Samgöngustofa hefur afhent Isavia formlega tilnefningu um einkaleyfi til flugumferðarþjónustu í íslenska loftrýminu, auk efra loftrýmis Grænlands sem íslenska ríkið hefur gert um samning við það danska. Um er að ræða eitt stærsta loftrými í heimi.
Samgöngustofa hefur afhent Isavia formlega tilnefningu um einkaleyfi til flugumferðarþjónustu í íslenska loftrýminu, auk efra loftrýmis Grænlands sem íslenska ríkið hefur gert um samning við það danska. Um er að ræða eitt stærsta loftrými í heimi. „Með þessu er formfest þjónusta Isavia og uppfylltar skuldbindingar íslenska ríkisins á þessum vettvangi, en um þær gilda strangar alþjóðlegar reglur og kvaðir,“ segir í frétt frá Samgöngustofu.

Hjá Samgöngustofu sinna sérfræðingar um flugleiðsögu daglegu eftirliti með starfsemi Isavia. Samvinna Samgöngustofu, Isavia og íslenska ríkisins í þessum málaflokki er í þágu flugöryggis á íslenska flugumferðarþjónustusvæðinu og þar með um 30 milljóna flugfarþega sem ferðast í þeim rúmlega 130.000 flugvélum sem fara þar um á hverju ári, segir í fréttinni.

Fjölmörg störf tengjast verkefni flugleiðsöguþjónustu eða um 300 á Íslandi. Störfin eru fjölbreytt en nefna má flugumferðarstjóra, flugfjarskiptafólk, fluggagnafræðinga, flugradíómenn, veðurfræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga og ýmsa tæknimenn, auk stoðþjónustu í fjármálum og rekstri.

Tilnefningin sem Samgöngustofa afhenti Isavia sl. föstudag er liður í því að uppfylla alþjóðlega samninga um samevrópska loftrýmið. Bætist hún við þjónustusamning sem er í gildi milli innanríkisráðuneytisins og Isavia sem nær m.a. til verkefna á sviði flugleiðsöguþjónustu, bæði á alþjóðlegu flugsvæði og í innanlandsloftrými.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var við þetta tækifæri. Þar eru forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason, og forstjóri Isavia, Björn Óli Hauksson, ásamt starfsfólki Samgöngustofu, Isavia og innanríkisráðuneytisins, f.v.: Páll S. Pálsson, Hlín Hólm, Þröstur Jónsson, Reynir Sigurðsson, Helgi Björnsson, Kristín Helga Markúsdóttir, Friðfinnur Skaftason, Halla Sigrún Sigurðardóttir, Þórhildur Elínardóttir og Helga R. Eyjólfsdóttir.