Helgarskemmtun Felix Bergsson kemur fram í Neskaupstað um verslunarmannahelgina í fimmtánda sinn ásamt vini sínum, Gunnari Helgasyni. Hann kveður stemninguna fyrir austan ætíð vera góða og býst ekki við öðru í ár.
Helgarskemmtun Felix Bergsson kemur fram í Neskaupstað um verslunarmannahelgina í fimmtánda sinn ásamt vini sínum, Gunnari Helgasyni. Hann kveður stemninguna fyrir austan ætíð vera góða og býst ekki við öðru í ár. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Ég er fimmtánda árið í röð, ásamt Gunnari Helgasyni vini mínum, á Neistaflugi í Neskaupstað.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Ég er fimmtánda árið í röð, ásamt Gunnari Helgasyni vini mínum, á Neistaflugi í Neskaupstað. Við höfum verið þar eins og nokkurs konar kynnar eða stjórnendur dagskrár, allar verslunarmannahelgar frá því árið 2000. Við byrjuðum í gærkvöldi og svo höldum við áfram alla helgina. Þetta endar síðan á kvöldvökunni miklu á sunnudagskvöldinu,“ segir Felix Bergsson en eins og áður segir skemmta þeir Gunnar í Neskaupsstað um helgina. Felix gaf nýverið út breiðskífu, hans aðra, og kemur hann til með að flytja efni af henni í kvöld.

Alltaf jafn gaman fyrir austan

„Stemningin er alltaf frábær í Neskaupstað yfir verslunarmannahelgina. Þetta er náttúrlega fimmtánda skiptið sem við erum hérna og okkur finnst þetta alltaf jafn gaman. Við höfum í raun byrjað að sakna vina okkar hérna strax á þriðjudegi eftir verslunarmannahelgi öll síðustu ár,“ segir hann.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem ég kem fram á tónleikum og syng eitthvað af viti af þessari nýju plötu minni. Ég mun líklegast auk þess taka tvö eða þrjú lög af þeirri gömlu. Þetta er svona klukkutíma viðburður sem haldinn verður á nýju hóteli, Hildebrand Hótel í gamla Kaupfélagshúsinu. Þetta eru tónleikar fyrir matargesti og aðra sem vilja mæta. Þeir byrja klukkan 21 á laugardagskvöldið,“ segir Felix.

Semur flesta texta sína sjálfur

„Það eru alltaf tvö til þrjú þúsund manns þarna þessa helgi. Það koma mjög margir brottfluttir aftur heim á þessum tíma og aðrir sem eru að heimsækja Austfirði. Á sunnudagskvöldunum hafa verið rómaðir brekkusöngvar. Þetta er hefð sem er tekin frá Þjóðhátíð og er hún alltaf vinsæl. Þá sitja allir í brekkunni og syngja með. Þar verða auk þess grínistar og allskyns tónlistaratriði,“ segir hann um það sem er á dagskránni á hátíðinni. Spurður út í nýju plötuna sína kveður hann hana vera hreinræktaða poppplötu.

„Þarna eru lög eftir sex höfunda. Það eru því ýmsir sem koma þarna að, þar á meðal Jón Ólafsson, Eberg, Karl Olgeirsson, Dr. Gunni og fleiri góðir. Þetta eru allt frábærir lagahöfundar þannig að ég nýt mín vel að syngja lögin. Ég samdi textana sjálfur við átta lög af tíu og ég skírði plötuna Borgina sökum þess að þetta eru ástarljóð sem tengjast borgum. Ég er mikið borgarbarn,“ segir Felix.

Kemur fram á Hinsegin dögum

Felix segir jafnframt að Borgin sé talsvert frábrugðin fyrri plötu hans. „Hún er nútímalegri, það var meiri vísnabragur yfir hinni. Ljóðin sem voru eftir Pál Ólafsson bjuggu svolítið til stemninguna sem er á þeirri plötu. Nýja platan er eins og ég segi, hrein og klár poppplata með nútímalegra yfirbragði. Oft á tíðum svolítið rokkuð,“ segir hann.

„Ég verð á Hinsegin dögum eftir viku, nánar tiltekið 9. ágúst. Vonandi kem ég líka fram á tónleikum í næstu viku sem verða í Sundhöll Reykjavíkur. Það verða svona sundlaugatónleikar, ég er mjög spenntur fyrir því. Þar hitti ég aftur Norðmanninn Jósefínu Winther sem samdi júróvísjónlag Norðmanna. Hún er að koma á Hinsegin daga þetta árið, hún er frábær stelpa. Svo verð ég með útgáfutónleika á Café Rosenberg 28. ágúst næstkomandi, gaman að segja frá því. Þar verð ég með góða hljómsveit með mér og mun keyra svolítið á efni af nýju plötunni. Platan er síðan til í öllum helstu plötuverslunum en svo er hún líka komin inn á Spotify, iTunes, tónlist.is og það allt saman. Maður reynir taka þátt í þessu öllu saman þrátt fyrir að maður sé orðinn svona gamall,“ segir Felix kíminn að lokum.