Flosi Ingólfsson fæddist á Flugustöðum í Álftafirði 29. maí 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði 17. janúar 2016. Flosi var sonur hjónanna Ingólfs Árnasonar, f. 11. október 1896, d. 2. mars 1972, og Stefaníu Stefánsdóttur, f. 29. ágúst 1907, d. 2. mars 1992. Flosi var næstyngstur í hópi sjö systkina. Þau eru: Aðalbjörg, f. 1930, d. 1996, Anna, f. 1932, Svava f. 1933, d. 1989, Árni, f. 1935, Sigurður, f. 1938, d. 2002, og Eysteinn, f. 1945.
Flosi kynntist Kristínu Friðriksdóttur frá Fáskrúðsfirði árið 1993, en þau hófu formlega sambúð tveim árum síðar. Hún er fædd 18. maí 1955. Foreldrar hennar voru Friðrik Jóhannesson Michelsen, f. 15. maí 1927, d. 2. maí 1981, og Stefanía Ingólfsdóttir, f. 2. desember 1930, d. 21. júní 2015. Frá árinu 1995 bjuggu Flosi og Kristín saman á Fugustöðum, en sökum veikinda hans fluttu þau á Djúpavog haustið 2015. Þau voru barnlaus.
Aðalstarf Flosa var frá unga aldri tengt búskapnum á Flugustöðum. Tveir yngstu bræðurnir, Flosi og Eysteinn, bjuggu með foreldrum sínum og tóku við búsforráðum þegar fram liðu stundir. Eftir að faðir þeirra lést var móðir þeirra hjá þeim meðan hún hafði heilsu til.
Þeir bræður unnu saman við búið til þess tíma að breytingar urðu á högum beggja, er Eysteinn seldi Flosa sinn hlut og settist að hjá konu sinni á Höfn í Hornafirði. Eftir það rak Flosi búið einn, ásamt Kristínu, sambýliskonu sinni.
Flosi vann um tíma hjá Vegagerðinni. Hann var mikill félagsmálamaður og valdist gjarnan í stjórnir félaga í byggðarlaginu, má þar nefna Ungmennafélagið Stíganda, Kaupfélag Berufjarðar og Búnaðarfélag Álftafjarðar. Hann tók virkan þátt í starfsemi Lionsklúbbs Djúpavogs. Honum var ætíð hlýtt til kirkjunnar sinnar að Hofi, söng þar í kirkjukórnum og sinnti um áratuga skeið meðhjálparastarfi þar. Flosi lét einnig til sín taka í sveitarstjórnarmálum. Auk þess var hann hreppstjóri um nokkurt skeið og sá síðasti til að gegna því embætti í Geithellnahreppi.
Útför Flosa var gerð frá Djúpavogskirkju 30. janúar 2016. Hann var jarðsunginn í Hofskirkjugarði í Álftafirði.

Það er fagurt um að litast af bæjarhlaðinu á Flugustöðum. Skammt þar frá lá alfaraleið á öldum áður og liggur enn, sbr. hið lýsandi örnefni Komfarahraun. Inn til landsins teygja anga sína Flugustaðadalur og Hofsdalur. Nokkurn veginn beint á móti standa Rannveigarstaðir, en þessir tveir bæir bera nöfn systranna Flugu og Rannveigar, sem voru skessur miklar þar um sveitir. Út til hafsins og innan fjarðar má sjá sker og eyjar speglast á sléttum fleti í góðu veðri. Utar myndar víðáttumikið sandrif svonefndar Starmýrarfjörur, sem enda í Hrómundarey. Þungur niður hafsins dunar í eyrum, þegar svo ber undir og slær ævintýrablæ á umhverfið. Kvöldsólin, þá hæst ber á lofti, skapar óvíða fegurra sjónarspil, en á Flugustöðum og bæjum þar í kring. Gnótt er af landi til ræktunar og fjöll og firnindi kalla á veiðimanninn, blundi hann í brjóstinu og finni löngun til óbyggðaferða að njóta þess, er þær hafa upp á að bjóða.

Flosi var sannur bóndi og naut þess að sinna bústörfum. Hann bar virðingu fyrir skepnum sínum og sinnti þeim vel. Hann naut sín hvergi betur en inn til dala við veiðar og smalamennskur, en gat þó orðið snefsinn, ef skipulag gangna fór úr böndunum. Hann var drjúgur göngumaður, smali góður, ólatur að fara í leitir og lagði metnað í að kollheimta af fjalli.

Hann var alinn upp við samheldni innan sveitar og þá hefð að menn ljáðu hverjir öðrum hjálparhönd, þegar gengið var til stærri verka, svo sem bygginga af ýmsu tagi. Vegna þessa upplags var Flosi einn af þeim, sem þarft er að hafa í hverju samfélagi, hjálpsamur og góður og traustur nágranni, er tók virkan þátt í mörgu.

Hann hafði meðfram bústörfunum komið að annarri vinnu í gegnum tíðina, stundað ýmis störf við sjávarsíðuna og þótti mjög liðtækur við smíðar.

Refaskytta var Flosi með afbrigðum góð. Á heimasíðu Djúpavogshrepps 3. janúar 2007 birtist umfjöllun, undir heitinu Íslandsmet í refaveiðum. Þar var því haldið fram að Flosi hefði sett slíkt met haustið á undan. Þá skaut hann fimm lágfótur, nánast á sömu torfunni í Flugustaðadal. Mat heimasíðunnar var að Íslandsmetið væri fólgið í því að aldrei fyrr hefðu verið skotnir svo margir stálpaðir eða fullorðnir refir á jafn skömmum tíma, því tæplega 20 mínútum eftir að orrahríðin hófst, lágu þeir allir í valnum. Ítarlegri frásögn um afrek Flosa er að finna í framangreindri umfjöllun. Um þetta var talin ástæða til að yrkja:

Rekkar drepa refi þrá,
rangla upp til heiða.
Fyrst mun hætta ferðum á
þá Flosi býst til veiða.



Þau Flosi og Kristín áttu góð ár saman. Leið þeim vel í samvistum við hvort annað, og stunduðu búskapinn af lífi og sál, þótt konan úr sjávarplássinu hefði lengst af sinnt öðrum verkum.

Þau voru með afbrigðum dugleg að sækja samkomur og höfðu bæði gaman af að dansa, spila á spil og vera með í félagslífinu. Er okkur til efs að nokkurt par í byggðarlaginu hafi verið þeim duglegra að fara á mannamót til að njóta samveru við sveitungana og hitta vini eða eignast nýja á dansleikjum, er hentuðu þeirra fótamennt.

Á Flugustöðum þótti honum samt kærast að dvelja og voru þau Kristín góð heim að sækja. Flosi var ætíð glaður í góðra vina hópi, ræðinn, hjálpfús og vinamargur. Kristín stóð þétt við hlið hans allt til hinztu stundar og var hann þakklátur fyrir umhyggju hennar sem og allar góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum, er allir reyndust honum vel, eftir að lokabaráttan hófst.

Árið 2011 greindist Flosi með alvarleg veikindi og setti baráttan við erfiðan sjúkdóm mark sitt á hann síðustu árin.  Hann bar þó harm sinn í hljóði og leitaði bata á meinum sínum fram undir það síðasta. Hann reyndi eins og hægt var að njóta góðu daganna og varð að þeirri ósk, að verja síðustu jarðvistardögum sínum á Höfn, umvafinn innileik sinna nánustu.

Eftirmæli allra, er honum kynntust, eru sama veg: að hann hafi verið öðlingur, vel liðinn, trygglyndur, félagslyndur og barngóður. Auk þess hafi hann verið gegn og góður bóndi, sem lét sér annt um dýrin sín og náttúruunnandi, í bezta skilningi þess orðs.

Um leið og við hjónin þökkum Flosa Ingólfssyni góða samfylgd, blessum við minningu hans og sendum samúðarkveðjur til allra, er eiga um sárt að binda við fráfall hans.





Hlíf og Björn Hafþór.