— AFP
David Brooks, dálkahöfundur hjá New York Times, skrifar athyglisverðan pistil um baksvið ástandsins í Mið-Austurlöndum.

David Brooks, dálkahöfundur hjá New York Times, skrifar athyglisverðan pistil um baksvið ástandsins í Mið-Austurlöndum. Hann furðar sig á því að stór hluti umræðunnar um Gaza hljómi eins og enn sé árið 1979 og um sé að ræða afmarkaða deilu milli Ísraela og Palestínumanna. Nái snjallir samningamenn niðurstöðu sem leiði til tveggja ríkja lausnar muni blóðsúthellingunum ljúka.

Brooks bendir á að allt umhverfi þessara átaka hafa breyst. Bullandi ágreiningur sé á milli arabískra alræðissinna og íslamista. Fyrir tveimur vikum létu 700 manns lífið á einni helgi í Sýrlandi á meðan allra augu mændu á Gaza.

Ekki er síður ágreiningur á milli súnníta og sjíta eins og sést í Írak. Súnnítar eigast einnig við sín á milli. Milli Sádi-Arabíu, Katar, Tyrklands og fleiri ríkja er kalt stríð.

Brooks bendir á að þegar herforingjarnir komust til valda í Egyptalandi og felldu stjórn Múslímska bræðralagsins lokuðu þeir 95% af göngunum, sem tengja Gaza við Egyptaland. Ástæðan var tengsl bræðralagsins við Hamas, sem ræður ríkjum á Gaza. Þetta lokaði á innflutning og þýddi tekjumissi fyrir Hamas upp á 460 milljónir dollara eða fimmtung landsframleiðslu Gaza.

Brooks vitnar í ísraelska blaðamanninn Avi Issacharoff, sem segir að vissulega vilji Hamas enn eyða Ísraelsríki, en eldflaugaárásir þeirra á Tel Aviv beinist í raun að Kaíró. 1979 hafi deila araba og Ísraela virst vera árekstur milli mismunandi siðmenningar, nú virðist hún vera hluti af árekstri innan siðmenningar araba um framtíð hennar.