Höfn Umsagnir hafa borist um ný heildarlög um dómstóla.
Höfn Umsagnir hafa borist um ný heildarlög um dómstóla. — Morgunblaðið/Golli
Frumvarp um ný heildarlög um dómstóla, þar sem meginefnið er upptaka nýs millidómstigs, liggur nú fyrir Alþingi. Meðal þeirra sem sent hafa umsögn um frumvarpið er Sókn lögmannsstofa á Egilsstöðum. Er þar m.a.

Frumvarp um ný heildarlög um dómstóla, þar sem meginefnið er upptaka nýs millidómstigs, liggur nú fyrir Alþingi. Meðal þeirra sem sent hafa umsögn um frumvarpið er Sókn lögmannsstofa á Egilsstöðum. Er þar m.a. bent á að borist hafi umsagnir þess efnis að færa eigi Austur-Skaftafellssýslu undir umdæmi Héraðsdóms Suðurlands og þannig undan Héraðsdómi Austurlands.

„Það er ekkert fjallað um þetta atriði í frumvarpinu,“ segir Jón Jónsson, hæstaréttarlögmaður hjá Sókn, í samtali við Morgunblaðið.

„Það er ófært að ákvörðun um breytingu á umdæmum héraðsdómstóla á Íslandi verði tekin til afgreiðslu Alþingis, án þess að kynnt hafi verið að slíkt sé á dagskrá samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi. Bæði þurfa fulltrúar aðila sem starfa að réttarfarsmálum á landsvísu, s.s. Lögmannafélag Íslands og Dómarafélag Íslands, og aðilar með sérstaka tengingu við mögulega umdæmisbreytingu, að fá tækifæri til að taka afstöðu til málsins,“ segir í umsögn áðurnefndrar lögmannsstofu.

Rúmlega 400 km vegalengd

Jón bendir á að staðsetning héraðsdómstóla landsins, innan hæfilegrar fjarlægðar frá almenningi, sé þáttur í að tryggja aðgang fólks að dómstólum. En með því að breyta starfsumhverfi héraðsdómstóla þannig að Austur-Skaftafellssýsla falli fremur undir umdæmi Héraðsdóms Suðurlands þyrftu t.a.m. íbúar á Höfn að mæta í héraðsdóm í 401 km fjarlægð á Selfossi, s.s. vegna vitnaskýrslna eða aðildar að máli, í stað þess að ferðast 185 km á Egilsstaði um Öxi. khj@mbl.is