23. ágúst 2012 | Viðskiptablað | 1194 orð | 2 myndir

Hvers virði er góður starfsandi?

Nú er tíminn til að brýna kutann

Verkfærakistan „Mín reynsla er sú að stjórnendur búa yfirleitt yfir allri þeirri þekkingu sem þeir þurfa á að halda, hafa farið á ótal námskeið og ráðstefnur, en skortir tækifærið og hvatann til að nýta þekkinguna til fulls og ná settum markmiðum í starfi,“ segir Herdís Pála.
Verkfærakistan „Mín reynsla er sú að stjórnendur búa yfirleitt yfir allri þeirri þekkingu sem þeir þurfa á að halda, hafa farið á ótal námskeið og ráðstefnur, en skortir tækifærið og hvatann til að nýta þekkinguna til fulls og ná settum markmiðum í starfi,“ segir Herdís Pála. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Starfsmenn þyrstir í þjálfun til að styrkja sig og efla faglega • Hvatningar og skemmtanir rista ekki djúpt þegar óvissa er mikil • Veruleg tækifæri felast í því að huga betur að þjálfun stjórnenda og gera þeim fært að láta ljós sitt skína í rekstrinum
Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Að mati Herdísar Pálu Pálsdóttur er orðið tímabært að huga að nýjum áherslum í uppbyggingu og hvatningu starfsmanna.

„Við erum búin að fara í gegnum tímabil sem hefur gengið mjög mikið út á að „peppa upp“ vinnustaðinn og hvetja fólk til dáða í gegnum erfiðustu boðaföll kreppunnar. Núna held ég að nóg sé að verða komið og starfsmenn vilji umfram allt leggja áherslu á að efla sig í starfi til að vera sterkari á svellinu þegar efnahagslífið tekur við sér á ný. Nú er tíminn til að vígbúast fyrir harða samkeppni og brýna kutann.“

Herdís Pála er markþjálfi og mannauðsráðgjafi. Hún rekur eigið ráðgjafarfyrirtæki og heldur úti vefnum www.herdispala.is.

Herdís segir „peppið“ vissulega enn eiga við, ekki megi alveg láta það vera að reyna að hrista hópinn saman og skapa jákvæðan anda. „En í dag er tilfinningin hjá mörgum starfsmönnum að óöryggi sé mikið. Enn er hægt að fækka fólki og á öllu von. Pepp og gleði ristir þá grunnt og meira varið í að styrkja einstaklinginn og gera hann að enn verðmætari starfskrafti.“

Með markmiðin skýr

Að mati Herdísar ættu stjórnendur að vanda valið þegar næstu skref eru tekin og leggja áherslu á að þjálfun og námskeið á misserunum framundan falli sem best að áskorunum og viðfangsefnum fyrirtækisins. „Fræðslustarf og uppbygging starfsmanna þarf að vera stefnumiðað starf en ekki láta bara duga að kaupa plástra hér og þar með klukkutímalöngum námskeiðum um hitt og þetta, til þess eins að geta sagst hafa gert eitthvað. Það þarf að koma auga á hvar þarf helst að styrkja einstaklingana og starfsmannahópinn og styrkja hann svo á markvissan hátt.“

Ekki hvað síst ætti að huga að því að efla yfir- og millistjórnendur. „Allt of algengt er að millistjórnendur viti ekki nægjanlega vel til hvers er ætlast af þeim og vinnubrögð og skipulag vinnustaðarins leyfir þeim of sjaldan að láta ljós sitt skína sem góðir stjórnendur, því þeir eru of uppteknir í sérfræðiverkefnum. Þarna leynast mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og ef þessi hópur er styrktur má virkja allan starfsmannahópinn á mun árangursríkari hátt.“

Eins og einkaþjálfari í ræktinni

Markþjálfun er ein leið til að búa til sterkari stjórnendur. „Mín reynsla er sú að stjórnendur búa yfirleitt yfir allri þeirri þekkingu sem þeir þurfa á að halda, hafa farið á ótal námskeið og ráðstefnur, en skortir tækifærið og hvatann til að nýta þekkinguna til fulls og ná settum markmiðum í starfi,“ útskýrir Herdís. Hún segir markþjálfun snúast um að hjálpa fólki að átta sig á hvert það stefnir, skerpa fókusinn og sjá betur hvernig það getur nýtt sem best eigin styrkleika til að ná markmiðunum.

„Þetta er ekki ósvipað og með líkamsræktina. Margir vita alveg hvað þarf til að ná þar góðum árangri en fara ekki almennilega að taka á því og sjá framfarir fyrr en einkaþjálfari er fenginn til að veita aðhald og leiðsögn.“

Herdís segir stjórnendur oft vita á hvaða sviðum þeir vilja taka framförum en eiga í vandræðum með að ryðja ákveðnum hindrunum úr vegi. „Það sem markþjálfi gerir er m.a. að veita stjórnandanum tækifæri til að velta stöðunni fyrir sér. Markþjálfinn er gjarnan utanaðkomandi aðili sem hægt er að ræða við tæpitungulaust um hugsanlega veikleika, hugmyndir og markmið, og oft má gera heilmikið gagn með því einu að ræða um hlutina, velta upp ýmsum flötum og fá vandaða endurgjöf.“

Að gefa sér tíma fyrir breytingarnar er svo annar vandi: „Starf stjórnandans vill oft vera ákaflega annasamt, og ár eftir ár er eins og gefist aldrei ráðrúm til að standa við áramótaheitin. Síminn hringir, pósturinn pípir eða eitthvað kemur upp á sem áríðandi er að sinna. Eftir dúk og disk lítur stjórnandinn til baka og sér að hann hefur ekki tekið neinum persónulegum framförum eða nýtt alla þekkingu sína og styrkleika. Markþjálfinn heldur stjórnandanum við efnið og sér til þess að hann missir ekki fókusinn.“

LEIÐIN AÐ HJARTANU LIGGUR Í GEGNUM MAGANN

Má laga starfsandann með góðri steik?

Það þarf ekki alltaf að fara í óvissuferð eða halda mikið skrall til að kæta starfsfólkið. Litlu hversdagslegu hlutirnir geta miklu breytt og segir Herdís t.d. að kræsilegri réttir í mötuneytinu geti lyft starfsandanum upp úr lægð.

„Gaman er að segja frá lítilli tilraun sem ég framkvæmdi hjá fyrirtæki sem var að ganga í gegnum mikið annatímabil. Mælingar sýndu töluverða þreytu og minnkandi ánægju meðal starfsmanna en um leið var álagið svo mikið að fæstir höfðu áhuga á eða nennu til að taka þátt í skemmtilegum uppákomum á eða utan vinnutíma,“ segir Herdís. „Við brugðum því á það ráð að setja aukapening í rekstur mötuneytisins og létum framreiða þar enn kræsilegri máltíðir. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og starfsánægja batnaði mikið við það eitt að starfsmenn fengu „ekstra djúsí“ mat í hádeginu.“

En Herdís minnir líka á að óánægja með matarframboðið getur verið sterk vísbending um undirliggjandi stærri vanda. „Ef maturinn hefur sannarlega ekki tekið neinum teljandi breytingum en starfsfólkið fer að taka upp á því að viðra óánægju um matinn í meira mæli, þá segja rannsóknir okkur að allar líkur séu á að eitthvað sé að annars staðar í fyrirtækinu. Mötuneytismaturinn er bara auðvelt skotmark til að fá útrás.“

HÆTTIR TIL AÐ SKERA ÞJÁLFUNARÚTGJÖLD NIÐUR Á RÖNGUM TÍMUM

Minna svigrúm til að taka framförum í uppsveiflunni

Algengt er að þjálfunar- og liðsandaútgjöld séu það fyrsta sem lendir undir niðurskurðarhnífnum hjá fyrirtækjum. Herdís segir engan vafa á að þjálfun, símenntun og skemmtilegir viðburðir auðgi fyrirtækið og starfsfólkið en vandinn sé að oft sé snúið að mæla ávinninginn í krónum.

„Þegar keypt er nýtt tæki eða ráðinn nýr starfskraftur er yfirleitt nokkuð auðvelt að stilla upp tekjum og útgjöldum og sjá hverju fjárfestingin skilar. Góð fræðsla og góður starfsandi er eitthvað sem vandasamara getur verið að mæla í peningum, og erfitt að setja á það nákvæma krónutölu hversu mikils virði það er að bæta t.d. viðmót og þjónustu til að skila ánægðari viðskiptavinum.“

Eins segir Herdís að fyrirtækjum hætti til að láta útgjöldin til þessa málaflokks vera mjög sveiflukennd. Þegar illa árar er allt skorið við nögl en á uppgangstímum er meiri fjármununum varið í alls kyns námskeið og fjör. „En niðursveiflutímabilin eru einmitt kjörinn tími til að þjálfa, styrkja og breyta vinnubrögðum. Það er þá sem starfsmennirnir hafa aukið svigrúm og ráðrúm til að þjálfa sig upp í nýju verklagi og temja sér nýja siði. Í uppsveiflunni, þegar allt er á fullu og allir hamast við að moka út vöru og búa til pening, er oft enginn tími til að velta því fyrir sér hvernig við getum gert hlutina betur.“

ÞARF EKKI AÐ KOMA OFAN FRÁ

Hugmyndir starfsfólksins virkjaðar

Fjörið og kátínuna má ekki vanta á vinnustaðinn. Herdís segir að þótt vissara sé að leggja aukna áherslu á faglega styrkingu þá þýði það ekki að félagslega hliðin eigi að sitja á hakanum. Hún segir gott að hafa tvær reglur að leiðarljósi:

„Fyrir það fyrsta á að sinna þessari hlið starfseminnar með skipulögðum hætti, hafa sem skýrust markmið og reyna að fjárfesta í viðburðum sem taka á þeim sviðum sem mest liggur á að styrkja í liðsheildinni,“ segir hún. „Síðan þarf að reyna að leyfa starfsfólkinu að setja fram sínar hugmyndir um hvernig félagslífinu á vinnustaðnum á að vera háttað. Oft getur mesta hvatningin legið í því einu að fá að leggja eitthvað til og vita að hugmyndin er tekin alvarlega og vandlega skoðuð af yfirmanninum.“

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.