Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is „Ekkert íslenskt jurtalyf hefur fengið markaðsleyfi vegna þess að það hefur einfaldlega ekki verið sótt um það,“ segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

„Ekkert íslenskt jurtalyf hefur fengið markaðsleyfi vegna þess að það hefur einfaldlega ekki verið sótt um það,“ segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2013 kom út á dögunum og er þar meðal annars fjallað um jurtalyf.

Um tíma var hægt að skrá ýmis jurtalyf hér á landi sem svokölluð náttúrulyf, en eftir að tilskipun úr löggjöf Evrópusambandsins var innleidd vegna evrópska efnahagssvæðisins, hefur ekki verið unnt að skrá jurtalyf á þennan hátt. Kom þar inn hugtakið „jurtalyf sem hefð er fyrir“ og opnað var á þann möguleika að skrá slík jurtalyf með svokallaðri einfaldaðri málsmeðferð.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Lyfjastofnunar voru fá náttúrulyf skráð á þeim tíma þegar hægt var að skrá þau hér á landi, og eru þau nú flest horfin af markaði. Ekkert jurtalyf sem hefð er fyrir, hefur enn verið skráð á Íslandi. „Um framleiðsluna gilda mjög strangar reglur og það er mjög kostnaðarsamt ferli að sækja um markaðsleyfi,“ segir Rannveig, spurð um ástæðuna fyrir þessu. Hún segir framleiðendur hér á landi því ekki geta selt vörur sem jurtalyf. „Ef selt er jurtalyf er því haldið fram að það hafi einhverja ákveðna verkun og þá er búið að segja að viðkomandi vara sé lyf,“ segir hún. „Hafi varan ekki ábendingar um virkni er aðeins hægt að selja hana sem almenna vöru eða fæðubótarefni,“ bætir hún við.

Erlend jurtalyf hafa stundum verið seld hér á landi, en eins og áður sagði eru þau nú flest horfin af markaði. Má til dæmis nefna Jóhannesarjurt sem hefur verið notuð vegna vægs þunglyndis. Að sögn Rannveigar er ekki ljóst hvers vegna framleiðendur jurtalyfja skrái ekki vörur sínar hér á landi, en hún telur smæð markaðarins vissulega hafa sitt að segja. „Ísland er lítill markaður og salan er minni en í mörgum öðrum löndum,“ segir hún.

Strangar reglur
» Um framleiðslu lyfja gilda mjög strangar reglur og kostnaðarsamt er að sækja um markaðsleyfi.
» Vegna smæðar markaðsins hérlendis hafa nánast öll erlend jurtalyf horfið af markaði.