[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is „Jæja, hvaða lið heldurðu að taki dolluna í vetur?“ Þessa spurningu fékk ég á förnum vegi á dögunum, þar sem dollan vísar til enska meistaratitilsins.

England

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Jæja, hvaða lið heldurðu að taki dolluna í vetur?“ Þessa spurningu fékk ég á förnum vegi á dögunum, þar sem dollan vísar til enska meistaratitilsins. Ég hugsaði mig um svolitla stund en svaraði svo: Chelsea. Kom þá nokkurt fát á minn mann, enda ekki stuðningsmaður Lundúnaliðsins, heldur annars félags í toppbaráttunni. Hann neyddist að lokum til að taka undir þessa spá mína, þó ekki með glöðu.

En af hverju Chelsea? Jú, félagið hefur einfaldlega staðið sig best á leikmannamarkaðnum í sumar að mínu mati. Þeirra Akkilesarhæll á síðasta tímabili var markaskorunin, en koma Diego Costa og Didier Drogba ætti að leysa þann höfuðverk að þurfa að treysta á Fernando nokkurn Torres. Það er búið að margreyna það.

Talandi um höfuðverk, það verður ekki auðvelt að velja á milli Thibaut Courtois og Petr Cech í markið. Annars er ég sérstaklega hrifinn af því að liðið hafi krækt í Drogba á ný, hann mun gefa þeim meira en margur heldur enda með reynslu úr deildinni. Það sama má segja um Cesc Fábregas, sem ætti ekki að þurfa tíma til að venjast enska boltanum eins og svo margir. Þá er Filipe Luís spennandi bakvörður og undirstrikar að José Mourinho er að kaupa til að ná árangri strax á næsta tímabili. Það er ekkert út í bláinn að ég telji það ganga eftir.

Tottenham-áhrifin berast víðar

Það liggur beinast við í framhaldinu að einhver varpi á mig spurningunni: Af hverju ekki Liverpool? Svona fyrst ég er að minnast á félagaskipti, enda fáir verið jafn duglegir á því sviði í sumar og Brendan nokkur Rodgers. Ætli kallinn hafi fengið sumarfrí? En allavega þá held ég að Liverpool þurfi að bíða aðeins lengur eftir titlinum, þó þeir verði sjálfsagt í baráttunni.

Ástæðan er sú að ég held þeir verði fram eftir vetri að hrista af sér það sem ég vil kalla Tottenham-áhrifin. Leikmannaveltan hefur verið gríðarleg í Bítlaborginni enda fáir einstaklingar til sem geta fyllt skó Luis Suárez. Því þurfti að kaupa nokkra.

Svipað gerðist hjá Tottenham í fyrra eftir að Gareth Bale fór, spennandi leikmenn komu í bílförmum en náðu ekki að smella almennilega saman. Það verður gaman að sjá hvernig það mun ganga hjá Spurs í vetur, sem ég held að gæti gefið sýn á það hvernig þeim rauðklæddu mun vegna eftir ár.

Misjöfn samkeppni í Manchester

Þá eru það grannarnir í Manchester-borg. Pressan er gríðarleg United-megin að Louis van Gaal nái árangri, helst ekki seinna en í gær. Enginn Evrópubolti á Old Trafford þýðir að öll orkan getur farið í stríðið heima fyrir. Það hefur verið yngt upp í liðinu í sumar með komu Luke Shaw og Anders Herrera, en vörnin verður stærsta spurningamerkið.

Rio Ferdinand og Nemanja Vidic eru farnir og guð forði liðinu frá því að treysta á Jonny Evans og Chris Smalling saman í allan vetur. Ef liðið ætlar sér að vera meistaraefni þarf að kaupa, svo einfalt er það.

City-megin gengur allt einhvern veginn eins og vel smurð vél og hefur gert lengi, enda stjörnur í hverju rúmi og engin breyting ætti að vera á áskrift þeirra af toppbaráttu. Það hafa komið spennandi miðjumenn í sumar ásamt Bacary Sagna frá Arsenal til að veita samkeppni um bakvarðarstöðuna. Það er einmitt það sem United vantar í sitt lið, almennilega samkeppni.

Sánchez hent í djúpu laugina

Fjórða sætið hefur löngum verið viðunandi hjá Arsene Wenger þó að stuðningsmenn Arsenal vilji meira. Það gæti alveg gengið eftir í ár, en veltur svolítið á Alexis Sánchez, sem mun reynast liðinu gríðarlegur fengur. Eina spurningin er hversu langan tíma hann þarf til þess að venjast enska boltanum.

Einn heimsklassa „sópari“ á miðjuna væri svo kærkominn, og ef liðið nær að klófesta mann eins og Sami Khedira frá Real Madrid er hægt að búast við miklu. Meiðslapésarnir Theo Walcott og Alex Oxlade-Chamberlain þurfa hins vegar að haldast heilir lengur en nokkrar vikur í senn.

Everton að taka næsta skref

Spenntastur er ég fyrir því að sjá hvernig liðunum fyrir neðan þessi sjálfskipuðu topp 4-5 í hugum margra reiðir af. Ég hef þegar minnst á Tottenham, sem hljóta að verða sterkari en í fyrra. Liðið treystir mikið á mörk frá þessari flóru framliggjandi miðjumanna, sem eru nú árinu eldri á Englandi og fá mikla ábyrgð. Eins með Newcastle, sem hefur bætt við sig fjölmörgum leikmönnum og ætti að berjast um Evrópudeildarsæti, sérstaklega ef einn til tveir menn í viðbót verða lokkaðir norður.

Everton hins vegar, það er eitt spennandi félag. Það að hafa klófest Romelu Lukaku er magnað og í raun kaup sumarsins, sama hvað verðmiðinn var hár. Það er ótrúlegt að Chelsea geti ekki notað hann, en það er annað mál. Liðið spilaði flottan bolta í fyrra og kemur bara sterkari til leiks nú, enda snillingar í að hamra járnið meðan heitt er. Það er ekki lengur hægt að tala um þá sem eitthvert spútnik-lið, gæðin eru löngu komin yfir það.

Enn er tæpur mánuður eftir af félagaskiptaglugganum og margt sem getur gerst. Ég segi kannski ekki að ég hafi farið með alla þessa rullu fyrir kunningja minn sem ég minntist á í upphafi, en hann gat þó tekið undir með mér að Chelsea er líklegast til afreka eins og staðan er núna.