Heiðar Guðjónsson
Heiðar Guðjónsson
Eftir Heiðar Guðjónsson: "Það blasir við að besta leiðin fyrir Ísland er að setja gömlu bankana í gjaldþrot."

Greiðslufall Argentínu er þörf viðvörun til okkar Íslendinga. Samningaleiðin sem Argentína fór fyrir áratug hefur ekki gengið betur en svo að kröfuhafar sem neituðu að samþykkja samningana en eiga brotabrot af útistandandi kröfum ná að beygja ríkið og hina sem eiga 19/20 hluta krafnanna og samþykktu samningana.

Það er rík tilhneiging embættismanna að vilja leysa hlutina á snyrtilegan hátt og að alþjóðleg athygli sé hverfandi, hagsmunir kröfuhafa eru hins vegar að hámarka heimtur og sterkt vopn í þeirri viðleitni getur verið að hóta ríkjum alþjóðlegum málaferlum og freista þess þannig að loka fyrir aðgang ríkja að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hagsmunir íslensks almennings og alþjóðlegra kröfuhafa eru ekki þeir sömu, íslenskur almenningur á allt sitt undir að Íslandi vegni vel, erlendir kröfuhafar eiga einungis lítið brot áhættusömustu eigna sinna undir því að Ísland geti staðið í skilum. Vandinn er sá að útgefnar skuldir íslensku bankanna og ríkissjóðs Argentínu voru utan lögsögu landanna og þar með koma alþjóðlegir dómstólar til skjalanna. Þeir hinir sömu og mæltu fyrir samningum um Icesave eru nú að berjast fyrir samningaleið við kröfuhafa bankanna. Þar læra menn ekki af fyrri mistökum. Í dag eru skuldir slitabúa bankanna ekki skuldir íslenska ríkisins og það væri glapræði að ganga til samninga þar sem íslenskur almenningur gengi í ábyrgð fyrir þær.

Sömu lög giltu á Íslandi um gjaldþrot þegar bankarnir seldu skuldabréf alþjóðlega og gilda nú. Það getur því enginn haldið því fram að ekki sé farið eftir settum reglum þótt íslenska ríkið gangi ekki til samninga um uppgjör þessara búa heldur fari eftir þeim lögum sem giltu um gjaldþrot þegar skuldabréfin voru gefin út.

Það blasir við að besta leiðin fyrir Ísland er að setja gömlu bankana í gjaldþrot. Lífeyrissjóðir, sem eru stærstir íslenskra kröfuhafa bankanna og hafa gagnrýnt sjálftöku slitastjórna búanna og reynt að binda enda hana fyrir dómstólum, hafa ríka hagsmuni af því að dómstólar á Íslandi setji búin í þrot og ættu því að krefjast þess. Hagsmunir Íslendinga eru að farið sé að íslenskum lögum, en ekki að einn hópur, kröfuhafar, fái að semja sig fram hjá þeim, það rýrir hag rétthafa lífeyrissjóðanna með því að viðhalda gjaldeyrishöftunum og leggur óbærilega áhættu af alþjóðlegum málaferlum á komandi kynslóðir.

Höfundur er hagfræðingur.