Gísli Bjarnason fæddist 16. nóvember 1956.

Hann lést 29. nóvember 2015.

Útför Gísla fór fram 11. desember 2015.

Elskulegur mágur minn, Gísli Bjarnason, hefur kvatt þennan heim, allt of ungur, allt of snemma. Við kveðjustund streyma minningarnar fram, myndir og leiftur frá liðnum árum. Gísli var einstakur maður, hann var einn af þessum sjaldgæfu þúsundþjalasmiðum nútímans, bæði handlaginn og þolinmóður, hann gat lífgað við ólíklegustu hluti og tæki. Gísli var barn náttúrunnar, áhugasamur um gróður og ræktun og hafði gaman af að ferðast um byggðir og óbyggðir landsins. Hann var þó fyrst og fremst góðmenni en líka húmoristi, fagurkeri og grúskari. Gæska hans og ástúð í garð Þóru systur var einlæg og einstök. Gísli var óhræddur við að fara sínar eigin leiðir, áhugamálin bera vitni um það. Kartöflurækt var í hans höndum ekki aðeins sjálfsbjörg og matvælaöflun, kartaflan sjálf var áhugaverð sem fyrirbæri, saga hennar og þróun. Gísli hafði það sérstaka áhugamál að safna kartöflutegundum og voru tegundirnar sem hann hafði prófað að rækta orðnar um sextíu talsins. Ekki var það verra að þetta áhugaverða áhugamál Gísla gladdi og saddi okkur öll. Á hverju ári fengu ættingjar og vinir poka frá Gísla með úrvali ársins, pottfylli af hverri sort og var hver tegund aðgreind og merkt heiti. Haustglaðningur Gísla endurspeglar manninn, alúð hans, þolinmæði, natni, og svo ánægjuna af því að geta glatt aðra. Aukapakkar jólasveinsins vöktu einnig kátínu og hlátrasköll, hugmyndaauðgi og frumleiki Gísla og Þóru var með ólíkindum, gjafmildi, húmor og glettni er góð blanda.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég mág minn og þakka fyrir samveruna undanfarin ár, minningin um góðan dreng mun lifa með fjölskyldunni um ókomin ár.

Gerður.