2. desember 2012 | Sunnudagsblað | 387 orð | 2 myndir

Er tíminn peningar?

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir kannast við að taka ákvarðanir sem miðast við langanir í dag, fremur en þarfir í framtíðinni.
Margir kannast við að taka ákvarðanir sem miðast við langanir í dag, fremur en þarfir í framtíðinni. Með öðrum orðum fáum við meiri gleði út úr því að kaupa okkur óþarfan hlut í dag (tafarlaus umbun) en að ímynda okkur sjálf í framtíðinni njóta lífsins áhyggjulaus (seinkuð umbun). Samt sem áður sýna rannsóknir fram á að getan til að seinka umbun hefur töluvert forspárgildi um almenna velgengni fólks. Þeim sem tileinka sér seinkaða umbun vegnar almennt betur en þeim sem ekki gera það.

Ein meginreglan í fjármálum er tímavirði peninga, en það er sú hugmynd að fjárupphæð í dag sé meira virði en sama upphæð í framtíðinni. Upphæð er meira virði því fyrr sem hún er fengin. Segjum sem svo að þú getir valið um að fá 10.000 krónur í dag eða sömu upphæð eftir eitt ár. Flestir veldu að fá upphæðina í dag.

En hversu mikið þarf upphæðin að hækka til að þú veljir að fá hana síðar? Vegna verðbólgu hækka vörur og þjónusta í verði yfir tímabilið. Því má segja að peningar rýrni að verðgildi. En að auki er fólginn innri kostnaður í því að seinka neyslu þar sem við metum ánægju í dag meira en ánægju síðar. Því þarf upphæðin að hækka meira en sem nemur verðhækkununum.

Því má segja að 10.000 krónur í dag séu jafnmikils virði eftir ár og 10.000 krónur auk bóta vegna verðhækkana og kostnaðar vegna seinkaðrar umbunar.

Mikið hefur verið fjallað um að innágreiðslur á höfuðstól lána og sparnaður vegna þess reiknaður út, stundum án þess að gera ráð fyrir tímavirði peninga. Ef þú greiðir 10.000 krónur inn á lán sem ber 5% vexti og er til 25 ára er stundum sagt að „sparnaðurinn“ sé 33.800 krónur. Þó er það í besta falli mikil einföldun. Eigirðu kost á 5% ávöxtun sparifjár og leggir sömu upphæð á sparireikning muntu eiga sömu upphæð eftir sama tímabil. Því mætti segja að verðmæti 33.800 króna eftir 25 ár séu 10.000 krónur í dag.

Þetta sýnir bókstaflega að tími eru peningar. Virði peninga sem þú átt í dag er ekki það sama og virði peninga sem þú eignast í framtíðinni. Það er því afar mikilvægt að gera ráð fyrir tímavirði peninga svo þú getir reiknað út ávöxtun eða sparnað af fjárfestingum sem þér er boðið og látið þannig peningana vinna fyrir þig.

Breki Karlsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.