— Morgunblaðið/ÞÖK
15. desember 1944 Hitaveita Ólafsfjarðar var tekin í notkun. Vatnið var 52 stiga heitt og nægði til upphitunar í allt að fimm stiga frosti. Þetta var fyrsta hitaveitan sem náði til heils bæjarfélags. 15.

15. desember 1944

Hitaveita Ólafsfjarðar var tekin í notkun. Vatnið var 52 stiga heitt og nægði til upphitunar í allt að fimm stiga frosti. Þetta var fyrsta hitaveitan sem náði til heils bæjarfélags.

15. desember 1978

Kór Langholtskirkju hélt fyrstu jólatónleika sína, undir stjórn Jóns Stefánssonar. Síðan hafa þeir verið árlega.

15. desember 1979

Davíð Scheving Thorsteinsson iðnrekandi keypti kassa af bjór í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli en var meinað að hafa hann með sér, eins og áhafnir flugvéla máttu. Málið vakti mikla athygli og leiddi til rýmkunar á reglum.

15. desember 2005

Landmælingar Íslands tilkynntu að samkvæmt nýjum útreikningum væri miðpunktur Íslands við Illviðrahnjúka, rétt norðan við Hofsjökul. Rúmum tveimur árum síðar var vígð varða á staðnum.

15. desember 2006

Verk eftir Matisse og Renoir voru meðal 52 verka á sýningu sem opnuð var í Listasafni Íslands. Verkin voru tryggð fyrir tvo milljarða króna.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson