Hrafnhildur J. Scheving fæddist 3. júlí 1961. Hún andaðist 24. júlí 2014. Útför hennar var gerð 31. júlí 2014.

Elsku vinkona, þá er komið að síðustu kveðjustund. Ég kvaddi þig á líknardeildinni eins og þú baðst mig um, það var erfitt. Ég ætla ekki að skrifa mikið, en ég og öll mín fjölskylda viljum þakka þér fyrir góð kynni. Það var alltaf fjör þar sem þú varst. Svo ætla ég að þakka þér, góða vinkona, fyrir alla hjálpina undanfarin ár, það er ómetanlegt að hafa átt svona konu að. Við eigum margar góðar minningar en þær verða bara fyrir okkur. Ég verð að láta fylgja með eina góða sögu þótt margar séu til. En þær eigum við einar. Við Hrabba sátum við eldhúsborðið eins og svo oft og spiluðum spilið okkar sem við kölluðum „rúbertu“. Þetta var einkaspilið okkar og við rifumst og höfðum hátt eins og okkur einum var lagið, en strákpatti varð vitni að einni svona rimmu í rúbertuspilinu og hann átti ekki til orð hvað ég, húsmóðirin, gat verið vond við gestinn, en síðan vandist hann þessu og vissi um leið að það var bara gleði á bak við rifrildið.

Komið er að lokakveðjustund,

en við munum eiga okkar endurfund.

Elsku vinkona, takk fyrir allt og allt,

ég met það mikils, það þú vita skalt.

Elínborg Hilmarsdóttir

og fjölskyldan á Hrauni.

Elsku Hrafnhildur mín, ég man vel vorið 1993 er þú gekkst í Slysavarnadeildina okkar í Reykjavík. Tiltölulega nýflutt frá Siglufirði með yndislegu dæturnar þínar þrjár. Frá þeim degi höfum við verið Slysó-vinkonur.

Vegna sérstakra kringumstæðna settist þú beint í sæti varaformanns deildarinnar og Ingibjörg B. Sveinsdóttir í sæti formanns. Þessir fyrstu mánuðir voru mikil áskorun fyrir nýja forystu og fékk ég það hlutverk að styðja við ykkur sem var sérstaklega ánægjulegur tími. Það er sárara en tárum taki að þurfa að kveðja ykkur báðar svona ungar, Ingibjörgu árið 2006 og þig í dag.

Þetta fyrsta ár var viðburðaríkt, m.a. eignaðist deildin sitt fyrsta húsnæði, Höllubúð. Á aðalfundi í Stykkishólmi slógum við í gegn ásamt systrum okkar í Hraunprýði. Við vildum merktan fatnað fyrir konurnar í félaginu. Um haustið komu rauðu prjónuðu jakkapeysurnar, sem glöddu okkur allar. Þetta fyrsta ár var líka alveg einstaklega skemmtilegt, mikið hlegið og tekið upp á ýmsu.

Þú varst í stjórn samfellt til ársins 2006 og meira en helming þess tíma sátum við þar saman. Ferðalög, fundir, þing, fjáraflanir og leikir, þær eru margar minningarnar þessi tuttugu ár, svo ótal margar skemmtilegar stundir sem hægt er að rifja upp.

Við létum okkur ekki duga að vera saman í Slysó. Oft sátum við þar fyrir utan og spjölluðum um lífið og tilveruna, börnin og stráka. Oftar en ekki var drukkið kaffi við eldhúsborðið í Flétturimanum, það voru notalegar stundir. Ég fékk að fylgjast með dætrunum vaxa úr grasi, gleðinni yfir fyrsta barnabarninu þínu, honum Ragnari, og spenningnum og rómatíkinni er þú hittir hann Símon þinn, þann yndislega mann. Þið eignuðust hvort annað og síðan fallegu Ásthildi ykkar.

Afkomendunum fjölgaði og eru barnabörnin nú orðin fjögur. Fjölskyldan var þitt líf og yndi, þú lagðir þig mikið fram um að fjölskyldan eyddi stundum saman og nutuð þið Símon þess. Þú kenndir dætrunum hve dýrmætt það er að fjölskyldan standi þétt saman. Þau munu án efa njóta þess nú í þessari miklu raun sem það er að kveðja þig. Þú kenndir þeim vel.

Í þessi rúmu tuttugu ár höfum við gengið saman í gegnum auðvelda og erfiða tíma, bæði persónulega og í deildinni okkar. Við höfum alltaf verið einhuga um mikilvægi starfsins hjá Slysavarnadeildinni okkar og að leggja okkur fram við að efla það með félögum okkar. Við kynntumst báðar Drottni á þessari leið, hvor í sínu lagi, og gátum rætt þá reynslu og beðið saman. Það var yndislegt að eiga spjall við þig fyrir hálfum mánuði, hvað þú varst sátt, búin að kveðja og fela Guði framhaldið. Þú varst og ert blessuð og getur litið stolt og auðmjúk yfir fótspor þín á þessari jörð.

Elsku Guðrún, sem kveður dóttur þína, Símon, sem horfir á bak eiginkonu, Guðrún, Tinna, Heiðrún og Ásthildur sem kveðjið mömmu allt of snemma, Ragnar, Birgir Sveinn, Elísa Björk og Magnús sem kveðjið frábæra ömmu. Megi góður Guð umvefja ykkur og styrkja í þessari sorg.

Elsku Hrafnhildur mín, þakka þér fyrir samfylgdina. Minningin lifir.

Fríður Birna.