Gæði Tilþrif Arons Elísar Þrándarsonar og óvænt gengi Víkinga eru dæmi um skemmtanagildi boltans í sumar.
Gæði Tilþrif Arons Elísar Þrándarsonar og óvænt gengi Víkinga eru dæmi um skemmtanagildi boltans í sumar. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Nú er upprunninn laugardagurinn annar ágúst. Það þýðir að eftir nákvæmlega tvær vikur verður flautað til leiks á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni sem jafnan er mikið fagnaðarefni.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Nú er upprunninn laugardagurinn annar ágúst. Það þýðir að eftir nákvæmlega tvær vikur verður flautað til leiks á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni sem jafnan er mikið fagnaðarefni. Þetta er líka tíminn þegar maður veltir fyrir sér hvert sumarið hafi nú flogið, en það er annað mál.

Ég heyrði á dögunum samræðu milli manna sem töluðu um að íslenski boltinn þyrfti að duga blessaður þangað til sá enski loksins byrjaði – í þessum lífssnauða tón þið vitið, eins og viðkomandi vildi frekar horfa á málningu þorna en að kíkja á völlinn. Ég fussaði með sjálfum mér, hvaða endemis vitleysa þetta eiginlega væri í þeim. En svo staldraði ég aðeins við og velti því fyrir mér hvort þetta gæti í raun og veru verið skoðun margra. Ekki get ég undir það tekið að minnsta kosti.

Sumarið orðið að skammdegi

Mér finnst ansi hart ef við lítum á íslenska fótboltann sem einhverja hækju til að styðja sig við yfir sumarmánuðina, sem þá líkja mætti við svartasta skammdegi knattspyrnuáhugamanna. Áður þurftu menn að þreyja þorrann og góuna eftir að dag tæki að lengja, en líta íslenskir áhugamenn virkilega þannig á að þeir þurfi að „þreyja deildina og þennan fjárans bikar“ áður en sá enski fari að rúlla? Mikið vona ég að við lítum ekki á England sem okkar vor.

Lítum okkur nær

Nú tala ég að sjálfsögðu bara fyrir mig, ég ætla ekki að leggja öðrum orð í munn eða gera lítið úr þeirra skoðunum. En sjálfum finnst mér íslensku deildirnar bæði mjög skemmtilegar og ekki síst áhugaverðar. Ég mundi aldrei halda því fram að það væri ekki stemning ytra líka, auk þess sem enski boltinn hefur verið kærkomin afþreying um helgar þegar maður ætti að vera að læra, en stemningin er öðruvísi hér því það stendur manni allt svo nær. Auðvitað hefur maður sitt lið í Englandi, en taugarnar eru samt sterkari til síns liðs hér heima.

Í efstu deildum karla og kvenna er spenna bæði í efri og neðri hlutanum. Við sáum það í fyrra að fyrsta deildin er óútreiknanleg og er það einnig í sumar, ekki treysti ég mér allavega að spá hvernig fer þar.

Á öllum sviðum og í allt sumar höfum við séð dramatík, falleg tilþrif, umdeild atvik, skrautleg ummæli og svo mætti lengi telja. Við þurfum ekki alltaf að sækja vatnið yfir lækinn.

Sýnum meiri virðingu

Ég vona þó að taugar íslenskra knattspyrnuáhugamanna haldi áfram að tengjast enska boltanum eins og þær hafa gert síðustu áratugi. Þannig verður það allavega hjá mér. Það eina sem ég bið um er að við látum það ekki koma niður á okkar fólki hér heima, leikmönnum, þjálfurum og sjálfboðaliðum sem gera það að verkum að boltinn fær að rúlla hér á landi.

Við erum með frábærar deildir, bæði karla og kvenna, sem helst í hendur við hvað hefur verið mikil stígandi í landsliðunum okkar. Við fögnum því öll sem eitt.

Og til að svara spurningunni sem ég skellti fram í fyrirsögninni; nei, við erum ekki bara að þreyja þorrann. Sýnum meiri virðingu en svo.