Þorlákshafnarbúi Helgi Ólafsson fyrir miðju og með honum bræður hans tveir, Sigurður, t.v. og Jón, t.h. Ættarsvipurinn er sterkur.
Þorlákshafnarbúi Helgi Ólafsson fyrir miðju og með honum bræður hans tveir, Sigurður, t.v. og Jón, t.h. Ættarsvipurinn er sterkur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Í sveitinni dafnar allt. Við erum með spildu að Hrauni í Ölfusi, á heimaslóðum konu minnar, og þar höfum við á síðustu þrjátíu árum ræktað upp ágætan skóg; greni, ösp, birki og elri.

Í sveitinni dafnar allt. Við erum með spildu að Hrauni í Ölfusi, á heimaslóðum konu minnar, og þar höfum við á síðustu þrjátíu árum ræktað upp ágætan skóg; greni, ösp, birki og elri. Erum þar líka með ágætt sumarhús og þangað höfum við boðið vinum og ættingjum í heimsókn í tilefni dagsins,“ segir Helgi Ólafsson í Þorlákshöfn, sem er áttræður í dag.

Helgi er yngstur í hópi sextán bara frá Syðra-Velli í Flóa. „Það voru tuttugu ár milli mín og elsta bróðurins. Af þessum stóra hóp erum við sex eftir og ég vona að þau sem heimangengt eiga líti hér inn,“ segir Helgi sem flutti með fjölskyldu sinni í Þorlákshöfn árið 1969. „Ég hafði verið hér til sjós sem kokkur og háseti á bátum, svo það kom svolítið af sjálfu sér að við færum hingað. Ég var á sjó til 1973, vann svo við húsbyggingar í fjögur ár og að því loknu fór ég til starfa hjá sveitarfélaginu. Varð seinna verkstjóri í áhaldahúsinu og var þar til starfsloka. Það voru skemmtilegir tímar,“ segir Helgi sem er kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur og eiga þau fjögur uppkomin börn.

„Áhugamálin eru fyrst og fremst fjölskyldan og svo stúss í kringum sumarhúsið og sveitina. Þá er alltaf gaman að ferðast og við hjónin höfum í mörg ár haft sem fastan lið að skreppa til Kanaríeyja á haustin. Erum þar alltaf í nóvember og framlengjum íslenska sumarið með því,“ segir Helgi Ólafsson. sbs@mbl.is