Árbær Líf og fjör og allir með í leik.
Árbær Líf og fjör og allir með í leik. — Morgunblaðið/Ómar
Um verslunarmannahelgina verður fjölbreytt leikjadagskrá á Árbæjarsafni, sem ætluð er ungu fólki og öðrum eftir atvikum. Má af því ráða að borgin hefur upp á margt að bjóða þessa helgi, þegar svo margir eru á ferðinni og utan bæjarmarkanna. Frá kl.

Um verslunarmannahelgina verður fjölbreytt leikjadagskrá á Árbæjarsafni, sem ætluð er ungu fólki og öðrum eftir atvikum. Má af því ráða að borgin hefur upp á margt að bjóða þessa helgi, þegar svo margir eru á ferðinni og utan bæjarmarkanna.

Frá kl. 14, bæði sunnudag 3. ágúst og mánudag 4. ágúst, geta gestir keppt í pokahlaupi, skjaldborgarleik og reiptogi, svo nokkur gamlir íslenskir leikir en sígildir séu nefndir.

Á safninu er fjölbreytt úrval af útileikföngum til staðar, sem krökkum býðst að nota að vild, svo sem húla-hringir, snúsnú, kubbar og stultur og flottir kassabílar. Á gamaldags róluvelli verður hægt að leika í rólunum, vegasaltinu eða í sandkassanum.

Á sýningunni Komdu að leika er mikill fjöldi leikfanga frá ýmsum tímum sem krökkunum er frjálst að leika sér með og láta ímyndunaraflið þannig bera sig á vængjum inn á svið fortíðarinnar.

Á Árbæ, sem einu sinni tilheyrði Mosfellssveit og var langt úti á landi, má kynnast sveitalífi fyrri alda og verður gestum og gangandi boðið upp á lummur. Vert er að minna á dýr í safninu, þar sem eru kýr og kálfur, hestar og folald, kindur og lömb. Mjaltir eru kl. 16 alla daga og þá gefst gestum kostur á að smakka spenvolga mjólk. Í Dillonshúsi verða að sjálfsögðu ljúffengar veitingar í boði alla helgina - og þá auðvitað af þjóðlegri sortinni eins og vera ber á þessum vinsæla menningarstað.