Lil Wayne gaf dóttur sinni forláta hvítan Ferrari 599 GTO í 16 ára afmælisgjöf. Ekki amalegt fyrir táning.
Lil Wayne gaf dóttur sinni forláta hvítan Ferrari 599 GTO í 16 ára afmælisgjöf. Ekki amalegt fyrir táning. — Ljósmynd / Flickr – Axion 23 (CC)
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Varla hefur farið framhjá lesendum Bílablaðs Morgunblaðsins undanfarnar vikur hvað bílasöfnum rapphetjanna hafa verið gerð góð skil.
Varla hefur farið framhjá lesendum Bílablaðs Morgunblaðsins undanfarnar vikur hvað bílasöfnum rapphetjanna hafa verið gerð góð skil. Svo virðist að ef fólk hefur það fyrir markmið í lífinu að eignast sem mest af dýrum og flottum bílum sé rappið ein öruggasta leiðin.

Áður en rappararnir verða settir á hilluna, í bili, verður að taka hús á hinum smáa en knáa Lil Wayne. Hann má nefnilega eiga það, sama hvað fólki finnst um tónlistina hans, að vera mikill smekkmaður á bíla.

„Barack Obama Bugatti-bílanna“

Djásnið í bílskúrnum er án vafa kolbikasvartur Bugatti Veyron. Lil Wayne þykir greinilega afskaplega vænt um bílinn, eins og vera ber, en í myndskeiði á YouTube talar hann um það – nánast klökkur – hvað honum er bíllinn kær, og hvað það var honum mikils virði að geta látið það eftir sér að eignast svona dýran bíl. Var hann að eigin sögn fyrsti svarti maðurinn í Bandaríkjunum, eða a.m.k. fyrsti rapparinn, til að eignast Veyron. „Þau hjá umboðinu kölluðu mig Barack Obama Bugatti-bílanna,“ segir rapparinn um kaupin.

Ekki mikið síðri en Veyroninn er Mercedes-Benz SLS AMG, með fallegu vænghurðunum, stórglæsilegur Rolls-Royce Phantom með blæjuþaki og Maybach 62. Allir eru bílarnir svartir og er það vel að Lil Wayne stundar það ekki eins og sumar rappstjörnur að velja á bílana sína æpandi skæra liti sem gera lítið annað en draga athyglina frá fallegum útlínunum.

Kanadískt leikfang

Eitt litríkt ökutæki er þó í bílskúrnum, rautt lítið leikfang sem Lil Wayne fékk í þrítugsafmælisgjöf frá Nicki Minaj. T-Rex frá Campagna Motors flokkast strangt til tekið sem mótorhjól, en er með tvö sæti hlið við hlið, stýri, og tvö hjól að framan. Campagna er kanadískt fyrirtæki steinsnar frá Montreal sem hefur framleitt þessi lipru og öflugu ökutæki frá 1989 en bak við ökumann og farþega situr öflug vél, ýmist frá BMW, Kawasaki eða Harley-Davidson, og verðmiðinn í kringum 70.000 dalir, eða rétt um níu milljónir króna.

Einnig er gott að sjá að rappstjarnan, rétt nýorðinn 33 ára, hefur tekið út töluverðan þroska í vali sínu á bílum. Er nefnilega ekki langt síðan hann montaði sig í sjónvarpsþætti á MTV af hreint skelfilegri fjólublárri Chrysler Cruiser-límósínu. Ekki nóg með það heldur sýndi hann líka stoltur gyllta Lexus-limósínu og heiðbláa Ford Excursion-limósínu, lengri en flestir strætisvagnar.

Tveir bílar fyrir táninginn

Greinilegt er að Lil Wayne ætlar að láta bíladelluna ganga í ættir og raunar þótti sumum nóg um þegar dóttir söngvarans, Reginae, hélt upp á 16 ára afmælið sitt og fékk ekki einn heldur tvo bíla í afmælisgjöf. Og það voru ekki heldur neinar Corollur. Sú litla fékk bæði BMW-jeppa og Ferrari 599 GTO-sportbíl. Að sjálfsögðu fylgdist MTV með öllu saman og var samferða snótinni þegar hún skoðaði bíla með foreldrum sínum. Leist henni ekki alveg nógu vel á BMW-inn og vildi miklu frekar eignast Ferraríinn. Sagði hún, frekar hastarlega: „Þessi bíll gefur mér ekki mikið líf. Hann gefur mér bara oh.“ Voru það orð að sönnu.

ai@mbl.is