Þórarinn Hannesson stofnandi Ljóðasetursins: Hér geta menn kynnt sér helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap allt frá landnámsöld til okkar tíma á aðgengilegan hátt.
Þórarinn Hannesson stofnandi Ljóðasetursins: Hér geta menn kynnt sér helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap allt frá landnámsöld til okkar tíma á aðgengilegan hátt. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórarinn Hannesson er mikill unnandi ljóða en hefur gengið skrefinu lengra en nokkur annar í ljóðelsku; stofnaði og rekur Ljóðasetur Íslands. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Þórarinn Hannesson er íþróttakennari við Grunnskóla Fjallabyggðar og mikill félagsmálamaður. „Meðgangan að Ljóðasetrinu var nokkur ár; segja má að þetta hafi byrjað haustið 2005 þegar við í ungmennafélaginu Glóa, sem ég stýri á Siglufirði, leituðum okkur að nýjum verkefnum. Þá datt mér í hug að halda ljóðakvöld; fá einhverja bæjarbúa til þess að koma og lesa, helst ef menn ættu eitthvað sem þeir hefðu sjálfur ort og vildu leyfa öðrum að heyra,“ segir Þórarinn við Sunnudagsmoggann.

Vantaði hlutverk fyrir húsið

Þórarinn hefur sjálfur fengist svolítið við kveðskap. „Ég hef sent frá mér tvær ljóðabækur með óhefðbundnum kveðskap og sú þriðja er á leiðinni, en hef meira verið í tónlistinni; samið bæði lög og texta og hef sent frá mér þrjá geisladiska með frumsömdu efni,“ segir hann.

Verkefnið um ljóðið vatt upp á sig. „Ég stóð fyrir nokkrum ljóðakvöldum í tvo vetur og úr varð þriggja daga ljóðahátíð, Glóð, sem ég byrjaði með haustið 2007 á vegum ungmennafélagsins og við höfum haldið á hverju ári síðan. Við höfum fengið nokkur af þekktustu skáldum landsins í heimsókn, auk þess sem heimamenn hafa látið ljós sitt skína. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að virkja börn til góðra ljóðaverka á þessari hátíð.“

Árið 2008 kviknaði hugmynd um að stíga skrefið til fulls og koma setrinu á koppinn. „Ég átti hús við Túngötu þar sem ég hafði verið með söluturn og myndbandaleigu, en ég var búinn að fá nóg af því að vinna allan sólarhringinn! Ég var í fullu starfi sem kennari, spilaði, söng, þjálfaði, skrifaði fyrir bæjarblaðið, var að vasast í bæjarpólitíkinni og hafði rekið verslunina í níu ár þegar ég lét gott heita á þeim vettvangi. Mig vantaði hutverk fyrir húsið og þá fæddist hugmyndin um að koma á fót ljóðasetri. Svona lagað er hvergi til á landinu og jafnvel þótt víðar væri leitað; þetta er algjörlega orginal hugmynd, sem bróðir minn fékk, Elvar Logi Hannesson, leikari og leikstjóri á Ísafirði. Hann var að leikstýra hjá Leikfélagi Siglufjarðar og nefndi þetta einhverju sinni þegar við vorum að spjalla um hvað ég gæti gert við húsið.“

Ljóðasetrið er í miðjum bænum, Túngata 5 er ekki stórt hús en áberandi því byggingin hallar eilítið undir flatt í átt að götunni!

Þórarinn hélt af stað, ákveðinn í að láta drauminn verða að veruleika en fljótlega hrundi bankakerfið, erfitt reyndist að útvega fé og skrefin urðu því smærri en ráð var fyrir gert og lengri tíma tók að komast alla leið. En árar voru ekki lagðar í bát og setrið var opnað 8. júlí í fyrrasumar. „Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, heiðraði okkur með nærveru sinni og vígði ljóðasetrið formlega. Þórarinn Eldjárn kom og las úr verkum sínum, kvæðamenn fluttu íslensk þjóðlög og einnig voru frumflutt ljóð eftir Matthías Johannessen og Sigurbjörgu Þrastardóttur sem sendu okkur ljóð í tilefni opnunarinnar. Það var troðfullt hús og rúmlega það, fólk stóð úti á gangstétt þar sem komið hafði verið fyrir hljóðkerfi svo allir heyrðu það sem fram fór.“

Spenningurinn var mikill fyrir þessu, og um 150 manns voru viðstaddir.

„Það var virkilega ánægjuleg stund, eftir þriggja ára baráttu við undirbúning, að sjá drauminn rætast. Kostnaðurinn var töluverður, að mestu greiddur úr kennaravasanum, en þeir eru mjög djúpir eins og allir vita!“

Þórarinn kveðst þó hafa fengið styrki til uppbyggingarinnar frá sveitarfélaginu Fjallabyggð, Sparisjóði Siglufjarðar og Kiwanisklúbbnum Skildi og til starfseminnar hefur hann auk þess fengið styrki frá Menningarráði Eyþings, KEA og Samkaupum. Er hann mjög þakklátur því án þessara styrkja hefði setrið aldrei orðið að veruleika.

Margir lögðu hönd á plóg

„Svo hjálpuðu mér margir einstaklingar; á svona litlum stöðum, þar sem allir þekkja alla, er fólk gjarnan tilbúið að leggja hönd á plóg við góð verkefni og ég fékk til dæmis ómetanlega aðstoð frá iðnaðarmönnum staðarins að ógleymdri fjölskyldu minni.“

Þórarinn hefur þegar viðað að sér töluverðum bókakosti. Sjálfur átti hann safn ljóðabóka fyrir en setrið hefur síðan fengið fjölda bóka að gjöf. „Sérstaklega tók fólk við sér eftir að Egill Helgason tók við mig viðtal sem birtist í Kiljunni; þá má segja að hlutirnir hafi farið að gerast fyrir alvöru. Mér fóru að berast bækur í pósti, fólk hér á staðnum lét mig hafa bækur og nokkur bókasöfn hafa látið mig hafa það sem þau afskrifa. Í upphafi fékk ég einnig veglegar og góðar bækur frá bókasafni Siglufjarðar.“

Margir eru mjög þakklátir fyrir framtakið, sérstaklega eldra fólk sem mikið hefur hringt í Þórarin og verið í vandræðum með bækur sínar. „Margir eiga safn af ljóðabókum sem börnin hafa ekki áhuga á; fólk segir að þær lentu því á haugunum þegar það félli frá og vill því endilega gæfa þær hingað. Ég hef fengið mjög mörg ánægjuleg símtöl og fólk sem kemur hingað er mjög ánægt með hugmyndina og uppsetninguna.“

Stór gjöf frá Arnold Bjarnasyni

Stærsta gjöfin barst setrinu frá Arnold Bjarnasyni, sem stutt hefur á margvíslegan hátt við ýmiskonar starfsemi í Siglufirði í gegnum tíðina. „Baldur heitinn Pálmason útvarpsmaður átti mikið og gott safn ljóðabóka, Arnold fjármagnaði kaup á því og gaf setrinu til minningar um afa sinn, séra Bjarna Þorsteinsson,“ segir Þórarinn.

Þjóðlagasetrið á Siglufirði er einmitt kennt við Bjarna, þann þjóðþekkta mann og mikla þjóðlagasafnara. „Það er því gaman hvernig Ljóðasetrið kallast á við Þjóðlagasetrið og þau eru auðvitað nátengd; á öðrum staðnum eru lögin í forgrunni en á hinum textarnir.“

Um 1.100 gestir komu við í Ljóðasetrinu á síðasta sumri. „Viðtökur voru mjög góðar; framar öllum vonum satt að segja, því hér var ekki opið nema í sex vikur. Í vetur hefur verið opið eftir samkomulagi, ég hef t.d. tekið á móti skólahópum og öðrum áhugasömum og svo hafa verið hér nokkrir viðburðir.“

Hvern dag sem opið var í Ljóðasetrinu síðasta sumar var boðið upp á lifandi viðburð; upplestur, tónlist, fyrirlestra, barnadagskrá og annað af því tagi og svo verður áfram í sumar. Sprenging varð í ferðaþjónustu á Siglufirði eftir að Héðinsfjarðargöngin urðu að veruleika og bæjarbúar horfa bjartsýnir fram á veginn. „Hver dagur í fyrra var eins og Síldarævintýri; hér voru tjaldbúðir í miðbænum nánast alla daga sumarsins.“

Segja má að ljóðið hafi loks eignast samastað. „Á Ljóðasetrinu geta menn kynnt sér helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap allt frá landnámsöld til okkar tíma á aðgengilegan hátt, skoðað merkar útgáfur, myndir og muni, keypt notaðar ljóðabækur og síðast en ekki síst hlýtt á ljóðaflutning og tekið þátt í samræðum og hugleiðingum um ljóðið, sem og um daginn og veginn. Svo stefni ég að því að safna einu eintaki af öllum ljóðabókum sem komið hafa út á íslensku og er kominn með um 2.000 titla. Ég veit ekki nákvæmlega hve mikið hefur verið gefið út, en menn hafa skotið á að það sé einhvers staðar á milli 4.000 og 5.000 titlar.“

Tveir höfundar er í uppáhaldi hjá Þórarni. „Ég hef alltaf haldið mikið upp á Bólu-Hjálmar og af þeim nýrri er það Jón úr Vör. Hann er að vestan eins og ég; ég er Bílddælingur en Jón var fæddur og uppalinn á Patreksfirði. Þorpið samdi hann einmitt um æskuárin þar. Þessir tveir eru í sérstöku uppáhaldi en margir aðrir gera vissulega tilkall til titilsins.“

Arfur okkar til heimsins

Þórarinn segir að miðað við þær viðtökur sem Ljóðasetrið hefur fengið sýnist sér greinilegt að ljóðið lifi góðu lífi hér á landi, „þótt áherslur og form hafi mikið breyst frá því sem áður var. Enn eru mjög margir sem kunna að setja saman vísu á réttan hátt og einnig eru margir sem setja hugsanir síðarn í ljóð, þó ekki sé nema bara fyrir sjálfan sig. Það er greinilegt að þessi arfur lifir; þetta eru okkar pýramídar; Eddukvæði með sín Hávamál og Völuspá, Passíusálmarnir, og fleira mætti nefna. Þetta er okkar arfur til heimsins og við eigum að gera honum hátt undir höfði,“ segir Þórarinn.