[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir nokkrum árum hljómaði ný orðmynd í tjáningarmáta unglinga. Það var atviksorðið ýkt sem nú virðist að mestu dottið úr tísku. Flest var annaðhvort ýkt leiðinlegt eða ýkt gott. Ýmsir fullyrtu að orðið væri fínt slangurorð úr ensku.

Fyrir nokkrum árum hljómaði ný orðmynd í tjáningarmáta unglinga. Það var atviksorðið ýkt sem nú virðist að mestu dottið úr tísku. Flest var annaðhvort ýkt leiðinlegt eða ýkt gott. Ýmsir fullyrtu að orðið væri fínt slangurorð úr ensku. Þeir urðu svolítið hissa þegar ég sýndi þeim upprunann svartan á hvítu. Ég beygði sterku sögnina að auka í kennimyndum og sýndi þeim orsakarsögnina að ýkja sem af henni var dregin með i-hljóðvarpi af annarri kennimynd. Þetta þótti flestum forvitnilegt, ekki síst þegar þau áttuðu sig á að okkar gamla íslenska mál væri svo lifandi að það ungaði út úr sér nýyrðum sem hljómuðu eins og fínustu slettur.

Nú er ekki víst að margir lesendur muni skilgreininguna á sterkum sögnum og veikum. Hún er í sjálfu sér ósköp einföld. Sterku sagnirnar eru endingarlausar í þátíð, beygjast í fjórum kennimyndum og í þeim eru hljóðbreytingar sem nefnast hljóðskipti. Óreglulegu sagnirnar í ensku og Norðurlandamálum eru angi af sama meiði, eru endingarlausar í þátíð en beygjast aðeins í þremur kennimyndum og hljóðskiptin eru færri. Sem dæmi um sterka sögn í íslensku má taka sögnina að gefa sem beygist: gefa-gaf-gáfum-gefið en flestir munu kannast við frænkur hennar úr ensku og dönsku.

Eitt af því skemmtilega við þessar sterku sagnir er að þær eru eins konar uppsprettulindir fyrir alls konar orð, bæði fallorð, smáorð og nýjar sagnir. Svo að við höldum áfram með sögnina að gefa eru mynduð af henni nafnorðin gáfa, gæfa og gjöf og einnig orðið gifta sem er bæði nafnorð og sögn. Við getum haldið lengra og tekið dæmi um atviksorðið gefins og lýsingarorðið gæfur og ýmis önnur mætti nefna. Á bak við öll þessi orð er sú hugsun að sá sem býr yfir fyrrgreindum eiginleikum hafi þegið þá að gjöf. Ungur vinur minn sagði mér t.d. stoltur að hann hefði mælst með háa gáfnavísitölu og ég benti honum á að hann hefði fengið hana gefins.

Sumar sterkar sagnir hafa þokast í átt að þeim veiku, þ.e. tekið upp þátíðarendingu eins og þær. Sem dæmi má nefna sögnina að þiggja sem er andstæðan við að gefa þótt hún sé síður en svo með neikvæðum formerkjum. Hún beygðist áður þiggja-þá-þágum-þegið en þátíðarmyndirnar eru núna yfirleitt þáði og þáðum þótt síðasta kennimyndin virðist hafa haldið sér. En gamla þátíðarbeygingin hefur eignast ýmiss konar afkvæmi, svo sem þægindi, þægur og þága, sbr. að gera í einhvers þágu og af síðustu kennimyndinni eru dregin hin ágætustu orð eins og þegn og -þegi, t.d. í orðunum launþegi, farþegi og lífeyrisþegi.

Orsakarsögnin að ýkja sem minnst var á í upphafi merkir í rauninni að láta eitthvað aukast. Allmargar aðrar sterkar sagnir gefa af sér slík afkvæmi, svo sem sagnirnar að fljúga, brjóta og hneigja eða gera það sem sterka sögnin kveður á um. s.s. fleygja, breyta og hníga. Þannig myndar sterka sögnin að brenna alnöfnu sína, sem merkir að eitthvað sé látið brenna. Af sögninni að skjóta myndast svo orsakasögnin að skeyta og þaðan eru m.a. komin orðin skeyti, skeytingarleysi og samskeyti. Stundum liggur orsakasamhengið í augum uppi, stundum virðist það nokkuð langsótt en svonefndar orðsifjar þótti mér einatt áhugavert kennsluefni og það glæddi áhuga nemenda á því hversu frjósamt og lifandi málið okkar er.

Guðrún Egilson gudrun@verslo.is