Jón Gestur Jónsson fæddist 26. september 1926. Hann lést 19. apríl 2016. Útför hans fór 27. apríl 2016.

Það er hægt að segja mjög margt um hann afa minn. Hann var góður, blíður, frábær. Hann var fyndinn – ótrúlega var hann fyndinn, hafði alltaf að minnsta kosti einn góðan brandara uppi í erminni.

Hann var sterkur, man þegar hann klauf epli í tvennt með berum höndum og þegar hann lyfti mér upp á eyrunum.

Hann var klár, snjall og duglegur.

Ég dáðist alltaf að honum hvað hann var góður í höndunum, held í alvöru að það hafi ekki verið neitt sem hann ekki kunni að byggja og hann gat látið hvað sem er vaxa og dafna í Sléttuhlíðinni, mig líka.

Mér leið alltaf vel þegar ég var með afa, vildi bara að ég hefði verið oftar með honum. En það sem ég man best eftir eru sögurnar sem hann sagði mér.

Ég gat setið og hlustað á hann segja sögur í marga klukkutíma og aldrei orðið leiður á því.

Hann var afburðasögumaður og ég hef alltaf reynt að temja mér það að segja sögur eins vel og afi minn og ég vona að ég verði það einhvern tímann.

Afi kenndi mér líka fullt. Hvernig á að halda á hamri, hvernig á að hjóla aftur á bak, hvernig á að hlusta og alveg ótrúlega margt annað, listinn er eiginlega of langur til þess að skrifa hér.

Eitt ætla ég samt að nefna sérstaklega.

Hann afi minn kenndi mér að lesa ljóð. Hann kenndi mér að lesa Davíð Stefánsson og hann las fyrir mig Bjólu-Hjálmar, fór með vísur og sagði mér frá Kristjáni Fjallaskáldi. Mér þótti og þykir alltaf mjög vænt um það, takk fyrir mig.

Núna langar mig að skilja þetta ljóð eftir fyrir þig afi minn.

Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax,

og kvöldið stóð álengdar, hikandi, feimið og beið.

Að baki okkur týndist í mistrið hin l

angfarna leið,

eins og léttstigin barnsspor í rökkur hins hnígandi dags.

Og við settumst við veginn, tveir

ferðlúnir framandi menn,

eins og fuglar, sem þöndu sinn væng

yfir úthöfin breið.

Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og

lokið sé leið,

þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn.

(Steinn Steinarr)

Nú myndi ég glaður þiggja brjóstsykurinn og Tuma-nafnið líka,

Georg Atli.

Ef ég ætti að velja eitt orð til þess að lýsa honum afa mínum væri það karakter. Því ef ég fer yfir allar þær minningar sem ég á af afa mínum þá er hann alltaf miðpunkturinn. Alveg sama hvort sem það var stórveisla eða bara ég og hann uppi í Sléttuhlíð.

Afi var svo mikill persónuleiki að hann fyllti hvert rými af nærveru sinni.

Afi var ótrúlega fyndinn, mín fyrsta minning af afa er þegar við vorum uppi í Sléttuhlíð að kvöldi til þar sem afi var með kúst sem hanakamb syngjandi og leikandi með Spike Jones.

Sem barn leit ég upp til hans sem ofurhetju, hann gat allt og gerði allt.

Hann var sterkastur og duglegastur. Sem unglingur uppgötvaði ég að hann var ekki bara duglegur kraftakarl heldur mikill sögumaður og allir hlutirnir sem hann hafði upplifað voru ótrúlegir.

Sem fullorðinn maður fór ég að líta upp til hans fyrir manneskjuna sem hann var, hvernig hann kom fram við náungann var virðingavert og eitthvað sem ég mun tileinka mér.

Ég dáist að samskiptum hans og ömmu, að vera yfir sig ástfanginn alla sína ævi upplifa ekki allir en þau gerðu það svo sannarlega.

Þú verður alltaf mín fyrirmynd og ég er ævinlega þakklátur að hafa átt afa eins og þig.

Vilhjálmur Freyr

Hallsson.