[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM í Eugene Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.

HM í Eugene

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

„Ég var mjög stressuð og tók það út með því að hlaupa of hratt og ég skammast mín fyrir að hafa hætt,“ sagði Aníta Hinriksdóttir við FloTrack-vefinn eftir úrslitahlaupið í 800 metra hlaupi kvenna í heimsmeistaramóti ungmenna í Eugene, Oregon, í Bandaríkjunum í fyrrinótt.

Aníta fór geyst af stað og náði fljótlega forystunni og hélt henni þar til um 200 metrar voru eftir af hlaupinu. Þá virtist þreytan vera farin að segja til sín og bæði Margaret Nayirea Wambui frá Keníu og Sahily Diago frá Kúbu tóku fram úr henni. Fljótlega missti hún svo báða áströlsku keppendurna fram úr sér þannig að í kjölfarið hætti Aníta og kláraði ekki hlaupið.

Wambui frá Keníu varð heimsmeistari á tímanum 2:00,49 mín. sem er sami tími og Íslandsmet Anítu frá því í fyrra.

„Hingað til höfum við haldið spennustiginu vel. En trúlega var spennustigið bara of hátt núna,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, við Morgunblaðið.

„Hún fór fyrri hringinn mun hraðar en hún ætlaði. Hún hljóp hann á 56,33 sekúndum, sem er alltof hratt. Við vorum búin að tala um það að hún myndi hlaupa hann á svona 59 sekúndum. Hugsanlega 58 sekúndum. Hún var sjálf á því að hún mætti alls ekki hlaupa undir 58 sekúndum,“ sagði Gunnar Páll.

Stefnan sett á verðlaunapall

„Þetta er í fyrsta skipti sem hlutirnir ganga ekki alveg upp hjá henni, og það er miklu erfiðara að eiga við það en þegar allt gengur vel.“

„Við vorum náttúrlega allan tímann að stefna á verðlaunapall á þessu móti. Hún var komin í úrslit og þar eiga allir möguleika. Sú sem á langbesta heimstímann vann til dæmis ekki. Það er allt opið þegar kemur í svona úrslitahlaup. En rétt eftir hlaupið er hún bara brjáluð og reið út í sjálfa sig. En auðvitað verðum við í sameiningu að vinna úr þessu. Hingað til höfum við náð að vinna mjög vel með spennustigið,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, við Morgunblaðið.

„Æfingar hafa gengið mjög vel og hún er í mjög góðu líkamlegu formi. Hún hefur verið í formi til að bæta sig. Þannig að auðvitað eru þetta mikil vonbrigði.“

Þegar Aníta hefur jafnað sig eftir hlaupið í Eugene tekur svo við undirbúningur fyrir Evrópumót fullorðinna í frjálsíþróttum sem verður í Zürich í Sviss í næsta mánuði. Aníta er ein fjögurra Íslendinga sem hafa náð þátttökurétti þar, ásamt spjótkösturunum Ásdísi Hjálmsdóttur og Guðmundi Sverrissyni og svo Kára Steini Karlssyni sem mun keppa í maraþonhlaupi.

Mun ekki hlaupa svona aftur

„Ég mun ekki hlaupa svona aftur. Núna þarf ég bara að hreinsa hugann og koma tvíefld á Evrópumótið. En þetta var ekki eitthvað sem ég ætlaði mér hér í Eugene, allavega,“ sagði Aníta við FloTrack.

Aníta er aðeins 18 ára en hefur samt þegar afrekað það að verða heimsmeistari 17 ára og yngri í 800 metra hlaupi með yfirburðum og verða Evrópumeistari 19 ára og yngri, auk þess að hafa keppt á Demantamóti.

Það er því sannarlega enginn heimsendir að Aníta hafi ekki klárað úrslitahlaupið í fyrrinótt. Íslenska þjóðin sem styður svo vel við bakið á henni veit hvað hún getur og fylgist áfram stolt með henni, enda á hún svo sannarlega framtíðina fyrir sér.