Veisluföng Í hvítu tjöldunum svonefndu halda heimamenn til um verslunarmannahelgina. Þau María Höbbý Sæmundsdóttir (t.v.) og Guðmundur Pálsson (fyrir miðju) buðu vinum og vandamönnum til dýrindisveislu í tjaldi sínu.
Veisluföng Í hvítu tjöldunum svonefndu halda heimamenn til um verslunarmannahelgina. Þau María Höbbý Sæmundsdóttir (t.v.) og Guðmundur Pálsson (fyrir miðju) buðu vinum og vandamönnum til dýrindisveislu í tjaldi sínu. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Það er óhætt að segja, að Jón Ragnar Jónsson tónlistarmaður sé á faraldsfæti þessa dagana.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Það er óhætt að segja, að Jón Ragnar Jónsson tónlistarmaður sé á faraldsfæti þessa dagana. Í gær kom hann til Íslands frá Svíþjóð þar sem hann lék með FH gegn Elfsborg í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Stuttu eftir að hann kom til landsins hélt ferðalagið áfram til Vestmannaeyja en þar var Jón stjarna kvöldsins þegar hann flutti þjóðhátíðarlagið í ár , Ljúft að vera til , við góðar undirtektir viðstaddra. Í dag verður hann á unglingalandsmótinu á Sauðárkróki og á sunnudag skemmtir hann á mýrarboltamótinu á Ísafirði.

„Helgin leggst mjög vel í mig. Þótt þetta sé vinnan manns er það mjög skemmtilegt,“ sagði Jón við Morgunblaðið í gær. „Ég ætla að taka unnustuna og soninn með mér til Eyja og á Sauðárkrók.“ Hann bætti við að það yrði sannkölluð fjölskyldustemning í Herjólfsdalnum þar sem fleiri meðlimir fjölskyldunnar yrðu á svæðinu.

„Þetta verður fjölskyldutími, mamma og pabbi ætla að koma til Eyja enda verðum við bræður báðir að spila,“ sagði Jón í gær við Morgunblaðið en hann og tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson eru bræður.

Þjóðhátíð er þó ekki eina hátíðin þar sem þeir bræður koma fram, sama kvöldið um helgina.

„Fyrir tilviljun erum við bræðurnir með sama prógramm um helgina. Við keyrum á unglingalandsmótið með fjölskyldum okkar. Það er fínt að gera eitthvað um helgina þannig að þetta sé ekki bara keyrsla og vinna,“ segir Jón og minnir á að það verði að njóta líka.

Jón var spenntur fyrir gærkvöldinu þegar hann ræddi við Morgunblaðið í gær. Spurður hvernig hann héldi að tilfinningin yrði, að standa fyrir framan rúmlega 10 þúsund manns og flytja þjóðhátíðarlagið, stóð ekki á svörum: „Eins og ég myndi segja þá er það gæsahúð en eins og einn knattspyrnumaður sagði á dögunum, þá verður þetta algjör gæsahrollur,“ segir Jón og hlær.