[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyþór fæddist á Akureyri 2.8. 1954 en ólst upp við öll almenn sveitastörf á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem foreldrar hans stunduðu búskap.

Eyþór fæddist á Akureyri 2.8. 1954 en ólst upp við öll almenn sveitastörf á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem foreldrar hans stunduðu búskap. Hann var í barnaskóla á Stóru-Ökrum, unglingaskóla í Varmahlíð sem var heimavistarskóli, lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Laugum og prófum frá Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki. Hann stundaði síðan nám við Lýðháskólann í Skálholti 1974-75 og við Lýðháskólann í Kungälv í Svíþjóð 1978-79 og útskrifaðist sem leikari úr Leiklistarskóla Íslands 1983:

„Fyrstu kynni mín af leiklistinni voru í Skálholti. Í kjölfarið lék ég svolítið með Leikfélagi Skagafjarðar í Varmahlíð og var síðan á leiklistarbraut í Kungälv. Þar var mikið fjör en sá góði skóli var nokkurs konar suðupottur ungs fólks frá öllum Norðurlöndunum. Ég hef alltaf haft mikla samkennd með öllum þessum frændum okkar síðan.“

Grenjaskytta fjögur sumur

Eyþór sinnti sveitastörfum á sumrin á Uppsölum til 1985. Hann var auk þess grenjaskytta í Skagafirði í fjögur sumur.

Segðu okkur frá því, Eyþór!

„Já, þetta voru spennandi tímar. Þetta er kannski hámark veiðimennskunnar; oftast hafði maður betur en stundum slapp rebbi! Það fara yfirleitt tveir saman á greni, með tjald og nesti og liggja úti, stundum í þrjá til fjóra sólarhringa. Menn þurfa að læra á staðhætti og átta sig á atferli tófunnar, þurfa að vera þokkalegar skyttur, góðir félagar og geta sýnt mikla þolinmæði. Og hvað er betra en vaka bjarta sumarnótt uppi á heiði!“

Eyþór var leikstjóri hjá áhugamannaleikfélögum 1984-85 og vann síðan við gerð sjónvarpsauglýsinga hjá Hugmynd með Birni Björnssyni og Agli Eðvarðssyni.

Eyþór var sviðsstjóri hjá Stöð 2 á árunum 1987-2005 og síðan sviðsstjóri hjá Saga Film. Hann hefur starfað í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu frá opnun hússins og er sviðsstjóri þess.

Eyþór hefur sent frá sér tvær ljóðabækur, Hundgá úr annarri sveit, 2009, og Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu. Hann fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2009 fyrir Hundgá úr annarri sveit.

Eyþór hefur lengi haft ástríðu fyrir allri sviðsvinnu: „Sviðsstjórnun er afskaplega spennandi og gefandi starf, líklega vegna þess að hún tengir saman margvíslega og oft ólíka þætti í upptökum, beinum sjónvarpsútsendingum, tónleikum og ýmsum sýningum.

Ég hef verið svo lánsamur að fá að taka þátt í tveimur stórum ævintýrum á starfsferlinum; annars vegar á upphafsárum Stöðvar 2 og hins vegar á þessum upphafsárum í Hörpu.

Tónlistarhúsið var langþráð markmið fyrir íslenska menningu og það var djörf en hárrétt ákvörðun að ljúka við byggingu hússins á sínum tíma.“

Fjölskylda

Kona Eyþórs er Sigríður H. Gunnarsdóttir, f. 18.8. 1960, prófarkalesari. Hún er dóttir Gunnars Björnssonar, 14.8. 1927, d. 28.10. 1988, húsvarðar með meiru, og Ragnheiðar Jónsdóttur, f. 9.4. 1929, d. 12.1. 2014, bankamanns í Reykjavík. Þau voru ættuð úr Skagafirði.

Börn Eyþórs og Sigríðar eru Ragnheiður Vala Eyþórsdóttir, f. 27.10. 1985, vinnur á leikskóla en maður hennar er Unnsteinn Veigar Unnsteinsson rafvirki; Árni Gunnar Eyþórsson, f. 16.12. 1990, starfsmaður í Hörpu; Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, f. 12.10. 1994, nemi í LHÍ.

Systur Eyþórs eru Elín Sigurlaug Árnadóttir, f. 3.9. 1956, skrifstofumaður á Akureyri; Drífa Árnadóttir, f. 18.1. 1959, bóndi og hreppsnefndarmaður á Uppsölum í Skagafirði; og Anna Sólveig Árnadóttir, f. 9.4. 1962, kennari í Reykjavík.

Foreldrar Eyþórs eru Árni Bjarnason, f. 8.11. 1931, bóndi á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði, og Sólveig Árnadóttir, f. 13.3. 1925, húsfreyja á Uppsölum.