Guðmundur Þorvar Jónasson fæddist í Keflavík 8. maí 1947. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 6. desember 2015.

Foreldrar hans voru: Sesselja Jónsdóttir saumakona, f. 15.3. 1918, og Jónas Þorvaldsson, skipstjóri og smiður, f. 24.3. 1911, d. 14.10. 1976.

Guðmundur Þorvar ólst upp í Keflavík til 10 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Birkihvamm 17, Kópavogi. Systkini hans eru: 1) Hörður, húsasmiður og kennari, f. 23.3. 1942, d. 1.12. 1998, kona hans: Sigrún Eliseusdóttir, læknaritari , f. 11.6. 1943. Þau eiga tvo syni og sex barnabörn. 2) Guðfinna Sesselja Solvaag, f. 24.10. 1943. Hennar maður Halvdan Solvaag, f. 23.4. 1940. Þau búa í Barmen í Noregi. Þau eiga fimm dætur og 13 barnabörn. 3) Jón Hersteinn, húsasmiður, f. 25.5. 1949. Kona hans: Anna Kristjánsdóttir, líftæknifræðingur, f. 19.8. 1950. Þau eiga þrjár dætur og sex barnabörn. 4) Þorvaldur Rúnar, húsasmiður, f. 2.5. 1951. Kona hans: Ragnhildur Anna Karlsdóttir. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn.

Guðmundur Þorvar kvæntist 3.2. 1968 Sigrúnu Sigvaldadóttur, f. 15.9. 1947, og bjuggu þau í Kópavogi til ársins 2002, lengst af að Hlíðarvegi 4. Þeirra börn: 1) Margrét Rún, f. 19.2. 1970. Sonur hennar er Þorvar Bjarmi Harðarson, f. 20.6. 1997, nemi. Faðir hans er Hörður M. Harðarson. 2) Anton Þorvar, framkv.stjóri, f. 27.4. 1971. Kona hans: Ester Sigurbergsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Þeirra börn: Eyþór f. 11.12. 2004 og Sara Rún, f. 20.1. 2006. Sonur Esterar og stjúpsonur Antons er Bjarki Oddsteinsson, f. 30.5. 1993

Guðmundur Þorvar fór að vinna 16 ára gamall í Sunnubúðinni í Mávahlíð. Þar kviknaði áhugi á því sem átti eftir að vera starfsvettvangur hans næstu áratugina. 19 ára stofnaði hann verslunina Esju á Kjalarnesi ásamt æskuvini sínum, Magnúsi Leopoldssyni. 1972 hóf hann störf hjá Gunnari Þorsteinssyni í versluninni Kópavogur. Síðar keypti hann reksturinn og flutti hann í Hamraborg í Kópavogi og rak hana þar til 1987. Þá rak hann Litla hornið að Freyjugötu 15.

Eftir að Guðmundur Þorvar hætti verslunarrekstri snéri hann sér að matreiðslustörfum, en hann hafði lokið sjókokkanámi áður. Starfaði hann víða við matreiðslustörf, m.a. á skipum Eimskipafélagsins, Sjúkrastöðinni Vogi, Nóatúnsverslun og í skólamötuneytum í Reykjavík. Hann rak matstofu í Súðarvogi 50, Vogakaffi, í nokkur ár.

Guðmundur Þorvar var mikill félagsmálamaður. Gekk í Rótarýklúbb Kópavogs 1977 og árið 2009 var hann einn af stofnfélögum nýs Rótarýklúbbs í Kópavogi, Rótarýklúbbsins Þinghóls, og var hann fyrsti forseti hans. 1981 gekk hann til liðs við Frímúrararegluna og starfaði þar sem bókavörður um árabil. Hann hafði mikinn áhuga á andlegum málefnum og starfaði hann m.a. innan Sálarrannsóknarfélags Íslands.

Útför Guðmundar Þorvars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 15. desember 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Hugurinn hefur verið mikið á reiki síðustu daga, bæði í sorg en ekki síst með þakklæti fyrir allt það góða sem þú gafst okkur en það er ómetanlegt.

Fyrstu minningar mínar um Gumma frænda eru úr búðinni í Hamraborg. Smápjakkur á fjórða ári í pössun hjá Gumma, en það vafðist ekki fyrir honum. Ég man hvað það var rosalega spennandi að fara í sendiferðir á míníbílnum hans. Ég var svo stoltur, því Gumma tókst að gera bílferðirnar fullar af spennu. Það má því segja að þar hafi Gummi arfleitt mig að bíladellunni. Minningarnar af tröllvöxnum Víbon í innkeyrslunni heima á Kársnesbrautinni eru ógleymanlegar. Ég var svo spenntur að sjá að Gummi frændi væri kominn í heimsókn, því ég fékk svo oft að fara í bíltúr með honum, þótt það væri ekki nema smáhringur heillaði það mig.

Gummi frændi hafði einstakan persónuleika og ómældan dugnað. Að eitthvað væri óframkvæmanlegt var ekki til hjá honum. Hvort sem hlutirnir voru gerlegir eða ekki tókst Gumma að framkvæma þá. Það var alltaf allt á fullu í kringum hann hvort sem það var heima við eða uppi í sumó, hann var alltaf að. Ég held að það sé ekki hægt að telja hversu oft Gummi byggði við bústaðinn eða breytti.

Það var alltaf stutt í húmorinn hjá Gumma. Þegar ég var lítill spurði ég: „Af hverju lærðir þú ekki smíði eins og afi og bræður þínir?“ Gummi hikaði ekki og svaraði: „Sjáðu til, munurinn á mér og þeim er að ég kunni alltaf að smíða en þeir þurftu að fara í skóla til að læra það!“

Nú í seinni tíð hef ég verið svo heppinn að vera í félagsstarfi með Gumma og fengið að njóta leiðsagnar hans og þekkingar. Þar sýndi hann hversu einstakur maður hann var.

Við fjölskyldan munum alltaf muna Gumma fyrir þá hjálpsemi og væntumþykju sem hann sýndi okkur.

Elsku Sía, Magga Rún, Anton og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Við kveðjum þig, elsku Gummi, með djúpri virðingu, þakklæti og söknuði.

Jónas Karl, Ásta og börn.

Elsku Gummi frændi, þegar litið er yfir horfinn veg þá lifir í minningunni hlýlegur góður maður sem tók alltaf skemmtilega á móti okkur með háum róm og kröftugu knúsi. Þú spjallaðir um daginn og veginn, gafst okkur svo mikla gleði og varst með sanni góð fyrirmynd. Alltaf er minnisstætt húsið á Hlíðarveginum sem var eins konar töfraheimur, mörg herbergi sem höfðu alltaf eitthvað nýtt að geyma. Sumarbústaðurinn var ekki síðri, landið fullt af ævintýrum þar sem við gleymdum okkur allan daginn. Í hvert skipti sem við komum var alltaf eitthvað nýtt búið að bætast við; nýr veggur hér og veggur þar, viðbygging, pallar og brýr. Enda varst þú stórsmiður og sagðir alltaf að þú værir eini bróðirinn sem hefði ekkert þurft að læra þetta, þetta væri nú bara meðfætt, og hlóst hátt. Takk fyrir allar góðar minningar, þá endalausu gleði og þann góða anda sem þér fylgdi. Þú verður alltaf hluti af lífi okkar.

Þín bræðrabörn,

Elvar Steinn, Jónas Karl

og Unnur María.

Góður vinur, Guðmundur Þorvar Jónasson, hefur kvatt þetta jarðlíf eftir erfið veikindi.

Það var fyrir 35 árum að við hittumst fyrir tilviljun og tókum tal saman, sem leiddi til þess að ég fékk vinnu í verslun hans. Um haustið hóf ég íhlaupavinnu sem stóð í 10 ár. Öfugt við farfuglana kom ég á haustin og fór á vorin. Að vinna hjá Gumma var skemmtun út af fyrir sig. Gott samstarfsfólk, mikil glaðværð ríkjandi og einkar góður andi á þeim vinnustað. Það er mikil gæfa að hafa eins góða húsbændur og þau hjón voru. Gummi var einlægur vinur vina sinna, greiðvikinn og forkur duglegur, meðan heilsan leyfði.

Kynnin voru orðin löng og aldrei bar skugga á okkar samskipti, sem ekki voru lítil. Viðskiptin gengu á ýmsan máta, aldrei gert upp og aldrei rætt um hvor ætti inni hjá hinum.

Sigrún, kona Guðmundar, er einstök sómakona og mat hann hana mikils og hefur vinskapur okkar haldist óbreyttur frá fyrstu kynnum.

Áhugi Guðmundar á landgræðslu og hvers kyns jarðarbótum var mikill og ber sumarbústaður þeirra hjóna í Hraunborgum þess glögg merki, hulinn gróðri. Skemmtilegt var að ferðast með þeim hjónum. Í mörg ár fórum við á hverju hausti í ferð til annarra landa, eins konar uppskeruhátíðir. Sérstaklega eftirminnileg er skíðaferð til Austurríkis.

Margar góðar stundir áttum við Greipur með þeim hjónum í Haukadal og þegar hann lést mjög snögglega var mikill styrkur að eiga svo gott fólk að, eins og þau hjón.

Áhugamál Gumma voru mörg og margvísleg. Hann var félagi í Rótarý, Frímúrarareglunni og í Sálarrannsóknarfélagi Íslands, en hann var einlægur trúmaður og kynnti sér þau málefni vel.

Sumarbústaðurinn austur í Grímsnesi var honum einkar hjartfólginn og undi hann sér vel þar. Hann naut þess að sjá gróðurinn dafna og aldrei féll honum verk úr hendi, þar var smíðað alla daga og nostrað við hverja spýtu og þá var sko ekki verið í sparifötunum.

Gummi og Sigrún áttu fallegt heimili. Hann var mikill bókasafnari og átti mikið og gott safn. Reyndar var nú ýmsu öðru safnað enda vandfundinn nýtnari maður, þó sérstaklega á spýtur. Dýravinur var Gummi, átti bæði hund og kött, sem voru einlægir vinir hans.

Í seinni tíð hafa samverustundirnar verið færri, það er bara eins og það gerist, en vinskapurinn hélst jafnt og fyrr. Oft renndum við Werner við hjá þeim í Hraunborgum, á leið í sumarbústað okkar í Úthlíð.

Gummi var einstakur karakter, engum öðrum líkur og skeytti lítt um hvað öðrum fannst. Nú söknum við vinar í stað.

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða.

Og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

(Hannes Pétursson.)

Við Werner sendum Sigrúnu, systkinunum Möggu Rún og Antoni og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Sigurðardóttir.

Mín fyrstu kynni af Guðmundi vini mínum, voru á sjötta árartug síðustu aldar, er hann hóf skólagöngu í Kópavogsskóla. Við vorum síðan í sama bekk í Gagnfræðaskóla Kópavogs, fram á sjöunda áratuginn. Samskipti okkar á þessum tíma voru nánast eingöngu í kringum námið og félagsmálin í skólanum. Leiðir okkar skildu á árunum eftir gagnfræðaskólann. Leiðir okkar lágu síðar saman í JC-hreyfingunni, er við gengu báðir til liðs við JC Kópavog. Þar naut Guðmundur sín vel og kom fljótlega í ljós færni hans í félagsmálum. Hann var meðal annars forseti JC Kópavogs. Hann var einnig í Rótarýklúbbi Kópavogs og komst þar til æðstu metorða, hann var forseti klúbbsins við góðan orðstír. Hann bauð undirrituðum á fund hjá Rótarýklúbbi Kópavogs snemma árs 2000 sem leiddi til inngöngu í klúbbinn og er ég honum ævinleg þakklátur fyrir það. Guðmundur hafði mikinn áhuga á andlegum málum og sérstaklega sálarrannsóknum, hann var sjálfur mjög næmur og gæddur miklum heilunarhæfileikum, sem kannski ekki allir vissu. Sálarrannsóknarfélag Íslands á Guðmundi mikið að þakka, hann sá um að setja upp milliveggi í húsnæði félagsins að Hamraborg 1, sem félagið hafði fest kaup á 2012, þetta gerði hann allt í sjálfboðavinnu. Einu kröfurnar sem hann gerði var að fá sæmilegan handlangara og eitthvað borða í hádeginu. Hann var flinkur smiður. Það var eitt sem Guðmundur hafði umfram marga aðra, það var afbragðsgott minni, það var unun að hlusta á hann lýsa löngu liðnum atburðum, sem hann kryddaði með smáatriðum. Við skipulögðum endurfundi nemenda í 12 ára bekkjum Kópavogsskóla, í okkar árgangi, árið 2000. Í þeirri vinnu kom þessi hæfileiki Guðmundar að miklu gagni og ekki var þörf á að notast við Google, Íslendingabók og þjóðskrá nema í örfáum tilfellum. Ég vil þakka Guðmundi fyrir allar góðu stundirnar í gegnum árin. Guðmundur var fyrst og fremst góður maður. Blessuð sé minning hans.

Magnús Már Harðarson.

Í dag kveðjum við vin okkar og félaga, Guðmund Þorvar Jónasson. Hann var einn stofnfélaga og fyrsti forseti Rótarýklúbbsins Þinghóls í Kópavogi. Fáir menn áttu jafn auðvelt með að segja góða sögu og gleðja klúbbfélaga. Þau hjónin, Þorvar og Sigrún, héldu okkur félögum veglegt þorrablót á hverju ári á glæsilegu heimili þeirra í Samtúni. Þar voru ávallt höfðinglegar móttökur og gnægtaborð matar.

Margir okkar hafa þekkt Guðmund lengi og er sárt að kveðja slíkan höfðingja. Hann var okkar fyrsti heiðursfélagi og verðskuldaði það fyllilega. Hann virti einkunnarorð Rótarý: „Er það satt og rétt, er það drengilegt, eykur það velvild og vinarhug, er það öllum til góðs.“ Þessi orð lýsa manninum vel. Hann var sannarlega drengur góður, sem jók velvild og vinarhug. Hann vildi öllum vel og heiðraði það sem var satt og rétt. Hans verður sárt saknað.

Með saknaðarkveðju.

Fyrir hönd félaga Rótarýklúbbsins Þinghóls í Kópavogi,

Sigurður Grétar Jökulsson.