Argentína Cristina Fernandez de Kirchner, forseti landsins, á blaðamannafundi. Stjórnvöld kenna bandarískum yfirvöldum um greiðslufall ríkisins.
Argentína Cristina Fernandez de Kirchner, forseti landsins, á blaðamannafundi. Stjórnvöld kenna bandarískum yfirvöldum um greiðslufall ríkisins. — AFP
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Sumir af stærstu vogunarsjóðum heims hafa að undanförnu keypt hlutabréf í ýmsum argentínskum fyrirtækjum.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Sumir af stærstu vogunarsjóðum heims hafa að undanförnu keypt hlutabréf í ýmsum argentínskum fyrirtækjum. Fjárfestingarnar þykja til marks um að vogunarsjóðir séu að veðja á skjótan efnahagsbata Argentínu þrátt fyrir að greiðslufall hafi orðið á skuldum ríkisins í annað sinn á aðeins þrettán árum.

Frá þessu er greint í Financial Times en vogunarsjóðirnir hafa fjárfest í orkufyrirtækjum, bönkum og fjarskiptafélögum. Telja þeir líklegt að farsæl niðurstaða muni að lokum fást í deilu argentínskra stjórnvalda við þann hóp kröfuhafa sem neituðu að taka þátt í samkomulagi um endurskipulagningu á skuldum ríkisins.

Bandaríska lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's setti Argentínu í greiðslufallsflokk á miðvikudaginn eftir að ríkið greiddi ekki 539 milljónir dala í vaxtagreiðslur til kröfuhafa. Fjármálaráðherra Argentínu, Axcel Kicillof, sagði að „hrægammasjóðirnir“ hefðu hafnað sáttatilboði stjórnvalda.

Viðbrögð fjárfesta við greiðslufalli Argentínu hafa verið fremur lítil. Ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréf Argentínu hækkaði aðeins lítillega en skuldatryggingaálag ríkisins – það sem fjárfestar þurfa að greiða fyrir tryggingu gegn því að útgefandi skuldabréfa fari í greiðsluþrot – hefur aukist um meira en 11% í síðustu viku.

Fram kemur í frétt Financial Times að vogunarsjóðirnir DE Shaw, Third Point og Renaissance Technologies hafi á undanförnum vikum keypt hluti í argentínskum fyrirtækjum sem eru skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Þannig hafi þau fjárfest í olíufyrirtækjunum YPF og Petrobas, fjarskiptafyrirtækinu Telecom Argentina og fjármálafyrirtækinu Banco Francés.

Í bréfi sem Daniel Loeb, forstjóri vogunarsjóðsins Third Point, skrifaði til fjárfesta í síðasta mánuði segist hann þeirrar skoðunar að argentínsk stjórnvöld muni að lokum ná samkomulagi við kröfuhafa. Takist það ætti Argentína að fá aðgang á ný að erlendum lánamörkuðum sem myndi þann lausafjárvanda sem landið glímir við.

Third Point er á meðal þeirra sem hafa keypt almennar kröfur á slitabú gamla Landsbankans á Íslandi.

Kauptækifæri eftir greiðslufall

Fleiri vogunarsjóðir hafa á síðustu misserum komið auga á þau fjárfestingatækifæri sem kunna að felast í Argentínu samhliða þrætu þeirra við kröfuhafa. Michael Novogratz, stjórnarformaður bandaríska vogunarsjóðsins Fortress Investments, sagði á ráðstefnu fyrr á þessu ári að Argentína væri dæmi um ríki sem „væri svo slæmt, að það væri gott“. Taldi hann að greiðslufall ríkisins myndi hafa í för með sér kauptækifæri fyrir fjárfesta.
Sagan endalausa
» Greiðslufall varð á skuldum argentínska ríkisins í vikunni.
» Sumir vogunarsjóðir sjá kauptækifæri samfara efnahagsvandræðum Argentínu. Telja að ef samkomulag næst við kröfuhafa gætu erlendir lánamarkaðir opnast.
» Hafa keypt hlutabréf í orkufyrirtækjum, bönkum og fjarskiptafélögum.