— Morgunblaðið/Birkir Fanndal
Birkir Fanndal Mývatnssveit Fjórir kirkjukórar héldu aðventutónleika í Reykjahlíðarkirkju á köldu kvöldi síðastliðinn sunnudag. Með tilkomu sameiginlegs söngstjóra, Jörgs E.
Birkir Fanndal

Mývatnssveit

Fjórir kirkjukórar héldu aðventutónleika í Reykjahlíðarkirkju á köldu kvöldi síðastliðinn sunnudag.

Með tilkomu sameiginlegs söngstjóra, Jörgs E. Sondermanns, hefur tekist ánægjulegt samstarf kirkjukóra við kirkjurnar á Snartarstöðum, Reykjahlíð, Skútustöðum og Húsavík.

Árangur þessa samstarfs hefur skilað sér meðal annars með sameiginlegum aðventutónleikum í fyrrnefndum sóknum og voru hinir síðustu í tónleikaröðinni í Reykjahlíð.

Þar komu kórarnir fram fyrst hver í sínu lagi en síðast allir saman og lauk með því að allir kirkjugestir sungu með kórunum Heims um ból.

Á milli tónlistaratriða komu fram Hólmgeir Böðvarsson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Örnólfur J. Ólafsson sóknarprestur.

Hvert sæti var skipað og meira en það í Reykjahlíðarkirkju á þessu kyrra og kalda vetrarkvöldi og kórunum afar vel tekið.

Þessi samkór hefur innan sinna vébanda 60 til 70 söngvara sem gefa sér tíma til að æfa saman aðventudagskrá með öðrum jólaundirbúningi.