Brottför Fokkerinn JF JMM fyrir utanförina frá Reykjavík í gær.
Brottför Fokkerinn JF JMM fyrir utanförina frá Reykjavík í gær.
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í gær var Fokker-flugvélinni TF JMM flogið sína síðustu ferð frá Íslandi og til nýrra eigenda í Afríkuríkinu Kongó.
Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í gær var Fokker-flugvélinni TF JMM flogið sína síðustu ferð frá Íslandi og til nýrra eigenda í Afríkuríkinu Kongó. Þetta er hluti af endurnýjun á flota Flugfélags Íslands sem hefur til skamms tíma gert út sex Fokker-vélar, en nú eru aðeins fjórar eftir. Fyrsta Bombardier Q400-flugvél FÍ verður tekin í notkun í febrúar næstkomandi og aðrar tvær komnar fyrir sumarið og þá fer síðasti Fokkerinn úr þjónustu félagsins.

„Þrátt fyrir að Fokker-vélarnar séu orðnar meira en tuttugu ára gamlar er samt ágætur markaður fyrir þær. Við fengum mjög ásættanlegt verð. Það er gjarnan sagt að endingartími Fokker-véla sé 90 þúsund flugtök og lendingar. Okkar vélar eru með um það bil helminginn af því og þær eiga því talsvert eftir enn eins og sést á viðbrögðum kaupenda,“ sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri FÍ, samtali við Morgunblaðið. Það var fyrirtækið Compagnie Africaine d'Aviation sem keypti Fokkerinn sem verður notaður til innanlandsflugs í Kongó. Flugmenn FÍ ferja vélina til Ítalíu þar sem Kongómennirnir taka við gripnum og fljúga áfram suður á bóginn.

Fyrsta Bombardier Q400-vélin sem FÍ fær er væntanleg til landsins um miðjan febrúar og hinar tvær koma ekki löngu síðar. Allt hefur þetta kallað á mikið undirbúningsstarf og þjálfun flugmanna félagsins sem að undanförnu hafa verið við æfingar í flughermum í Kanada, Noregi og víðar. Munu flugmennirnir með þessu öðlast réttindi á bæði Q400 og Bombardier Q200 en fyrir á félagið tvær slíkar. Tilkomu Q400-vélanna fylgja ýmsar breytingar í starfsemi FÍ. Þar má nefna reglulegar ferðir í samstarfi við Icelandair til Aberdeen í Skotlandi og flug til Syðri-Straumfjarðar, Kangerlussuaq á vesturströnd Grænlands, hefst á vordögum.