Enn ein á! Veiðimaður hefur sett í bleikju við Hlíðarey í Hlíðarvatni. Veiðin hefur byrjað afar vel í vatninu.
Enn ein á! Veiðimaður hefur sett í bleikju við Hlíðarey í Hlíðarvatni. Veiðin hefur byrjað afar vel í vatninu. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Veiðin hefur verið frábær, þetta er gamla góða Hlíðarvatn,“ sagði kátur veiðimaður í vikunni eftir að hafa kastað flugum sínum í Hlíðarvatn í Selvogi, með afbragðs árangri.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Veiðin hefur verið frábær, þetta er gamla góða Hlíðarvatn,“ sagði kátur veiðimaður í vikunni eftir að hafa kastað flugum sínum í Hlíðarvatn í Selvogi, með afbragðs árangri. Fékk hann allmargar og vel haldnar bleikjur af ýmsum stærðum.

Margir unnendur þessarar veiðiperlu í Selvoginum, þar sem veitt er á tólf dagsstangir frá maíbyrjun til hausts, hafa verið áhyggjufullir yfir þróun mála í vatninu síðustu tvö sumur, þegar taka datt niður snemma í maí eftir kuldakast og gekk veiðimönnum illa að finna fiskana eftir það. Um leið dró úr ásókn og veiðitölur versnuðu; sumarið 2009 veiddust sem dæmi 3.663 bleikjur í Hlíðarvatni en sumarið 2014 ekki nema 763. Í fyrrasumar mun veiðin síðan hafa verið enn minni – söguleg lægð.

Blaðamaður hefur lengi verið unnandi vatnsins og alls ekki sannfærður um að ástandið væri jafn slæmt og þeir svartsýnustu hafa fullyrt síðustu ár. Í það minnsta hefur hann lent í ágætum „skotum“ í vatninu í maí og júní síðustu sumur.

En nú byrjaði veiðin frábærlega, strax 1. maí, og hefur áfram verið góð. Í raun svo góð að samanlögð veiði fyrstu tólf dagana hlýtur að slaga upp í heildarveiðina allt sumarið í fyrra. Sem dæmi þá veiddust um eitthundrað silungar strax fyrstu tvo dagana á fimm stanganna, hjá veiðifélögunum Ármönnum og Árbliki. Ekki hafa allir lent í viðlíka tökustuði á bleikjunni en þó hefur veiðin verið góð áfram. Veiðifélagar sem voru með tvær dagsstangir á mánudaginn færðu 40 bleikjur til bókar hjá Ármönnum og voru þá 150 fiskar komnar í þá veiðibók eina.

Bleikjurnar voru tökuglaðar, tóku hefðbundnar smáar púpur, Krókinn, Ölmu Rún, Peacock, og inn á milli voru þrælvænir fiskar, allt að 54 cm langir. Þá fékk annar veiðimannanna óvænta veiði við Hlíðarey, vel haldinn 53 cm sjóbirting, en þeim er að fjölga í þessu vatni sem öðrum víða um land.

Nokkrar enn stærri bleikjur hafa veiðst í Hlíðarvatni í vor, til að mynda ein 62 cm sem tók Engjaflugu númer 16, örsmáa, í Botnavík og allmargar yfir 50 cm hafa veiðst.

Um hundrað birtinga holl

Margir hafa haft áhyggjur af vatnsleysi ánna í Landbroti þar sem efsti hluti hins fornfræga veiðivatns Grenlækjar nær þornaði upp. Nú er reynt að bæta úr því, með því að veita vatni á hraunið. Veiði hófst í vikunni í neðsta hluta Grenlækjar, Fitjaflóði, og hefur veiðst mjög vel enda vatnsstaðan betri á sléttlendinu þar neðan hraunsins. Fyrsta hollið náði um 80 sjóbirtingum og hópur Keflvíkinga sem skipaði þriðja hollið lauk veiðum í gær.

„Það gekk mjög vel,“ sagði einn þeirra, Óskar Færseth. „Það er mikill fiskur á svæðinu en einkum geldfiskur. Við veltum fyrir okkur hvort hrygningarfiskurinn gæti enn verið ofar í ánni eða þá genginn út.

Það er minna vatn í Flóðinu en við erum vanir en við lentum í flottu veðri og sáum töluvert mikið af fiski.“ Óskar bætir við að geldfiskurinn hafi tekið vel og hafi megni aflans verið sleppt; veiðin var rúmlega eitthundrað fiskar. „Þetta var þrælgaman og við erum alsælir.“