi þá hætta að vera trú, ekki satt?). Bókin hefst þar sem þýskir heimsvaldasinnar, en hún kom út 1940, ákveða að grafa undan kristinni trú með því að munkur finnur gamalt guðspjallahandrit í klaustri í Líbanon og leiðir í ljós að Kristur hafi ekki risið upp til himna, heldur hafi lærisveinar hans komið líkinu undan og grafið á afviknum stað. Það er eins og við manninn mælt; ólga grípur um sig á víða um heim og óeirðir. Fyrir tilstilli auðugs Bandaríkjamanns, efasemdamanns sem tekur kristna trú í miðjum klíðum, tekst að koma upp um fölsunina og allt fellur í ljúfa löð.

Á áttunda áratugnum kom fræðimaðurinn Morton Smith trúarheiminum í uppnám er hann fann áður óþekkt bréf frá Klemens í Alexandríu þar sem fram kom meðal annars að Kristur hefði eytt nótt með ungum pilti sem hafði línklæði eitt á berum sér, eins og getið er um í Markúsarguðspjalli, og sýnt honum leyndarmál Guðs ríkis. Sumir hafna þessu algerlega, en aðrir eru ekki eins vissir, ekki síst þeir sem lesið hafa The Mystery of Mar Saba.

Árni Matthíasson arnim@mbl.is