Útför Mustafa Amine Badreddine borinn til grafar í Beirút.
Útför Mustafa Amine Badreddine borinn til grafar í Beirút. — AFP
Þúsundir manna söfnuðust saman í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær til að fylgja helsta herforingja samtakanna Hizbollah til grafar eftir að skýrt var frá því að hann hefði látið lífið í Sýrlandi.

Þúsundir manna söfnuðust saman í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær til að fylgja helsta herforingja samtakanna Hizbollah til grafar eftir að skýrt var frá því að hann hefði látið lífið í Sýrlandi. Mustafa Amine Badreddine beið bana í mikilli sprengingu nálægt flugvellinum í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, að sögn samtakanna.

Leiðtogar Hizbollah, samtaka sjíta í Líbanon, hafa sent þúsundir liðsmanna þeirra til Sýrlands þar sem þeir hafa barist með hermönnum einræðisstjórnar landsins ásamt hermönnum klerkastjórnarinnar í Íran. Stjórnvöld í Bandaríkjunum sögðu í fyrra að Badreddine hefði stjórnað öllum hernaðaraðgerðum Hizbollah í Sýrlandi frá árinu 2011.

Ákærður fyrir morðið á Hariri

Ekki var vitað í gær hverjir urðu Badreddine að bana. Í fyrstu frétt sjónvarpsstöðvar í Líbanon um fall hans var sagt að hann hefði beðið bana í sprengjuárás Ísraelshers. Í tilkynningu sem Hizbollah gaf út skömmu síðar til að staðfesta dauða Badreddine var hins vegar ekki minnst á herinn í Ísrael.

Í tilkynningu Hizbollah segir að hann hafi gegnt mikilvægu hlutverki í starfi samtakanna frá árinu 1982.

Baddreddine var 55 ára og tók við foringjahlutverkinu af bræðrungi og mági sínum, Imad Mughniyeh, sem lét lífið í sprengjuárás í Damaskus árið 2008. Samtökin sökuðu Ísraelsher um þá árás. Frændurnir tveir eru sagðir hafa unnið saman að sprengjuárás á bækistöðvar bandarískra hermanna í Beirút í október 1983 þegar 241 beið bana.

Baddreddine var einnig ákærður ásamt fleiri liðsmönnum Hizbollah fyrir að hafa myrt Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, árið 2005.