Skytta góð Helgi Már Magnússon hitti úr 67% skota sinna á Selfossi.
Skytta góð Helgi Már Magnússon hitti úr 67% skota sinna á Selfossi. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
10. umferð Kristján Jónsson kris@mbl.is Landsliðsmaðurinn reyndi, Helgi Már Magnússon, kom KR til bjargar ef svo má segja þegar Íslandsmeistararnir voru í erfiðri stöðu á Selfossi í 10. umferð.
10. umferð

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Landsliðsmaðurinn reyndi, Helgi Már Magnússon, kom KR til bjargar ef svo má segja þegar Íslandsmeistararnir voru í erfiðri stöðu á Selfossi í 10. umferð. KR var undir lengi vel gegn FSu en Helgi átti stóran þátt í því þegar KR sneri taflinu sér í vil í síðari hálfleik. Helgi skoraði 27 stig, tók 9 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og náði boltanum einu sinni. Helgi nýtti skotin sín vel en hann hitti úr tíu af fimmtán í leiknum. Er hann leikmaður umferðinnar hjá Morgunblaðinu.

„Helgi kom okkur í gang þegar hann setti sjö stig í röð á kafla þar sem útlitið var sem svartast fyrir okkur. Hann kom okkur eiginlega af stað. Þegar Helgi var kominn í þennan gír þá leituðum við að honum í meiri mæli. Hann nýtti tækifærin vel,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, þegar Morgunblaðið spurði hann út í Helga.

„Gríðarlegur keppnismaður“

Helgi hefur lítið getað beitt sér í haust vegna meiðsla og af þeim sökum kom þessi frammistaða hans ef til vill einhverjum á óvart. „Hann var nánast frá körfuboltaiðkun í þrjá mánuði. Í þetta skiptið fór hann meira á skapinu og ákveðni heldur en endilega líkamlegu ástandi. Helgi er auðvitað baráttumaður og gríðarlegur keppnismaður. Hann kom sem hálfgerð kjarnorkusprengja af bekknum í leik þar sem við höfðum verið flatir og nánast á hælunum. Hann dreif okkur áfram eins og hann gerir oft. Helgi skorar ekki alltaf svona mikið en gefur liðinu margt á mörgum vígstöðvum. Við erum allt öðruvísi lið með hann innanborðs,“ bætti Finnur Freyr við.

Er ári eldri en þjálfarinn

Helgi er 33 ára og kemur úr frægum árgangi íslenskra körfuboltamanna sem fæddust 1982. Sjálfur er Finnur þjálfari ári yngri en Helgi en segir það ekki skapa nein vandamál.

„Við erum orðnir það gamlir að ekki munar um nokkra mánuði. Helgi er fagmaður fram í fingurgóma og það hefur aldrei verið neitt vesen að þjálfa hann. Sem leikmaður býr hann yfir gríðarlegri reynslu og ég hika ekki við að leita til hans. Ef hann getur komið með gagnlega punkta varðandi leik liðsins þá getur hann alltaf komið þeim að. Frá unga aldri hefur hann verið klár leikmaður sem skilur leikinn vel auk þess að vera frábær skotmaður. Hann er alger fyrirmyndarliðsfélagi en það sjáum við sem erum í þessu betur en þeir sem standa fyrir utan. Helgi gerir alla í kringum sig betri og hressari en tekst að finna réttu blönduna af léttleika og alvöru. Hefur því góð áhrif á hópinn á marga vegu, hvort sem um er að ræða KR eða landsliðið,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara síðustu tveggja ára, um sinn reyndasta leikmann.