Það er alltaf spennnandi að sjá hvaða málsháttur leynist inni í páskaegginu.
Það er alltaf spennnandi að sjá hvaða málsháttur leynist inni í páskaegginu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er komið að því. Að liggja í sófanum og teygja makindalega úr sér. Gæða sér á páskaeggi og mjólk með.

Einhvern veginn finnst mér eins og jólin séu rétt nýliðin en þó eru strax komnir páskar. Það er ósköp gott að fá páska og páskafrí. Þjóðin nýtur þess að teygja dálítið úr sér eftir veturinn. Liðka sig og beygja. Fara út að ganga og hjóla. Nokkrir nýta tækifærið til að renna sér á skíðum.

Páskaeggin eru ómissandi, kannski sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni. Þó maður vaxi svo sem aldrei upp úr því að langa til að gæða sér á súkkulaði og sjá það sem er innan í egginu. Málshátturinn er líka spennandi og hingað til hef ég fengið tvo sem mér þóttu ágætir. „Allur er varinn góður“ og „Drukkins fögnuður er ódrukkins harmur“. Ég er ánægð þessa kjarnyrtu og hefðbundu málshætti. Nokkrum sinnum virðist sem hálfgert bull hafi verið hripað niður á miðann af páskahéranum. Alveg á seinasta snúningi þar sem hann stóð sveittur við að pakka eggjunum í plastpoka.

En kannski er ég bara orðin gömul og vil enga nýtískumálshætti. Fussa og sveia yfir öllu því nýmóðins rusli sem að mér streymir. Annars urðu pásakegg nú ekki algeng hér fyrr en í kringum 1920 ef marka má Vísindavefinn. Ég gæti ímyndað mér að fyrstu málshættirnir hafi hvatt fólk til góðra siða og verka. Eitthvað á borð við: „Á morgun segir sá lati“ bara þannig að fólk gleymdi sér nú ekki algjörlega í súkkulaðiáti og unaði heldur héldi líka áfram að vinna. Þetta ætti ekki við í dag. Enda þykir flestum best að flatmaga í sófanum með eggið og rétt að rétta höndina út eftir mjólkurglasinu.