Heimsmynd Þessi mynd, sem ljósmyndari Hvíta hússins tók, var birt í öllum helstu fjölmiðlum heims þann 13. október 1986, iðulega á forsíðu, eins og t.d. gert var í Morgunblaðinu þann dag.
Heimsmynd Þessi mynd, sem ljósmyndari Hvíta hússins tók, var birt í öllum helstu fjölmiðlum heims þann 13. október 1986, iðulega á forsíðu, eins og t.d. gert var í Morgunblaðinu þann dag. — Ljósmynd/Hvíta húsið Washington
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Til stendur að gera leikna kvikmynd um leiðtogafund þeirra Ronalds Reagans og Mikhails Gorbachevs, sem haldinn var í Höfða, í Reykjavík í október 1986.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Til stendur að gera leikna kvikmynd um leiðtogafund þeirra Ronalds Reagans og Mikhails Gorbachevs, sem haldinn var í Höfða, í Reykjavík í október 1986. Fram hefur komið að framleiðendur kvikmyndarinnar hafa óskað eftir að fá að kvikmynda í Höfða í einn mánuð næsta vor.

Jafnframt hefur komið fram að verði áform um gerð myndarinnar að veruleika muni Michael Douglas leika Ronald Reagan og Cristoph Waltz leika Gorbachev. Jafnframt að Baltasar Kormákur hafi verið beðinn um að leikstýra myndinni.

Ljósmyndin sem birt var á forsíðu Morgunblaðsins mánudaginn 13. október, 1986, að afloknum leiðtogafundinum, var tekin af ljósmyndara Hvíta hússins. Hún sýnir þá Gorbachev og Reagan í fundarherberginu í Höfða og að baki blasir við málverk Svölu Þórisdóttur Salman af Bjarna Benediktssyni heitnum, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra.

Heimsmynd fjarlægð

Þessi ljósmynd varð heimsmynd með því að birtast í öllum helstu fjölmiðlum heims, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum.

1994 létu R-listinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri fjarlægja málverkið af Bjarna Benediktssyni og koma fyrir í geymslu. Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálsson varð borgarstjóri um skamma hríð, eða í rúmt ár frá 2006 til 2007, lét hann verða eitt af sínum fyrstu verkum, að láta setja málverkið af Bjarna Benediktssyni aftur á sinn stað í Höfða við hátíðlega athöfn. Þar fékk málverkið að vera í friði í nokkur ár, eða allt til ársins 2011 að meirihlutinn undir stjórn þeirra Jóns Gnarr borgarstjóra og Dags B. Eggertssonar, forseta borgarstjórnar, lét fjarlægja málverkið á nýjan leik, og breyta þar með hinu fræga sögusviði.

Fá frjálsar hendur

„Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um að hluti kvikmyndarinnar um leiðtogafundinn verði tekinn upp í Höfða,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við Morgunblaðið. „Eitt af því fyrsta sem ég gerði eftir að ég tók við, var að hitta Baltasar Kormák og framleiðendur myndarinnar í Höfða, til þess að undirstrika að þeim stæðu allar dyr opnar, hvað varðar afnot að Höfða. Samt sem áður er það ekki frágengið, að þetta verði gert hér, en ég vona svo sannarlega að það verði.“

Dagur var spurður hvers vegna síðasti borgarstjórnarmeirihluti hefði látið fjarlægja málverkið af Bjarna Benediktssyni öðru sinni:

„Ég held að hafi nú bara verið Listasafn Reykjavíkur sem tók þá ákvörðun, en safnið fer með málverkamál borgarinnar. Ég held að það hafi ekki verið nein pólitík í því,“ sagði Dagur. „En mér skildist á fundi mínum með framleiðendunum í Höfða að þeir vildu hafa sviðsmyndina eins nálægt upprunalega útlitinu og mögulegt væri. Þeir fá náttúrlega sjálfdæmi í því, en það hefur ekki verið rætt um einstaka innanstokksmuni.“

Ekki verið rætt

- Finnst þér ekki skipta máli, þegar um heimsögulegan viðburð er að ræða eins og leiðtogafundurinn var, að fundarherbergið í Höfða fái að halda sér jafnmikið og mögulegt er í þeirri mynd sem það var í október 1986?

„Ég held að þeir sem framleiða og leikstýra myndinni muni sjá til þess og ekki bara innandyra í Höfða, heldur einnig varðandi allt umhverfi utan við Höfða, sem er vitanlega miklu flóknara mál, vegna þeirra miklu breytinga sem þar hafa orðið. Þess vegna held ég að myndir og aðrir innanstokksmunir séu minnsta málið í þessu.“

- Muntu beita þér fyrir því að málverkið af Bjarna heitnum Benediktssyni fari aftur upp á vegg í Höfða til frambúðar?

„Það kemur til greina, en það hefur bara ekkert verið rætt. Það verður örugglega sett upp í Höfða, ef tökur myndarinnar fara þar fram. Það hafa einhverjir viljað gera mikla pólitík úr þessu, en í mínum huga hefur myndavalið í Höfða aldrei snúist um pólitík. Málverkið af Bjarna Benediktssyni hefur aldrei verið neitt stórmál, heldur það að Höfði sé fallegur og aðgengilegur.“

Málverkið sem hangir á veggnum í fundarherberginu nú, er Búðareyri við Seyðisfjörð, olíumálverk á striga eftir Gunnlaug Scheving, málað á árunum 1930 til 1935.

Það er Listasafn Reykjavíkur sem velur listaverk sem hanga á veggjunum í Höfða. Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnafræðingur hjá Listasafni Reykjavíkur, sagði í samtali við Morgunblaðið að málverkið af Bjarna Benediktssyni væri í geymslu á Kjarvalsstöðum.

Aðspurð um hvort það hefði verið rætt að setja málverkið af Bjarna Benediktssyni aftur upp í fundarherberginu í Höfða, áður en tökur hæfust næsta vor á kvikmyndinni um leiðtogafundinn, sagði Helga Lára: „Mér skilst að það standi til og það kæmi mér ekki á óvart ef það yrði gert. Það væri auðvitað eðlilegt að leikmyndin yrði eins lík upphaflegu myndinni og hægt væri. Það er dálítið síðan þetta var rætt, en við erum mjög fljót að bregðast við, verði eftir því óskað.“

Reagan í Reykjavík

Ken Adelman, fyrrverandi forstjóri Afvopnunar- og vopnaeftirlitsstofnunar Bandaríkjanna, (e. Director of the U.S. Arms Control and Disarmament Agency) og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, fylgdi forsetanum hingað til Reykjavíkur, á leiðtogafundinn 1986.

Adelman hefur nýverið skrifað bók um fundinn, Reagan í Reykjavík, 48 stundirnar sem bundu enda á kalda stríðið (e. Reagan at Reykjavik, Forty-Eight Hours that Ended the Cold War).

Bók Adelmans hefur hlotið afar góða dóma í Bandaríkjunum og er sögð skrifuð af yfirgripsmikilli þekkingu, sanngirni og innsýn í það sem raunverulega gerðist. Í bókadómi The Washington Post um Reagan í Reykjavík, segir m.a. að Adelman endurspegli á sannfærandi hátt í frásögnum sínum þá rússíbanareið sem átti sér stað í Höfða þann 11. og 12. október 1986, bæði hvað varðar væntingar og tilfinningar.

Adelman greindi frá því nýverið í fyrirlestri að hann hefði tekið að sér að framleiða kvikmynd um leiðtogafund þeirra Reagans og Gorbachevs í Reykjavík, ásamt Ridley Scott. Væntanlega verður handrit bókarinnar að miklu leyti byggt á nýútkominni bók Adelmans.

Eins og fram kemur í aðaltexta, kemur til greina að Michael Douglas leiki Ronald Reagan í myndinni og að Baltasar Kormákur leikstýri henni.

Ekki náðist í Baltasar Kormák við vinnslu þessarar greinar.