Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Félagsdómur á eftir að taka afstöðu til þess hvort þjálfunarbann flugumferðarstjóra standist lög. Tók dómurinn málið fyrir í vikunni.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Félagsdómur á eftir að taka afstöðu til þess hvort þjálfunarbann flugumferðarstjóra standist lög. Tók dómurinn málið fyrir í vikunni.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur átt í kjaradeilum við Isavia og vegna þeirra var sett á yfirvinnubann 6. apríl sl. Ekkert hefur gengið í viðræðum og var þjálfunarbann sett á 6. maí sl., sem felst í því að flugumferðarstjórum er bannað að sinna þjálfun nýliða.

Samninganefndir hittust síðast í Karphúsinu sl. mánudag og segir Sigurjón Jónasson, formaður FÍF, engan árangur hafa náðst í þeim viðræðum. Hefur sáttasemjari boðað næsta fund föstudaginn 20. maí.

„Félagsdómur mun ekki leysa deiluna sem slíka en gæti komið hreyfingu á viðræðurnar,“ segir Sigurjón um áhrif þess ef félagsdómur fellur flugumferðarstjórum í vil.

Vegna aðgerða flugumferðarstjóra hefur mest röskun orðið á flugi um Reykjavíkurflugvöll að nóttu til. Hafa flugferðir verið færðar til þegar veikindi hafa komið upp á næturvakt. Þannig hefur Flugfélag Íslands orðið að flýta ferðum þannig að vélarnar geti lent áður en næturvaktin hefst. Þá varð nokkur skerðing á þjónustu á Keflavíkurflugvelli í lok apríl.

Isavia hefur sömuleiðis orðið að beina mörgum flugferðum suður fyrir íslenska flugstjórnarsvæðið.

1,5 milljörðum meiri kostnaður

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir nákvæmar tölur um fjölda ferða ekki liggja fyrir. Gróft áætlað megi þó telja að um 2 þúsund flugferðir hafi verið farnar suður fyrir svæðið.

„Þetta hefur lítil fjárhagsleg áhrif fyrir Isavia en þessu fylgir aukinn rekstrarkostnaður fyrir flugfélögin þar sem þau geta ekki alltaf valið hagkvæmustu leiðina,“ segir Guðni og telur að rekstrarkostnaður viðkomandi flugfélaga hafi aukist um 1,5 milljarða kr. frá því að yfirvinnubann flugumferðarstjóra tók gildi.