Tónleikar Mótettukór Hallgrímskirkju heldur tónleika á hvítasunnudag kl. 17. Á efnisskránni er áhrifamikil kórtónlist úr ýmsum áttum.
Tónleikar Mótettukór Hallgrímskirkju heldur tónleika á hvítasunnudag kl. 17. Á efnisskránni er áhrifamikil kórtónlist úr ýmsum áttum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndarleg hátíðarhöld verða um hvítasunnuna í Hallgrímskirkju að vanda og meðal annars boðið upp á tónleika og myndlistarsýningu. Á laugardag kl. 12 heldur Hörður Áskelsson orgelleikari orgeltónleika. Leikin verða hvítasunnutengd orgelverk eftir J.S.

Myndarleg hátíðarhöld verða um hvítasunnuna í Hallgrímskirkju að vanda og meðal annars boðið upp á tónleika og myndlistarsýningu.

Á laugardag kl. 12 heldur Hörður Áskelsson orgelleikari orgeltónleika. Leikin verða hvítasunnutengd orgelverk eftir J.S. Bach, D'Grigny, Buxtehude og Johann Walter.

Á sunnudagsmorgninum kl. 11 verður hátíðarmessa þar sem Mótettukór Hallgrímskirkju syngur hátíðartónlist undir stjórn Harðar Áskelssonar. Dr. Sigurður Árni Þórðarson messar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið. Messan er í beinni útsendingu á Rás 1.

Annan í hvítasunnu mun dr. Sigurður einnig messa og um tónlist sjá félagar úr Mótettukórnum og Björn Steinar.

Á sunndaginn kl. 17. fara fram Hvítasunnutónleikar Mótettukórsins. Á efnisskránni er sögð áhrifamikil kórtónlist eftir Duruflé, Bruckner, Messiaen, Knut Nystedt, Rachmaninoff (úr Vesper), Hreiðar Inga Þorsteinsson, Halldór Hauksson og Frank Martin (úr Messu fyrir tvo kóra). Einsöngvari er Auður Guðjohnsen og stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Hulda Hákon sýnir Pétur

Hin kunna myndlistarkona Hulda Hákon opnar myndlistarsýningu í kirkjunni, strax á eftir sunnudagsmessunni kl. 12.15. Hulda sýnir lágmyndir þar sem hún blandar saman minnum úr kristinni sögu og aðstæðum íslenskra sjómanna. Hún sýnir fjögur verk á sýningu sem hún kallar Pétur og felast í heitinu tilvísanir í nútíma og túlkun á myndmáli ríkulegrar trúarsögu. Hulda leggur upp með túlkun sína á Pétri við hafið og kemur hafið fyrir í öllum verkunum á einn eða annan hátt. Í verkunum er öflug heimfærsla til hafsins við Heimaey.

Listaverkin nefnir hún Pétur (að stíga fyrstu skrefin á vatninu að áeggjan Jesú), Eldhaf , Skipbrotsmannaskýlið á Faxaskeri og Háfadjúp (fiskimið austan við Heimaey).

Heilagur Pétur tengist hafinu sterkum böndum, enda var hann fiskveiðimannssonurinn sem varð einn af lærisveinum Jesú, kletturinn sem Kristur sagðist myndi byggja kirkju sína á. Margir hafa samsamað sig Pétri í íslenskri kirkjumenningu gegnum aldirnar, enda var hann bláber alþýðumaður, breyskur og mannlegur. Myndmál sitt, segir í tilkynningu, sækir Hulda til Vestmannaeyja og sjávarins kringum þær.