[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Svanhildur Eiríksdóttir Reykjanesbær Listahátíð barna stendur nú yfir í Reykjanesbæ. Hátíðin var formlega sett í 11. sinn hinn 4. maí sl. og í framhaldi var haldin Barnahátíð í Reykjanesbæ með margvíslegum dagskrárliðum og viðburðum.

Úr bæjarlífinu

Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbær

Listahátíð barna stendur nú yfir í Reykjanesbæ. Hátíðin var formlega sett í 11. sinn hinn 4. maí sl. og í framhaldi var haldin Barnahátíð í Reykjanesbæ með margvíslegum dagskrárliðum og viðburðum. Einn stærsti hluti Listahátíðar eru sýningar leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólabarna í Duus Safnahúsum og standa þær yfir til 22. maí.

Leikskólabörn tóku tröll fyrir í sýningu sinni og er sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar undirlagður í tröllum og forynjum í stærri kantinum. Grunnskólabörn sýna afrakstur vinnu í listasmiðjum skólanna og nemendur á listnámsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sýna úrval verka.

Þá er farandljósmyndasýningin Óskir íslenskra barna einnig í gangi í Duus Safnahúsum, en á sýningunni eru sláandi myndir af upplifun barna af ofbeldi, vanrækslu og fátækt. Sýningin er gjöf ljósmyndarans Ástu Kristjánsdóttur og Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna og Barnasáttmálans.

Þetta vilja börnin sjá er svo heiti á farandmyndlistarsýningu í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar, sem er einnig hluti af Listahátíð barna og stendur til 18. júní. Þar er sýnt úrval myndskreytinga úr íslenskum barnabókum sem gefnar voru út árið 2015. Bækurnar eru jafnframt til sýnis og hægt að lesa og upplifa um leið og sýningin er skoðuð.

Reykjanesbær hefur notið góðs af auknum straumi ferðamanna til landsins, líkt og landið í heild. Hér er jafnan talað um að Reykjanesbær sé hlið inn í landið, enda bærinn í túnfæti alþjóðaflugvallar. Gistinóttum á Suðurnesjum öllum fjölgaði um 175% á árunum 2008 til 2014 að því er fram kemur í nýlegri skýrslu Nordregio, Landfræðistofnunar Norðurlanda og var fjölgun ferðamanna hvergi meiri en á Íslandi á þessu tímabili. Þá eru Suðurnesin á topp 5 lista í skýrslunni yfir áhugaverð landsbyggða- og heimskautasvæði.

Í takt við þessi tíðindi hefur gistirýmum fjölgað sem og bílaleigum og önnur ferðatengd þjónusta. Það hefur kallað á fjölgun starfsfólks sem leiðir af sér minna atvinnuleysi og minni þörf fyrir félagsaðstoð. Íbúum hefur líka fjölgað mest á þessu landsvæði og í Reykjanesbæ einum fjölgaði íbúum um rúm 2% árið 2015. Flestir kaupsamningar sem gerðir hafa verið utan höfuðborgarsvæðis eru á Suðurnesjum, samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Þjóðskrá.

Fyrsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi verður opnað í Reykjanesbæ nk. þriðjudag, á fjórðu hæð Hótel Keflavíkur. Það heitir Diamond Suites og verður opnað á 30 ára afmæli Hótel Keflavíkur. Diamond Suites er hugsað fyrir fólk sem vill lúxus. Eigendum hótelsins fannst vanta þennan möguleika í íslenskri ferðaþjónustu og vilja auka á upplifun þeirra sem sækja í gistingu af þessu tagi.

Í skólum Reykjanesbæjar fer fram öflugt og metnaðarfullt starf sem vakið hefur athygli. Nú gefst íbúum tækifæri til að tilnefna kennara eða starfsmenn skólanna til hvatningarverðlauna fræðsluráðs 2016. Tekið er á móti tilnefningum til 20. maí nk. Kosningin er rafræn.

Sumar í Reykjanesbæ er heiti á vefriti þar sem foreldrar og aðstandendur finna alla þá afþreyingu sem boðið er upp á fyrir börn í bænum yfir sumarmánuðina. Vefritið verður aðgengilegt á vef Reykjanesbæjar frá 17. maí.