Gunnar Dofri Ólafsson: "Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum er tapað. Þetta hafa menn á borð við Kofi Annan, Richard Branson, Paul Volcker, George Schultz og Javier Solana séð fyrir löngu."

Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum er tapað. Þetta hafa menn á borð við Kofi Annan, Richard Branson, Paul Volcker, George Schultz og Javier Solana séð fyrir löngu. Þeir hafa séð það sem margt gott fólk neitar að horfast í augu við: fíkniefnavandinn er fyrst og fremst vandamál heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, ekki lögreglu. Í kjölfarið hafa þeir kallað eftir breyttri nálgun á hvernig eigi að leysa vandann.

Afleidd vandamál fíkniefnaneyslu eru bein afleiðing af þeirri stefnu stjórnvalda um allan heim að reyna að koma í veg fyrir að fólk neyti fíkniefna með því að setja það í fangelsi. Smyglarar, salar og handrukkarar þrífast á því að efnin eru ólögleg, og geta þeir því komið fram með þeim hætti sem þeir gera, og rukkað himinháar fjárhæðir fyrir efnin. Kostnaðurinn við að rækta kannabisefni er til dæmis á pari við kostnaðinn við að rækta te. Kíló af tei kostar ekki 3,5 milljónir.

Ég hef séð góða vini missa tökin á eiturlyfjaneyslu og horft á eftir þeim inn í heim sem þeir ráða ekki við. Enginn þeirra er dáinn. Ennþá. Bannið virkar því augljóslega ekki, því efnin eru allsstaðar. Ég, óbreyttur blaðamaður, ætti auðveldara með að verða mér úti um kannabisefni á aðfangadagskvöldi, ef ég svo vildi, heldur en að panta mér pítsu. Svarti markaðurinn vanvirðir ekki bara hegningarlög, heldur líka reglur um hvíldarrétt starfsmanna. Að sama skapi spyr fíkniefnasalinn ekki um skilríki.

Ég vil ekki að fólk neyti fíkniefna. Þau eru skaðleg. Sjálfur hef ég ekki notað aðra vímugjafa en áfengi. Og tóbak þegar ég hef drukkið of mikið áfengi. En að fangelsa fólk fyrir að neyta ólöglegra vímuefna er eins og að ætla að uppræta fátækt með fjársektum eða offitu með fangelsisvist. Bannárin ættu að sýna okkur hvað þetta er vonlaus hugmynd.

Heimurinn mjakast samt í rétta átt. Nokkur ríki Bandaríkjanna hafa leyft neyslu kannabisefna. Skattlagning efnanna hefur svo skilað þessum ríkjum Bandaríkjanna mun meiri tekjum en þau bjuggust nokkurn tíma við. Afleiðingarnar eru einnig þær að fíkniefnabarónar eru í bölvuðu klandri, eins og sést í úttekt á fréttavefnum Vice undir fyrirsögninni „Legal Pot in the US Is Crippling Mexican Cartels.“ Þar segir meðal annars að kílóverð á kannabisefnum frá framleiðanda hafi fallið úr 100 dollurum í 25 dollara. Kannabisbændur planta frekar öðrum plöntum en kannabisplöntum vegna verðfallsins. Þá segir Washington Post að áfengi sé 30% líklegra til að koma þér á bráðamóttöku en kannabisefni.

Ósýnilega höndin fer því rakleiðis um kverkarnar á þeim sem missa einokunarstöðu sína þegar ríkið lætur af afskiptum. Litla Ísland er blessunarlega ekki í jafnslæmri stöðu og Bandaríkin hvað þetta varðar. En við getum gert betur. Setjum fordæmi fyrir heimsbyggðina og leyfum fólki að reykja sitt gras í friði.

gunnardofri@mbl.is

Gunnar Dofri Ólafsson