Langförulir Rauðbrystingar á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.
Langförulir Rauðbrystingar á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. — Morgunblaðið/Ómar
Rannsókn hefur leitt í ljós að rauðbrystingar hafa minnkað á síðustu áratugum og vísindamenn rekja það til loftslagsbreytinga í heiminum, að því er fram kemur í tímaritinu Science.

Rannsókn hefur leitt í ljós að rauðbrystingar hafa minnkað á síðustu áratugum og vísindamenn rekja það til loftslagsbreytinga í heiminum, að því er fram kemur í tímaritinu Science. Þeir telja breytinguna á vaðfuglunum stafa af hlýnun á varpstöðvum þeirra á norðurslóðum og segja að hún geti komið þeim illa á vetrarstöðvunum í Afríku.

Rauðbrystingar eru fargestir á Íslandi vor og haust þegar þeir hafa viðkomu hér á leiðinni á milli varpstöðvanna í norðri og vetrarstöðvanna í suðri. Þeir eru á meðal þeirra fugla sem fara lengst á farflugi og geta flogið u.þ.b. 5.000 km án þess að nema staðar.

Fréttavefur BBC hefur eftir hollenska vísindamanninum, Jan van Gils, sem stjórnaði rannsókninni, að stærð og lögun rauðbrystinga hafi breyst og talið sé að það stafi af hlýnun á varpstöðvunum þar sem snjórinn bráðni um tveimur vikum fyrr að meðaltali en áður. Breytingar á lífríkinu vegna hlýnunar hafi orðið til þess að rauðbrystingar geti af sér sífellt minni afkvæmi. Þetta minnki líkurnar á því að þeir geti lifað af á vetrarstöðvunum í Afríku þar sem lindýr eru aðalfæða þeirra. Rannsóknin leiddi í ljós að rauðbrystingar með minni gogga geta ekki veitt lindýrin og þurfa að éta næringarsnauðari fæðu. Færri ungar komast því á legg en áður. bogi@mbl.is