Áhrifamikill Styttur af Maó í minjagripaverslun í heimabæ hans, Shaoshan. Margir hafa farið þangað til að votta minningu hans virðingu sína.
Áhrifamikill Styttur af Maó í minjagripaverslun í heimabæ hans, Shaoshan. Margir hafa farið þangað til að votta minningu hans virðingu sína. — AFP
„Í miðju miðjunnar í Kína liggur lík sem enginn þorir að fjarlægja.“ Þannig hljómar fyrsta setningin í bók frá árinu 1984 eftir ítalska blaðamanninn Tiziano Terzani um ferðir hans um Kína.

„Í miðju miðjunnar í Kína liggur lík sem enginn þorir að fjarlægja.“ Þannig hljómar fyrsta setningin í bók frá árinu 1984 eftir ítalska blaðamanninn Tiziano Terzani um ferðir hans um Kína. Skírskotað er þar til líks Maós Zedongs sem er enn varðveitt í grafhýsi á torginu við Hlið hins himneska friðar í Peking 40 árum eftir að hann dó.

Á mánudaginn kemur verður þess minnst að 50 ár eru liðin frá því að Maó Zedong hóf menningarbyltinguna til að endurvekja byltingarandann í kínverska kommúnistaflokknum, eyða stéttaskiptingu og ráðast gegn andstæðingum sínum í flokknum. Námsmenn og kennarar mynduðu sveitir rauðra varðliða sem fóru um og boðuðu hugmyndir Maós um „lýðræðislegt alræði alþýðunnar“ meðal verkamanna og bænda. Þessi barátta varð að martröð fyrir þjóðina, glundroða og blóðsúthellingum. Milljónir manna sættu ofsóknum og glundroðinn varð svo mikill að Maó sá sig loks tilneyddan að biðja byltingarmenn að hætta baráttunni. Eftir dauða Maós voru flestir flokksbroddanna sem voru fordæmdir í menningarbyltingunni teknir í sátt, þeirra á meðal Deng Xiaoping, sem varð æðsti leiðtogi kommúnistaríkisins.

Þrátt fyrir hörmungarnar sem Maó olli nýtur hann enn mikillar virðingar í Kína. Á ári hverju fara hundruð þúsunda Kínverja í grafhýsi hans og margir gestanna þurfa að bíða klukkustundum saman í röð fyrir utan til að geta séð líkið í nokkrar sekúndur. bogi@mbl.is